Geir Geirsson fæddist í Reykjavík 4. maí 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 19. október 2023.

Foreldrar hans voru Rebekka Þorsteinsdóttir, f. 15.9. 1899 í Þormóðsey á Breiðafirði, d. 3.4. 1945, og Geir Magnússon, f. 30.10. 1897 á Þurá í Ölfusi, d. 2.8. 1954. Systkini hans eru Steinunn, f. 1930, d. 2023, Magnús, f. 1931, d. 2010, Ágúst, f. 1933, Valgeir, f. 1935, d. 1962, Þorsteinn, f. 1941, d. 2010, og Sigurður, f. 1943, d. 2022. Fósturforeldrar Geirs frá sex ára aldri í Stykkishólmi voru Jóhann Guðjónsson, f. 1901, d. 1998, og Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 1894, d. 1958, en hún var jafnframt móðursystir Geirs.

Geir kvæntist 25. desember 1961 Hugrúnu Einarsdóttur, f. 10. apríl 1941. Börn þeirra eru: 1) Sigrún, f. 16.10. 1961, eiginmaður Jalil Abid Mustafa. Dætur þeirra eru Rana, f. 1998, Núra, f. 2000, og Sema f. 2005. 2) Steinunn, f. 28.9. 1963, eiginmaður Aðalsteinn Sigurgeirsson. Börn þeirra eru Hugrún, f. 1990, eiginmaður Arnór Ásgeirsson, þeirra sonur er Aðalsteinn, f. 2021, Borghildur, f. 1993, sambýlismaður Tómas Ingi Shelton, og Geir, f. 2000. 3) Guðrún, f. 22.2. 1969, börn hennar og fv. eiginmanns Jens Fylkissonar eru Haukur, f. 1996, og Dagbjört, f. 2001. 4) Valgeir, f. 25.2. 1974, börn hans og fv. eiginkonu, Sigríðar Ástu Árnadóttur, eru Árni Geir, f. 1995, sambýliskona Sigríður V.S. Embludóttir, Sigrún, f. 2001, og Úlfgrímur, f. 2003. Sambýliskona Valgeirs er Jóhanna María Þórhallsdóttir, þeirra sonur er Víkingur, f. 2019.

Geir lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1960. Tók eins misseris námskeið í stjórnun við University of Wisconsin í Madison 1984. Varð löggiltur endurskoðandi 1970. Geir starfaði í ýmsum deildum Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) 1960-1969. Innri endurskoðandi SÍS 1969-1978. Rak eigin endurskoðunarskrifstofu í Reykjavík 1979-1987. Meðeigandi og endurskoðandi hjá Endurskoðunarmiðstöðinni hf., N. Manscher, síðar Pricewaterhouse Coopers hf., frá 1. jan. 1988-2005. Sérfræðingur hjá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra frá 2006-2012.

Geir sat í stjórn Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) 1973-1977, varaformaður 1973-1975 og formaður 1975-1977. Hann gegndi auk þess ýmsum nefndarstörfum. Hann hlaut gullmerki FLE 16. júlí 2010.

Útför Geirs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 2. nóvember 2023, klukkan 13.

Árið 1984 tókust kynni með okkur Steinunni sem varð að hjónabandi okkar sjö árum síðar. Um líkt leyti kynntist ég fyrst foreldrum hennar, þeim Geir og Hugrúnu. Áttu þau hjón eftir að verða veigamikill þáttur og stuðningur í daglegu lífi okkar fjölskyldu næstu fjóra áratugi. Geir Geirsson var maður réttsýnn, hógvær, góðgjarn og ráðhollur. Hann var vel metinn í atvinnulífinu, í krefjandi starfi sínu sem endurskoðandi. En hann naut ekki síður virðingar á heimili, hjá maka, börnum, systkinum og venslafólki. Honum var margt til lista lagt; hann var fjölfróður, vel lesinn og stálminnugur á flest það sem varðaði sögu, landafræði, bókmenntir eða klassíska tónlist. Hélst minni hans óskert fram til dauðadags. Hann var listakokkur sem vildi ætíð annast einn matargerð í eldhúsi sínu. Að auki var Geir maður barngóður og mikill vinur barnabarna sinna og hélst sú vinátta fram á fullorðinsár þeirra, til hinstu stundar hans.

