Glatt á hjalla Stórfjölskyldan hittist yfirleitt einu sinni í viku yfir vetrartímann og borðar saman. Í fyrsta hittingi í haust voru öll barnabörnin og barnabarnabörnin mætt og voru þau drifin út í myndatöku.
Glatt á hjalla Stórfjölskyldan hittist yfirleitt einu sinni í viku yfir vetrartímann og borðar saman. Í fyrsta hittingi í haust voru öll barnabörnin og barnabarnabörnin mætt og voru þau drifin út í myndatöku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Axelsdóttir fæddist 3. nóvember 1953 í Reykjavík og ólst upp í Hlíðahverfinu, nánar tiltekið í Skaftahlíð. „Á uppvaxtarárum mínum var þar mikill barnafjöldi á svipuðum aldri og auðvelt að finna sér leikfélaga

Ingibjörg Axelsdóttir fæddist 3. nóvember 1953 í Reykjavík og ólst upp í Hlíðahverfinu, nánar tiltekið í Skaftahlíð.

„Á uppvaxtarárum mínum var þar mikill barnafjöldi á svipuðum aldri og auðvelt að finna sér leikfélaga. Tengslin sem þarna mynduðust halda enn og við stelpurnar í götunni hittumst nánast árlega og rifjum upp barnæskuna.

Ég réð mig í fyrstu sumarvinnuna mína þegar ég var 11 ára gömul og passaði tvö börn allan daginn. Sumarið eftir bauðst mér að fara í sveit, í Hlöðutúni í Stafholtstungum sem er tiltölulega stutt frá Síðumúla þar sem amma og afi bjuggu. Mig hafði lengi langað að komast í sveit og fannst ég hafa himin höndum tekið því að ég lenti hjá mjög góðu fólki og dvaldi þar í góðu yfirlæti næstu fjögur sumur. Fyrsta sumarið var ég mest í barnapössun en með árunum urðu verkefnin fjölbreyttari og afar lærdómsrík fyrir borgarbarnið.

Síðasta sumarið þegar ég var 15 ára og á leiðinni í menntaskóla ákvað húsfreyjan að mér væri treystandi fyrir heimilinu í viku og dreif sig í húsmæðraorlof á Varmalandi. Hún lagði mér lífsreglurnar og ég reyndi eins og ég mögulega gat að standa mig. Það gekk á ýmsu í eldamennskunni og ég hringdi nokkrum sinnum úr sveitasímanum í mömmu til þess að fá uppskriftir og ráðleggingar.

Minnisstæðast er mér þegar ég eldaði sveskjugraut sem varð svo seigur og harður undir tönn að heimilisfólk vann ekki á honum með venjulegum áhöldum. Ég hef ekki reynt að elda sveskjugraut síðan þótt liðin sé rúmlega hálf öld en er ekki frá því að bóndinn hafi orðið þeirri stund fegnastur þegar húsfreyjan sneri aftur úr orlofinu.“

Ingibjörg gekk í Hlíðaskóla og Hagaskóla og fór svo í MH. „Mér fannst mjög gaman í skólanum bæði í félagslífinu og náminu en þó sérstaklega í íslenskutímunum hjá Jóni Bö. Ég var í skólakórnum öll fjögur árin og er Þorgerði afar þakklát fyrir það menningaruppeldi sem hún veitti okkur.

Eftir stúdentspróf 1973 innritaði ég mig í HÍ, var hálfráðvillt í byrjun en hafði alltaf stefnt að raungreinanámi sem heillaði mig svo ekki þegar á reyndi. Þegar ég prófaði íslenskudeildina fann ég strax mína fjöl en tók hlé frá því námi í eitt ár til þess að fylgja eiginmanninum sem var á leiðinni í MA-nám í Madison í Wisconsin.“

Þegar þau fluttu heim aftur tók Ingibjörg upp þráðinn og lauk BA-prófi í íslensku, sögu og mannfræði 1978 og uppeldis- og kennslufræðum 1981. Árið 1994 hóf hún svo MA-nám í íslenskum bókmenntum sem hún tók smám saman með fullri vinnu og lauk því 1999.

Ingibjörg prófaði fyrst að kenna þegar hún var rétt um tvítugt og kenndi dönsku í Hagaskóla. „Í vetrarlok var ég nokkuð viss um að þetta væri ekki minn tebolli og ég yrði að finna mér aðra leið til þess að sjá fyrir mér. Ári síðar hafði skólastjóri Valhúsaskóla samband við mig og sagðist hafa frétt í Hagaskóla að ég gæti alveg kennt og bauð mér vinnu. Þar kenndi ég íslensku í sex ár og færði mig svo yfir í Kvennaskólann árið 1982 þar sem ég vann svo til loka starfsferilsins.

