Rétt tæplega 8.000 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttust til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins en fluttu þá frá því. Hins vegar fluttu um 230 fleiri íslenskir ríkisborgarar þá frá landinu en fluttu til þess

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Rétt tæplega 8.000 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttust til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins en fluttu þá frá því. Hins vegar fluttu um 230 fleiri íslenskir ríkisborgarar þá frá landinu en fluttu til þess.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr ársfjórðungslegum tölum Hagstofunnar yfir búferlaflutninga.

Fyrstu níu mánuðina í fyrra fluttu hingað 8.270 fleiri erlendir ríkisborgarar en fluttu þá frá landinu, eða 310 fleiri en sama tímabil í fyrra.

Þurfa að vera um 2.400 talsins

Aðflutningsmetið var sett í fyrra en þá fluttu um 10.340 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en fluttu þá frá því. Til að metið falli í ár þurfa aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta að vera um 2.400 talsins, eða álíka margir og á þriðja ársfjórðungi í ár.

Hvernig sem fer er ljóst að þetta ár verður aðflutningur erlendra ríkisborgara sá annar mesti í sögunni. Með því er þensluárið 2017 komið í þriðja sæti hvað þetta varðar en þá kallaði mikill vöxtur ferðaþjónustunnar á aðflutt vinnuafl. Það sama hefur gerst eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk.

Nítjánda árið á öldinni

Á hinn bóginn stefnir í að árið 2023 verði nítjánda árið frá aldamótum þar sem fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja frá landinu en til þess. Flutningsjöfnuðurinn var aðeins jákvæður árin 2000, 2005, 2017, 2020 og 2021 en farsóttin setti mark sitt á tvö síðastnefndu árin.

Samanlagt hafa 73.560 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því síðan aldamótaárið 2000. Hins vegar hafa 11.220 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess á tímabilinu.

Athygli vekur að um þriðjungur þessa aðflutnings erlendra ríkisborgara hefur orðið frá ársbyrjun 2000. Síðan þá hafa 24.271 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landins en frá því eða um það bil jafn margir og búa samanlagt í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Ekki þarf að hafa mörg orð um að þessi aðflutningur hefur leitt til örrar íbúafjölgunar á Íslandi.

Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 396.960 manns á Íslandi í lok þriðja fjórðungs, eða 30. september síðastliðinn, og kann 400 þúsund íbúa múrinn því að verða rofinn í ár.

Ofmat á móti

Á hinn bóginn benti manntal Hagstofunnar fyrir árið 2021 til að íbúafjöldinn kynni að vera ofmetinn um 10 þúsund manns. Þá meðal annars vegna vanskráningar erlendra ríkisborgara sem flytja af landi brott.

Mikil fjölgun íbúa vegna aðflutnings er hins vegar óumdeilanleg.

Pólverjar eru sem fyrr fjölmennir í hópi erlendra nýbúa. Fyrstu níu mánuði ársins fluttu hingað 2.040 fleiri pólskir ríkisborgar en fluttu frá landinu. Með því hafa fleiri pólskir ríkisborgarar flutt til landsins en úkraínskir frá ársbyrjun 2022 en það var 24. febrúar það ár sem Rússar gerðu innrás í Úkraínu.

Þannig fluttu 2.153 fleiri pólskir ríkisborgarar til landsins en frá því í fyrra en 2.269 Úkraínumenn. Á þessu ári hafa hins vegar 3.200 pólskir ríkisborgarar flutt til landsins og 1.160 Úkraínumenn. Þrátt fyrir stríðið koma því mun fleiri til landsins frá Póllandi en Úkraínu. Alls 1.160 Pólverjar fluttu héðan á tímabilinu en fjöldi brottfluttra Úkraínumanna er ekki gefinn upp.

Höf.: Baldur Arnarson