Ekki hafði verið mulið undir Geir í æsku. Hann var hluti af stórum systkinahópi sem ungur missti foreldra sína. Móðurina missti Geir þegar hann var sex ára gamall en föðurinn þegar hann var fimmtán ára. Við móðurmissinn fór hann í fóstur til móðursystur sinnar og eiginmanns hennar í Stykkishólmi. Fór hann fljótlega upp úr fermingu að vinna fyrir sér og safna fyrir námi við Samvinnuskólann á Bifröst. Eftir nám hóf hann að starfa við endurskoðun, byrjaði með tvær hendur tómar en komst til álna og metorða í krafti góðrar greindar, skarpskyggni og dugnaðar. Einkennandi í skapferli var alla tíð festa, sjálfsögun og vilji til þess að standa í skilum.

Fljótlega eftir að Geir hætti störfum fór hann að finna fyrir einkennum taugahrörnunarsjúkdómsins sem kenndur er við parkinson. Einkennin ágerðust með árunum, svo aðstoðar og umönnunar Hugrúnar tengdamóður varð sífellt meiri þörf. Að því kom, að hann þarfnaðist vistar á hjúkrunarheimilinu Mörk þar sem hann gæti notið viðeigandi og stöðugrar aðhlynningar. Þessi tími hlýtur að hafa verið erfiður manni sem aldrei hafði þurft að vera öðrum háður, en aldrei varð ég þess var að hann kveinkaði sér né léti hugfallast við mótlætið.

Eftir nær fjörutíu ára kynni er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa kynnst slíkum sómamanni sem Geir Geirsson var. Minning hans lifir í huga mínum um ókomin ár. Votta ég tengdamóður minni, börnum hans og öðrum afkomendum mína dýpstu samúð.

Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Afi var mikill fjölskyldumaður og sterk persóna. Hann var góður maður og traustur, heill, gefandi og stoltur. Við erum þakklátar fyrir að hafa átt hann að og fyrir allar samverustundirnar sem við áttum því þótt við höfum búið fjarri og ekki getað séð hann eins oft og ef við hefðum búið nær, þá nutum við reglulega lengri samvista við hann og ömmu sem voru dugleg að heimsækja og dvelja hjá okkur og ekki þá síður að taka á móti okkur í Kvistalandinu.

Minningarnar streyma fram þegar við hugsum til afa. Rönu er sérstaklega minnisstætt gönguferðalagið sem hún fór í með afa og ömmu á Strandirnar. Einn daginn vildi Rana ekki fara út þar sem mikið kríuger sveimaði um og hún óttaðist að fuglarnir myndu steypa sér og gogga í hana. Afi gaf henni göngustaf til að halda á lofti og sýndi henni hvernig átti að verja sig en hann var mjög fróður um land og sögu og kenndi okkur margt.

Afi var bókelskur og einstaklega vel lesinn. Þegar Núra dvaldi ein hjá afa og ömmu eitt sumarið þá var það fastur liður að á hverju kvöldi kom afi upp á loftið til hennar með bláber og rjóma og spurði hvaða bók hún hefði valið á bókasafninu þann daginn og hvað hún væri að lesa um. Núra fann svo vel til skyldleikans, það þurfti aldrei að tala mjög mikið en þessar minningar og tíminn sem þau áttu saman eru ómetanleg.

Ein uppáhaldsminning Semu er þegar afi og amma slógust í för með henni og kórnum hennar frá Yellowknife í söngferð um Nova Scotia. Þau mættu alls staðar sem þar hún var að syngja og gerðu skemmtilega ferð ennþá betri og sérstakari. Afi var afskaplega tónelskur og alltaf tilbúinn að hlusta á okkur spila á píanóið eða syngja. Stuðningur afa og samgleði voru okkur afar dýrmæt.

Nú þegar afi hefur yfirgefið þetta líf er okkur efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt hann að og fyrir öll ævintýrin og góðu minningarnar sem hann skilur eftir í hjörtum okkar. Við þökkum líka arfleifð hans í ferskjutrjám sem hann gróðursetti í garðinum okkar í Kelowna og bera nú nafn hans. Við munum ávallt minnast afa okkar með hlýju og þakklæti. Hvíl í friði, elsku afi.

Rana, Núra og Sema Jalil Aga.

