Við störf Samningar á almenna markaðinum renna út í lok janúar.
Við störf Samningar á almenna markaðinum renna út í lok janúar. — Morgunblaðið/Eggert
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kröfur um styttingu vinnutímans verða ofarlega á blaði hjá verkalýðshreyfingunni í kjaraviðræðunum sem fram undan eru. „Það hefur verið mikil umræða um þetta innan okkar raða og okkar krafa er að jafna þessa vinnutímastyttingu á við aðrar stéttir í landinu,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar og fulltrúi í framkvæmdastjórn SGS. Hann bendir á að starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum hafi nú um skeið verið með styttri vinnutíma og einstakar starfsstéttir á almenna markaðinum, verslunarmenn og iðnaðarmenn, hafi einnig samið um ákveðna styttingu. Nú sé kominn tími til að loka þessum hring svo að almennt verkafólk fái líka sambærilega styttingu vinnutímans.

Hafa setið eftir

„Við höfum bara setið eftir og ég er ekki að sjá að það verði staðið upp frá borði í vetur nema gengið verði frá sambærilegri styttingu og er hjá öðrum starfsstéttum á landinu,“ segir hann. Eftir sé þó að koma sér saman um hver útfærslan eigi að vera. Árið 2019 sömdu verslunarmenn um níu mínútna styttingu á dag fyrir fullt starf og iðnaðarmenn hafa samið um 13 mínútna styttingu virks vinnutíma. „Ég held að allir séu að stefna að því að lágmarkið sé 13 mínútur.“

Verslunarmenn í VR og innan LÍV gera þá kröfu í næstu samningum að vinnuvikan verði stytt í fjóra daga eða sem svarar til 32 stunda á viku án skerðingar á launum. Rafiðnaðarsambandið, Matvís og VM standa saman í kjaraviðræðunum undir merki Fagfélaganna. Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ minnir á að bæði verslunarfólk og samflot iðn- og tæknifólks hafi samið um vinnutímastyttingu í Lífskjarasamningunum 2019.

„Við náðum síðan í síðustu samningum hjá iðn- og tæknifólki að stytta vinnutímann í 36 stundir hjá öllum og það mun raungerast núna í byrjun febrúar næstkomandi. Þar með næst ákveðinn áfangi en maður heyrir það vel og það er mikil áhersla á það lögð í okkar baklandi og víðar, að fara í enn frekari styttingu vinnutímans. Við vorum með kröfu um að ganga lengra í síðustu samningalotu. Ég tel að það muni skipta gríðarlega miklu máli fyrir okkar fólk að ná meiri styttingu á vinnutíma, því við vitum að vinnutíminn skiptir afar miklu máli. Það er mikið ákall á það úr samfélaginu að fara í að stytta vinnutímann.“

Spurður hversu langt iðn- og tæknifólk vilji ganga í frekari styttingu vinnutímans segir Kristján félögin eiga eftir að ræða um það við fulltrúa atvinnurekenda. Fram hafi komið að verslunarfólk hafi sett fram markmið um að stytta vinnuvikuna í 32 stundir og iðn- og tæknifólk hafi lagt fram slíka kröfu í seinustu kjaraviðræðum. „Það er auðvitað markmiðið. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að ná fram einhverju stóru skrefi í þessu,“ segir hann.

Þegar gengið var frá núgildandi samningum á almenna markaðinum, sem renna út í lok janúar næstkomandi, náðist samkomulag um tímasetta verkáætlun um ýmis mál sem viðsemjendur ætluðu að leiða til lykta á samningstímanum. Það hefur gengið misjafnlega. Í umfjöllun á vef Byggiðnar kemur fram að samtalið við SA hafi verið gagnlegt. Samninganefnd Samiðnar hafi átt níu fundi með SA frá 23. ágúst sl. og m.a. verið gerðar ýmsar lagfæringar á texta og bókunum og farið yfir kjarasamning og réttindamál o.fl.

Fagfélögin hafa ekki sömu reynslu. Fram kom á dögunum að vikulegir fundir viðræðunefnda þeirra með fulltrúum SA um verkáætlun vegna komandi samninga hefðu litlu sem engu skilað. Fóru félögin þess á leit við ríkissáttasemjara að hann annaðist frekari fundarhöld þar sem reynt yrði til þrautar að ljúka vinnu við verkáætlunina. Kristján segir að einn fundur hafi þegar verið haldinn hjá ríkissáttasemjara og er næsti fundur boðaður á mánudaginn.

Samstíga í viðræðunum?

Ekkert liggur fyrir um hvort félög og sambönd innan ASÍ halda hópinn í kjaraviðræðunum. Kristján segir viðræður í gangi á milli hópa um þessi mál. „Það er verið að reyna að þétta raðirnar eins og mögulegt er. Auðvitað vonar maður að fyrir þessa samninga takist okkur að þétta raðirnar þannig að hópurinn verði samstíga,“ segir hann. Ræða á þessi mál á formannafundi ASÍ sem fram fer í dag.

Höf.: Ómar Friðriksson