Það var mikið gæfuspor fyrir mig, betri vinnustað er ekki hægt að hugsa sér og þar eignaðist ég marga af mínum bestu vinum sem ég held enn sambandi við.

Það eru alger forréttindi að fá að vera samvistum við ungt, klárt og skemmtilegt fólk sem er á leiðinni út í lífið og aldrei dauður punktur í vinnunni. Mér þykir afskaplega vænt um það þegar fyrrverandi nemendur leggja lykkju á leið sína til að heilsa upp á mig og spjalla ef þau sjá mig tilsýndar.“

Smám saman færðist Ingibjörg meira yfir í stjórnun, leysti af sem aðstoðarskólameistari í þrjá vetur, varð svo þróunarstjóri þegar Kvennó varð þróunarskóli í nýrri námskrárgerð og styttingu námstíma til stúdentsprófs. Síðustu árin var hún námstjóri skólans en vorið 2019 lauk hún störfum og fór á eftirlaun.

„Þeir sem fara snemma á eftirlaun eru oft spurðir að því hvað þeir séu að gera allan liðlangan daginn. Ef fólk er sæmilega útsjónarsamt er hægt að hafa nóg að gera og eiga innihaldsríkt líf eftir vinnu.

Við hjónin byrjum flesta daga á því að synda „á nóttunni“ í sundlaug Seltjarnarness, mætum ýmist hálfsjö eða sjö eftir því hvort það er sundleikfimi eða ekki. Þetta er hollt bæði fyrir líkama og sál enda sundfélagarnir morgunhresst og skemmtilegt fólk. Nú er nógur tími til að lesa góðar bækur og prjóna upp í pantanir barnabarnanna, passa þau eða hjálpa þeim í náminu.

Við eigum marga vinahópa sem hittast á ýmsum stöðum eða ferðast saman yfir lönd og höf og stóra fjölskyldu sem er samrýnd og dugleg að hittast. Það er því engu að kvíða þótt vinnan kalli ekki lengur.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ingibjargar er Sæmundur Rögnvaldsson, f. 23.11. 1948, fyrrverandi framhaldsskólakennari. Þau búa í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar Sæmundar voru hjónin Aðalbjörg Guðmundsdóttir, f. 15.3. 1920, d. 10.7. 2020, grunnskólakennari í Keflavík og síðar í Reykjavík, og Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, f. 21.8. 1916, d. 6.1. 2016, skólastjóri í Keflavík og síðar aðstoðarskólameistari í FB. Þau bjuggu lengi í Keflavík en í Reykjavík frá 1977.

Börn Ingibjargar og Sæmundar eru: 1) Rögnvaldur Jóhann, stjúpsonur Ingibjargar, f. 3.3. 1968, prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ. Maki: Birna Helgadóttir umhverfisfræðingur, þau búa á Seltjarnarnesi og börn þeirra eru Sæmundur, Sölvi, Kári og Auður Halla; 2) Höskuldur, f. 1.8. 1977, markaðsmaður og leikari. Býr í Reykjavík og dætur hans eru Álfheiður Mía og Oddný; 3) Þorbjörg, f. 2.5. 1979, fjármálastjóri CCP. Maki: Vignir Snær Vigfússon tónlistarmaður. Þau búa í Kópavogi og synir þeirra eru Hrafnkell Daði, Arnaldur Logi og Egill Hrafn; 4) Anna Þórhildur I. (Tótla), f. 20.11. 1985, fræðslustýra Samtakanna '78. Maki: Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður. Þær búa í Reykjavík, dætur Tótlu eru Úlfhildur Katrín og Eyrún og börn Arndísar eru Enya og Ilíes.

Systkini Ingibjargar eru Ólafur Óskar Axelsson, f. 4.12. 1951, arkitekt og tónskáld, býr í Reykjavík, og Anna Axelsdóttir, f. 15.12. 1955, sjúkraliði, býr í Reykjavík.

Foreldrar Ingibjargar eru hjónin Þorbjörg Andrésdóttir, f. 8.1. 1922, d. 23.5. 1994, hjúkrunarfræðingur á Landspítala nánast alla sína starfsævi, og Axel Óskar Ólafsson, f. 21.1. 1917, d. 13.8. 1980, lögfræðingur og innheimtustjóri á Ríkisútvarpinu. Þau bjuggu í Reykjavík.