Á mínum fyrstu árum var afi allra mesti uppáhaldsfjölskyldumeðlimur minn. Þess bera merki ljósmyndir úr æsku minni, á mjög mörgum þeirra er ég við hlið eða í fangi afa. Þegar við systur vorum litlar og framundan var pössun hjá ömmu og afa í Kvistalandi hlökkuðum við alltaf til, því afi var alveg afburðagóður kokkur og leyfði okkur oftast að velja hvað væri í matinn. Sama hvað ég reyni hefur mér ekki enn tekist að elda jafn gott gúllas og hann gerði. Ef við gistum þá sváfu amma og Hugrún alltaf niðri og fóru saman með bænir, en við afi kúrðum uppi á lofti og slepptum því líklega yfirleitt að biðja til þeirra skýjum ofar.

Ég held að vegna þess að við höfðum að sumu leyti dálítið líka skapgerð hafi ég komist upp með ýmsa sérvisku hjá afa, eins og til dæmis að fá alltaf að sitja í sama sæti við borðstofuborðið við hlið hans, eða þegar toblerone var borið fram með kaffinu þá fékk ég undantekningarlaust að eiga molann sem var merktur með B. Þegar ég svo varð eldri fékk ég leyfi til að gramsa í vínylplötunum og geisladiskunum hans og taka með mér heim, því hann vissi að við áttum það sameiginlegt að fara mjög vel með hluti – að skemma eða týna var ekki til í okkar orðabók.

Afi var eini fullorðni einstaklingurinn sem ég man eftir sem nennti að horfa með okkur krökkunum á teiknimyndir og ég heyri ennþá fyrir mér hláturinn hans yfir Tomma og Jenna. Hann sá alltaf til þess að við hefðum með okkur smá vasapening í útlandaferðir en hann lumaði yfirleitt á nokkrum seðlum í hvaða mynt sem þurfti þá stundina. Hann leyfði mér oft að eiga dósapening og styrkti mig langt fram á fullorðinsár, nú síðast þegar ég fór í skiptinám í háskólanum en án hans stuðnings hefði önnin í Þýskalandi reynst mér töluvert erfiðari fjárhagslega.

Síðustu ár skapaðist sú góða hefð að fjölskyldan hittist vikulega hjá ömmu og afa í þriðjudagskaffi. Það var alltaf notalegt að koma og sitja í stofunni, spjalla yfir kaffibolla og njóta veitinga sem amma töfraði fram. Á þessum dögum var allt milli himins og jarðar rætt. Afi var alla tíð hæglátur og hafði ekki þörf fyrir að ota sínum skoðunum fram, en þegar hann lagði eitthvað til málanna þá lögðu allir við hlustir. Hann var nákvæmur, gáfaður og stálminnugur, í raun eins og uppflettirit og alltaf hægt að treysta því að nöfn, staðir, ártöl og viðburðir sem hann þuldi upp væru hárrétt. Síðast en ekki síst var hann launfyndinn og kom yfirleitt með bestu brandarana eða athugasemdirnar án þess að mikið bæri á.

Ég kveð elsku afa minn með söknuði og minnist hans með virðingu og þakklæti.

Þín

Borghildur.

Það er skrítin tilfinning að kveðja afa sinn sem hefur alla mína ævi verið einhvers konar óhagganlegur hornsteinn í tilveru minni. Þau amma hafa búið í sama húsinu allt mitt líf og síðustu 23 ár hef ég búið í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá þeim og hef sótt mikið í félagsskap þeirra.

Ég upplifði alltaf að afi væri svona maður sem vissi allt. Hann var ekki sá sem talaði mest en þegar hann talaði hlustaði fólk. Maður þurfti aldrei að segja honum neitt oftar en einu sinni og hann mundi allt. Eftir að ég byrjaði að vinna sem flugfreyja fyrir átta árum vissi hann yfirleitt alltaf nákvæmlega hvar í heiminum ég var því hann þurfti ekki að heyra mig segja það oftar en einu sinni og mundi svo alla vinnuskrána mína. Ég gat alltaf leitað til hans og hann átti alltaf svör við öllu. Hann sýndi verkefnum mínum ávallt mikinn áhuga og stuðning og ég held að hann hafi verið einn af fáum sem lásu mastersritgerðina mína frá upphafi til enda. Hann hvatti mig til að fara í nám erlendis og þegar ég var tvítug komin til Þýskalands og kunni lítið að elda sendi ég afa ósjaldan tölvupóst og bað um uppskriftir að hinu og þessu sem hann hafði eldað fyrir mig í gegnum tíðina. Það var nefnilega afi sem stóð yfirleitt vaktina í eldhúsinu þegar ég var yngri. Mesta sportið hjá okkur systrum við að fá að gista í Kvistalandi var að afi bauð okkur yfirleitt að velja kvöldmat sjálfar. Oftar en ekki fengum við líka að fara með í Nóatún að kaupa í matinn. Svo galdraði hann fram hvern dýrindis réttinn á fætur öðrum og að sjálfsögðu ís í eftirmat.

