Ávarp Karl 3. ávarpaði ráðstefnuna um hættur sem fylgja gervigreind.
Ávarp Karl 3. ávarpaði ráðstefnuna um hættur sem fylgja gervigreind. — AFP/Leon Neal
Fulltrúar 28 ríkja og Evrópusambandsins komu saman í Bletchley Park í Bretlandi í gær og undirrituðu þar sérstaka yfirlýsingu um hættur sem fylgt geta gervigreind (AI). Bandaríkin, Bretland og Kína voru á meðal ríkjanna 28, en Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands var gestgjafi ráðstefnunnar

Fulltrúar 28 ríkja og Evrópusambandsins komu saman í Bletchley Park í Bretlandi í gær og undirrituðu þar sérstaka yfirlýsingu um hættur sem fylgt geta gervigreind (AI). Bandaríkin, Bretland og Kína voru á meðal ríkjanna 28, en Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands var gestgjafi ráðstefnunnar.

Í Bletchley-yfirlýsingunni samþykktu ríkin 28 að brýn þörf væri á að skilja og stýra í samvinnu þessum hættum með sameiginlegu alþjóðlegu átaki, sem á að tryggja að gervigreind „sé þróuð og beitt á öruggan og ábyrgan hátt alþjóðasamfélaginu til hagsbóta“.

Sunak sagði að yfirlýsingin bryti blað í sögunni, en Karl 3. Bretakonungur, sem nú er staddur í Kenía, sendi ávarp til fundarins og skoraði á gesti að tryggja alþjóðlega samvinnu um þróun hinnar nýju tækni.

Sagði hann að tilkoma gervigreindar gæti mögulega kallað fram jafnmikið stökk fyrir mannkynið og uppgötvun eldsins og beislun rafmagns og kjarnorku voru á sinni tíð. „Ef við ætlum að raungera þá miklu kosti sem gervigreind hefur, verðum við að vinna saman til að berjast gegn þeim miklu hættum sem fylgja henni líka,“ sagði Karl í ávarpi sínu.

Auðkýfingurinn Elon Musk sótti ráðstefnuna í gær og sagði að tími hefði verið til kominn að halda ráðstefnu sem þessa. Sagði hann gervigreind vera eina af hættunum sem gætu ógnað framtíð mannkynsins, og mögulega þá sem væri mest krefjandi þegar litið væri til hversu hratt tæknin hefði þróast.

Sagði Musk að hann væri ekki viss um að mannkynið gæti stjórnað gervigreindinni, en að það gæti mögulega beint henni á brautir sem yrðu mannkyninu til góða.