Sjö manns fórust í ríkjum Vestur-Evrópu þegar stormurinn Ciarán gekk þar yfir í gær. Rafmagn fór af um það bil 1,2 milljónum heimila í Frakklandi í fyrrinótt, en vindhraði stormsins náði á sumum stöðum rúmlega 55 metrum á sekúndu.
Fimm ára barn fórst í Ghent í Belgíu þegar trjágreinar féllu á það, en barnið var að leika sér úti við þegar slysið varð. 64 ára gömul kona lést einnig í Ghent þegar trjágrein féll á hana, en hún var á gangi í almenningsgarði ásamt eiginmanni sínum og dóttur, sem slasaðist alvarlega. Tveir létust í Frakklandi en dauðsföll voru einnig tilkynnt í Hollandi, á Spáni og í Þýskalandi.
Loka þurfti skólum í suðurhluta Englands vegna stormsins og íbúar á Ermarsundseyjunni Jersey voru fluttir á brott og á hótel.