Ég er svo heppin að hafa verið elsta barnabarn þeirra og þar af leiðandi átti ég alltaf yngstu og sprækustu ömmuna og afann af mínum vinum. Á unglingsárum mátti ég gjarnan vera í bænum meðan foreldrar mínir og yngri systkini ferðuðust um landið en þá átti ég yfirleitt að gista uppi á lofti í Kvistalandi. Mér er minnisstætt þegar ég læddist þar inn töluvert eftir útivistartíma og skaust upp á loft eins hljóðlega og ég gat því ekki vildi ég vekja ömmu og afa. Einhverju síðar vaknaði ég svo við að þau komu heim um miðja nótt en þau höfðu þá skellt sér í Jónsmessugöngu á miðnætti!

Það er ómetanlegt að hafa átt afa Geir að langt fram á fullorðinsár og ég er þakklát fyrir að hann hafi náð að kynnast Aðalsteini syni mínum sem kallaði hann yfirleitt afaafa og elskaði að koma í vikulega þriðjudagskaffið í Kvistalandi. Takk fyrir allt, afi minn.

Þín dótturdóttir,

Hugrún.

Geir Geirsson var minn mentor í endurskoðun og reikningsskilum. Það er minnisstætt þegar hann hringdi í mig snemma hausts árið 1987 og bauð mér hlutastarf þegar ég var á lokaári í Samvinnuskólanum. Ég hóf svo störf hjá Geir á endurskoðunarskrifstofu hans með námi síðar sama haust. Í upphafi árs 1988 sameinaði hann svo rekstur sinn Endurskoðunarmiðstöðinni N.Manscher og co sem síðar varð PricewaterhouseCoopers (PwC). Við störfuðum síðan saman allt til ársins 2005 þegar hann lét af störfum hjá PwC. Fyrst var ég nemi hans og síðar urðum við samstarfsmenn í eigendahópi félagsins.

Í viðskiptamannahópi Geirs voru fyrst og fremst fyrirtæki tengd samvinnuhreyfingunni, þ.m.t. þá stærsta fyrirtæki landsins, Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS), KEA ásamt mörgum öðrum kaupfélögum. Öll voru þessi félög með umfangsmikinn og fjölbreyttan rekstur á þessum tíma og því var starf Geirs mjög annasamt og vinnudagurinn oft mjög langur, sérstaklega á vertíð endurskoðenda, á fyrri hluta ársins.

Geir var ekki maður margra orða en þegar hann talaði var á hann hlustað. Hann var afburðagreindur og hafði eitt það besta minni sem ég hef kynnst. Hann nýtti greind sína og reynslu við úrlausn flókinna viðfangsefna og naut mikils trausts viðskiptamanna. Töluglöggur var hann með afbrigðum og frábær í íslensku. Það var því mikill lærdómur sem fólst í því að læra endurskoðun hjá honum. Eitt af því góða sem fólst í því að vinna með Geir og læra af honum var að hann treysti manni fyrir verkefnunum og lét mann bjarga sér án afskiptasemi. Yfirferð hans var síðan lærdómsrík og alltaf sá hann ef maður hafði reynt að stytta sér leið í uppgjörum, skattskilum eða framsetningu þeirra. Í yfirferð hans fólst mesti lærdómurinn og maður vissi að hann sá ávallt í gegnum vinnuna og það þýddi ekki að gera sömu mistökin tvisvar.

Í starfi mínu sem endurskoðandi um áratugaskeið hef ég kynnst mörgu mjög kláru fólki, bæði Íslendingum og fólki frá öðrum löndum. Afar fáir þeirra komast þó upp í sama flokk og Geir hvað varðar greind og yfirsýn yfir viðfangsefnin sem þarf að leysa hverju sinni.

