Gæslan Ein af þyrlum Gæslunnar TF GRO á Reykjavíkurflugvelli.
Gæslan Ein af þyrlum Gæslunnar TF GRO á Reykjavíkurflugvelli. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján Jónsson kris@mbl.is Umræða um hvernig skuli haga sjúkraflugi hérlendis virðist vera komin á nokkurt flug á ný. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er einn þeirra sem talað hafa fyrir því að komið verði á sjúkraflugi á Suðurlandi sem ekki verði á könnu Landhelgisgæslunnar heldur heilbrigðiskerfisins.

Sviðsljós

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Umræða um hvernig skuli haga sjúkraflugi hérlendis virðist vera komin á nokkurt flug á ný. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er einn þeirra sem talað hafa fyrir því að komið verði á sjúkraflugi á Suðurlandi sem ekki verði á könnu Landhelgisgæslunnar heldur heilbrigðiskerfisins.

„Í vikunni var því haldið fram af þingmanni í Suðurkjördæmi að Landhelgisgæslan hefði staðið í vegi fyrir því að sjúkraþyrluverkefni á Suðurlandi næði fram að ganga. Það er alrangt. Staðreyndin er sú að hagræðing stjórnvalda í kjölfar kórónuveirufaraldursins varð til þess að tilraunaverkefni með sjúkraþyrlu á Suðurlandi var slegið af. Landhelgisgæslan hefur lagt áherslu á faglega og hagkvæma lausn á sjúkraflugi með þyrlum fyrir allt landið en ekki talað gegn auknum viðbúnaði á Suðurlandi. Má í því sambandi benda á tilraunaverkefni með að staðsetja björgunar- og sjúkraþyrlu Landhelgisgæslunnar í Vestmannaeyjum yfir verslunarmannahelgina sem Landhelgisgæslan hafði frumkvæði að,“ segir Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins, og vísar þar til ummæla sem Vilhjálmur lét falla í viðtali á Bylgjunni á dögunum. Sagðist Vilhjálmur telja að Gæslan vildi ekki missa spón úr aski sínum.

Georg segir málflutning Vilhjálms hafa valdið sér vonbrigðum og vera kaldar kveðjur til starfsmanna Gæslunnar.

„Þingmaðurinn hélt því einnig fram að Landhelgisgæslan annaðist „einstaka sjúkraflug“. Í fyrra fór þyrlusveit Landhelgisgæslunnar í 299 útköll og stærstur hluti þeirra var sjúkraflug. Það eru vonbrigði að heyra viðkomandi gera lítið úr þyrlusveit Landhelgisgæslunnar á opinberum vettvangi sem hefur annast sjúkraflug með þyrlum í áratugi og hefur leyst erfið verkefni í öllum veðrum í þeim tilgangi að bjarga mannslífum. Á Facebook-síðu sinni líkir hann þessu við að lögreglan væri látin annast slökkvistörf og öfugt. Það eru kaldar kveðjur til þeirra sem hafa áratuga reynslu af björgunar- og sjúkraflugi með þyrlum.“

Þörf fyrir viðbótarsveit

Georg telur skynsamlegast að ljúka fjármögnun fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar áður en farið verði í að staðsetja sérstakar sjúkraþyrlur á landsbyggðinni.

„Landhelgisgæslan hefur lengi bent á að í starfseminni sé svigrúm til að annast sjúkraflug með þyrlum, líkt og við höfum annast við krefjandi aðstæður í áratugi. Í dag er staðan sú að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar uppfyllir ekki lágmarksviðmið sem sett hafa verið til leitar, björgunar, eftirlits og sjúkraflugs með þyrlum. Einungis 65% ársins hefur Landhelgisgæslan fulla viðbragðsgetu með tveimur áhöfnum og tveimur þyrlum hverju sinni. Til þess að geta annast útköll á sjó með fullnægjandi hætti þarf Landhelgisgæslan að hafa tvær áhafnir og tvær þyrlur svo unnt sé að fara út fyrir 20 sjómílur.

Við teljum rétt að forgangsraða fjármunum á þann veg að fullfjármagna núverandi þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og ljúka því verkefni áður en hafist er handa við að halda úti sérstökum sjúkraþyrlum á landsbyggðinni. Með því að bæta við einni þyrluáhöfn hjá Landhelgisgæslunni nær þyrlusveitin fullri viðbragðsgetu til að annast öll útköll, bæði á sjó og landi, auk þess sem enn frekara svigrúm myndast til að annast sjúkraflug með þeim sérhæfðu og öflugu tækjum sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða.

Þegar búið verður að fullfjármagna núverandi þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar og fullnýta þá getu, yrðu sérstakar sjúkraþyrlur á landsbyggðinni góð viðbót,“ segir Georg og bendir á að læknir frá Landspítalanum sé með í för þegar farið er í útköll.

„Við megum ekki gleyma að það er ekki tilviljun að þessi öflugu tæki eru í flugflota Landhelgisgæslunnar og samsetning áhafnarinnar er með þeim hætti eins og raun ber vitni. Áhafnir Landhelgisgæslunnar eru sérþjálfaðar til að annast sjúkraflug auk þess sem læknir frá Landspítalanum er í áhöfn þegar farið er í útköll. Áratuga reynsla af flugrekstri og sjúkraflugi með þyrlum hefur kennt okkur hjá Landhelgisgæslunni að við þær aðstæður sem við búum við á þessu landi reynist full þörf á að hafa yfir að ráða jafn öflugum tækjum og mannskap með þá þekkingu sem starfar hjá okkar flugflota. Dæmin sanna það.“

Horft til Akureyrar

Hvað þjónustu við landsbyggðina varðar segir Georg að vilji sé til þess hjá Landhelgisgæslunni að staðsetja þyrlu á Akureyri.

„Það er mat Landhelgisgæslunnar að það sé brýnna að staðsetja eina þyrlu Gæslunnar úti á landi, t.d. á Akureyri. Með því yrði þjónusta við íbúa á Norður- og Austurlandi og Vestfjörðum mun betri en nú er. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að Suðurland er það svæði sem er best þjónustað með þyrlum, þrátt fyrir allt, þó alltaf sé hægt að gera betur. Af nauðsyn annast Landhelgisgæslan björgunar- og sjúkraflugsþjónustu á sjó og landi og hefur til þess tækjabúnað og mannskap.

Það ber að fullnýta þessa dýru fjárfestingu áður en farið er að verja fé skattborgaranna í annan flugrekstur sem mun kosta ómældar fjárhæðir. Þá hefur Landhelgisgæslan verulegar efasemdir um öryggi og hagkvæmni þess að vera með litlar þyrlur sem ekki eru með afísingarbúnað í sjúkraflugi á Íslandi og byggir það á áratugareynslu.“

Höf.: Kristján Jónsson