Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Ísraelsher réðst í gær á skotmörk í Líbanon sem tengdust hryðjuverkasamtökunum Hisbollah, en árás þeirra var hugsuð sem svar við árás Hisbollah fyrr um daginn. Sagði í yfirlýsingu samtakanna að þau hefðu ráðist samtímis á 19 hernaðarskotmörk í Ísrael með bæði eldflaugum og stórskotahríð, en búist er við yfirlýsingu frá Hassan Nasrallah leiðtoga Hisbollah í dag.
Ekki er vitað um efni yfirlýsingarinnar, en sá möguleiki er fyrir hendi að hann muni lýsa yfir stríði á hendur Ísrael til stuðnings hryðjuverkasamtökunum Hamas á Gasasvæðinu, en slík stríðsyfirlýsing gæti vel leitt til þess að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs breiðist út til annarra ríkja Mið-Austurlanda.
Einnig er talið að Nasrallah kunni að kalla eftir auknum árásum á Ísrael án þess að lýsa yfir stríði, en skærur hafa verið á milli Ísraelshers og samtakanna nær daglega frá því að Hamas framdi hryðjuverk sín 7. október sl.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í gær að hann myndi vinna hörðum höndum að því að koma í veg fyrir útbreiðslu átakanna, en auk Hisbollah hafa Hútar í Jemen einnig reynt að skjóta eldflaugum á Ísraelsríki.
Bæði Hútar og Hisbollah-samtökin njóta stuðnings stjórnvalda í Íran sem hafa hótað alvarlegum afleiðingum láti Ísraelar ekki af árásum sínum á Hamas-samtökin og Gasasvæðið.
Ísraelsk herskip tóku þátt í árásum á Gasaborg í gær, og skutu þau á vígstöðvar Hamas-liða í borginni. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sagði í gær að herinn hefði nú umkringt borgina sjálfa í sókn sinni inn á Gasasvæðið og að hápunktur orrustunnar stæði nú yfir. Abu Obeida, talsmaður Al-Qassam-hersveita Hamas-samtakanna, hótaði því hins vegar að Gasasvæðið yrði „bölvun fyrir sögu Ísraels“ og að hermenn Ísraela yrðu sendir heim í líkpokum.
Mannfall hefur aukist nokkuð í röðum Ísraelshers eftir að hann hóf landhernað sinn á Gasasvæðinu og féllu 15 manns á miðvikudaginn. Alls höfðu þá 320 hermenn fallið frá 7. október þegar Hamas-samtökin frömdu hryðjuverk í Ísrael. Heilbrigðisráðuneyti Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu segir nú að rúmlega 9.000 Palestínumenn hafi fallið á sama tíma, en ekki er hægt að staðfesta þær tölur.
Hjálpa 7.000 manns að flýja
Stjórnvöld í Egyptalandi sögðu í gær að þau myndu aðstoða um það bil 7.000 erlenda ríkisborgara og fólk með tvöfalt ríkisfang við að yfirgefa Gasasvæðið. Tóku Egyptar á móti 21 særðum Palestínumanni í gær og 344 ríkisborgurum erlendra ríkja, en þar af voru 72 börn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að 74 Bandaríkjamenn hefðu verið á meðal þeirra sem fengu að yfirgefa Gasasvæðið í gær. Auk þeirra fékk 31 Austurríkismaður, fjórir Ítalar og fimm Frakkar að yfirgefa svæðið, en engir Bretar voru á meðal þeirra sem fengu að fara á brott.