Það er með miklu þakklæti sem ég kveð Geir Geirsson endurskoðanda en ég á honum margt að þakka og hann er í raun mikill áhrifavaldur í mínu lífi. Jafnframt færi ég þakklæti frá PwC þar sem Geir var meðeigandi í 17 ár.

Í einkalífinu var Geir hamingjumaður. Hann kynntist sinni góðu konu, Hugrúnu Einarsdóttur, ungur og saman eignuðust þau fjögur börn. Ég sendi Hugrúnu og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Geirs Geirssonar.

Vignir Rafn Gíslason, stjórnarformaður PwC.

Geir Geirsson kvaddi jarðvistina á síðustu dögum sumarsins. Fráfall hans varð óvænt eftir stutt veikindi.

Það var mikill happafengur fyrir starfsfólk Fyrirtækjaskrár sem rekin er hjá ríkisskattstjóra, þegar Geir Geirsson réðst til starfa hjá embættinu árið 2005 sem sérfræðingur í Ársreikningaskrá. Meginverkefni hans þar var að framfylgja eftirlitsskyldum Ársreikningaskrár með félögum sem starfa eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Starfsvettvangur hans var óvenju sérhæfður og hann starfaði sjálfstætt. Við þessar aðstæður urðum við samstarfsmenn og áttum af því tilefni umtalsverð samskipti.

Geir Geirsson var hljóðlátur maður, íhugull og prúðmenni í framkomu. Það var gott að leita til hans og ætíð var farið af fundi hans með þekkingu eða lausn á álitamáli. Geir var bóngóður og lausnamiðaður og taldi ekki eftir sér að liðsinna fólki. Hann hafði góða dómgreind og var fljótur að sjá kjarna hvers máls. Með hógværð og lítillæti færði hann rök fyrir máli sínu þegar taka þurfti ákvörðun. Geir horfði á verkefnin í gegnum gleraugu mikillar reynslu sinnar þar sem hann hafði unnið í atvinnulífinu áratugum saman og hafði aflað sér yfirburða þekkingar. Samtöl við hann voru árangursrík og gefandi. Hann hafði enda góða nærveru, hlýr og gæddur góðri frásagnargáfu. Margt sem var sagt á þeim fundum hefur verið geymt. Hann var afkastamikill og nákvæmur í vinnubrögðum og framsetningu. Betri samstarfsmann var vart unnt að hugsa sér, sómamaður sem naut virðingar samstarfsfólksins.

Þegar Geir nálgaðist lögbundinn eftirlaunaaldur minnti hann á að vera hans hjá ríkisskattstjóra myndi fara að styttast. Þegar þess var óskað að hann héldi störfum áfram varð hann við þeirri bón ekki vegna þess að hann sæktist eftir því, heldur af skyldurækni sinni og virðingu fyrir þeim verkefnum sem honum var trúað fyrir. Árið var 2009 og tímarnir voru erfiðir, eftir að bankar og ýmis fyrirtæki lentu í erfiðleikum. Ólga og umbrotatímar voru í samfélaginu og mikið álag á stofnunum landsins. Miklu skipti því að embættið hefði trausta liðsmenn í starfsliðinu. Geir var þar í fylkingarbrjósti þótt ekki væri hann hávaðasamur. Hann hafði þann eiginleika að geta unnið verkefni sín án þess að hafa um getu sína og afköst mörg orð. Verkin hans töluðu. Það var ómetanlegt að geta notið starfskrafta og trygglyndis hans á þessum erfiðu árum.

Í félagsskap starfsfólksins lét Geir sig ekki vanta. Hann og Hugrún eiginkona hans tóku þátt í mörgum sameiginlegum gönguferðum, þáðu heimboð samstarfsfólks og sóttu kvöldskemmtanir. Við þær aðstæður mátti glögglega finna hversu næmri kímnigáfu Geir var gæddur.

Við sem störfuðum með Geir Geirssyni á síðustu starfsárum hans minnumst hans sem einstaklega góðs starfsfélaga, prúðmennsku hans og fágaðrar framkomu. Honum er þakkað fyrir þau ár og mikilvæg störf hans í þágu samfélagsins. Eiginkonu hans, Hugrúnu Einarsdóttur, börnum þeirra hjóna og öðrum ættingjum eru færðar innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Geirs Geirssonar.

Skúli Eggert Þórðarson.