Þorvaldur Guðmundsson skrifar mér gott bréf: Ég sá fyrir löngu einhvers staðar að í umræðu um girðingar hefði séra Björn á Dvergasteini talað á móti girðingum og þá hefðu þessar vísur verið ortar: Þannig lít ég ætið á og það ber að virða

Þorvaldur Guðmundsson skrifar mér gott bréf: Ég sá fyrir löngu einhvers staðar að í umræðu um girðingar hefði séra Björn á Dvergasteini talað á móti girðingum og þá hefðu þessar vísur verið ortar:

Þannig lít ég ætið á

og það ber að virða.

Mínu sjónarmiði frá

mætti enginn girða.

Ég vil benda ykkur á

ef menn nefnilega

riðu Króknum fullir frá

og færu glannalega.

Þá nefnilega í náttmyrkri

nefnilega mættu

nefnilega nokkurri

nefnilega hættu.

Nýútkomin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi er bókin Alþýðuskáldin á Íslandi – saga um átök eftir Þórð Helgason. Þetta er mikil bók, fróðleg og skemmtileg. Þar stendur á bls. 238: Árið 1906 birti Alþýðublaðið vísu úr mansöng 12. rímu Göngu-Hrólfs rímna Bólu-Hjálmars, sem er einkennileg að því leyti að í henni eru 25 té …

Þáttur tættur flýttur fléttur

fleyttur létti.

Háttur bættur, hnýttur, sléttur

hreyttur detti.

Aðra vísu með 36 té finnur blaðið og birtir:

Eitt sinn þeyttust út um nótt

átta kettir, hratt og létt.

Tuttugu rottur, títt og ótt,

tættu og reyttu á sléttri stétt.

Rúnar Thorsteinsson yrkir og kallar Falska strengi:

Vinátta og kærleikur, vara sjaldan lengi

ef viðlagið er leikið á illa stillta strengi.

Og eitt skal haft í huga ef ást er sett á hlóðir

að eldar gefa styttri hita en glóðir.

Guðný Jakobsdóttir birtir á Boðnarmiði stöku eftir Guðjón Jóh. við fallega ljósmynd:

Hissa margur glennti glyrnu

er gerðist þetta hér.

Tunglið inn í Tunguhyrnu

tróð í morgun sér.

Guðmundur Arnfinnsson um öryrkja:

Sumir kveða kíminn brag

og kvenfólkið fær hnén í.

Þeir sem yrkja oft á dag

eru mikil séní.