Ragnar Önundarson
Við fæðumst með áskapaða eiginleika. Sumir eru heppnir í þessu mesta happdrætti lífsins, aðrir ekki. Meðfædd líkamleg fötlun vekur samúð, samt þurfa fatlaðir að lifa jaðarsettir allt sitt líf. Samkynhneigð er hvorki fötlun né tekin að erfðum, samt er hún ásköpuð og þetta fólk var jaðarsett og er jafnvel enn, þótt ástandið hafi batnað.
Siðblinda er í raun fötlun, sem engin samúð fylgir, vegna eðlis hennar. Við krefjumst þess að þeir, eins og aðrir, fylgi lögum, reglum og siðvenjum samfélagsins, þrátt fyrir að fötlunin geri þeim það erfitt. Margir siðblindir eru stóran hluta ævi sinnar í fangelsi. Við meðhöndlum siðblindu eins og löst, en hún er það ekki, hún er fæðingargalli. Við geymum þessa siðfötluðu í fangelsi af því að við höfum engin önnur úrræði.
Barnagirnd, einhver andstyggilegasta meðfædda röskunin, fæðingargalli en ekki löstur, er hliðstæð siðblindu, en ekki það sama. Engin samúð er með þeim sem bera þann bagga gegnum lífið, vegna eðlis vandans.
Er það ekki bara virðingarvert, ef þeim sem bera bagga barnagirndar tekst að komast gegnum lífið án þess að gefa eftir fyrir henni? Eða án þess að komast í kast við lögin? Tilefnið er ný bók um sr. Friðrik Friðriksson. Þessi forboðna ástríða „stríðir stöðugt á“, við vitum það. Höfundur bókarinnar hefur heimildir um tilvik, þar sem sr. Friðrik misstígur sig alvarlega, fyrir u.þ.b. 70 árum. Stundum verður svona frétt til þess að fleiri stíga fram.
Umfjöllun um löngu látinn mann vekur hins vegar spurningar. Hann fékk hvorki ákæru né dóm. Á að svipta hann öllum heiðri? Í sakamálum ber að telja menn saklausa þar til sekt þeirra er sönnuð. Um hvað er hann sekur? Fæðingargalla? Dómstóll götunnar virðir hvorki siða- né réttarreglur. Krossfestum hann, krossfestum hann, hrópar mannfjöldinn.
Ég þekki mann sem á menntaskólaaldri, innan við 18 ára, upplifði nokkrum sinnum að konur á aldur við móður hans sýndu honum áhuga. Þær voru víst á þeim aldri að vera „glaðar og graðar“ svo vitnað sé til umfjöllunar í Mbl. fyrir ekki löngu. Allar áttu þær afkomendur, allar urðu ömmur. Allar eru látnar. Minning þeirra allra er heiðruð, mörgum kær. Ætti hann að stíga fram og nafngreina þær? Slíkt þarf að þjóna tilgangi, má ekki vera bara stefnulaust slúður. Er nauðsynlegt að svipta þær öllum heiðri? Er hefnd einhver lausn? Er krossfesting einhver lausn?
Höfundur er áhugamaður um réttlæti.