Töff Gordon Ramsay er einn af dómurum Masterchef.
Töff Gordon Ramsay er einn af dómurum Masterchef. — AFP/Marco Bertorello
Eftir heilan mánuð af áhorfi á hryllingsmyndir og -þætti fann ljósvaki þegar nýr mánuður gekk í garð að hann þyrfti nauðsynlega að byrja að horfa á eitthvert auðmeltanlegt léttmeti. Hvað er betra en raunveruleikaþættirnir Masterchef US í því skyni?…

Gunnar Egill Daníelsson

Eftir heilan mánuð af áhorfi á hryllingsmyndir og -þætti fann ljósvaki þegar nýr mánuður gekk í garð að hann þyrfti nauðsynlega að byrja að horfa á eitthvert auðmeltanlegt léttmeti.

Hvað er betra en raunveruleikaþættirnir Masterchef US í því skyni? Eflaust ýmislegt, en samt!

Þessi vinsæla þáttaröð hefur nú verið í gangi í 14 ár og er ávallt hið fullkomna léttmeti. Allir þættirnir eru nánast nákvæmlega eins; fylgja þar vel þekktri formúlu sem virkar. Áskoranirnar sem dómararnir Gordon Ramsay, Aarón Sánchez og Joe Bastianich leggja fyrir keppendur eru ansi svipaðar ár eftir ár en í hverri nýrri seríu er reynt að hrista örlítið upp í hlutunum, nægilega mikið til að viðhalda áhuga.

Stærsta breytingin sem ljósvaki hefur tekið eftir í gegnum árin er að keppendur eru á undanförnum árum upp til hópa vænsta fólk og því standa áhorfendur sig gjarnan að því að halda með nokkrum þeirra.

Það er af sem áður var því í fyrstu seríunum voru alltaf nokkrir „vondu kallar“ og bæði Ramsay og Bastianich voru töluvert óvægnari í gagnrýni sinni en þeir eru í dag. Vísast var talin þörf fyrir það, líkt og í flestu bandarísku afþreyingarefni, en menn mýkjast jú með árunum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson