Kristín Pálsdóttir fæddist í Hnífsdal 26. júlí 1926. Hún lést 25. október 2023. Hún var dóttir hjónanna Jensínu Jensdóttur og Páls Þórarinssonar, bæði fædd 1890. Systkini Kristínar voru fjögur og náðu þær þrjár systur fullorðinsaldri; Guðrún, Kristín og Erla.

Kristín giftist Þorsteini Hannessyni söngvara, f. 1917, d. 1999, í London 16. janúar 1954. Hún vann þá í sendiráði Íslands þar í borg en Þorsteinn söng við Covent Garden-óperuna.

Börn þeirra eru: 1) Páll, f. 1955, kvæntur Rögnu Pálsdóttur, f. 1958. Þeirra börn eru Unnur Ragna og Sverrir Örn. 2) Kristín Björg, f. 1958, gift Gunnlaugi Þór Pálssyni, f. 1957. Þeirra dætur eru Anna Kristín og Bryndís Sæunn Sigríður. 3) Hannes, f. 1961, kvæntur Sigrúnu Harðardóttur, f. 1962. Dætur Hannesar eru Gunnhildur Vala (látin), Valgerður Anna og Agnes Nína. Dætur Sigrúnar eru Helga og Nína.

Fyrir hjónaband eignaðist Þorsteinn soninn Gunnar Jens (látinn). Langömmubörn Kristínar eru fimm. Lengst af starfsævinnar starfaði Kristín sem ritari í Blóðbankanum og í viðskiptaráðuneytinu.

Útför Kristínar fer fram
frá Kópavogskirkju í dag, 3. nóvember 2023, klukkan
13.00.

Sjómannsdóttirin frá Hnífsdal hefur nú kvatt eftir næstum heila öld. Hún hefur verið stór hluti af mínu lífi í 65 ár, þar sem hún og Þorsteinn föðurbróðir fóstruðu mig fyrstu ár mín í menntaskóla, þegar fjölskylda mín bjó enn erlendis. Gift í aðeins fjögur ár, með tvö mjög lítil börn, tekur hún inn á heimilið 16 ára enskumælandi táning frá Ameríku sem hún hefur aldrei hitt. Þá strax sýnir Kristín hvað hún er merkilega sterk og hugrökk. Og sambúðin gekk vel. Slettist í eitt einasta skipti upp á vinskapinn þegar þessi ameríski gikkur vildi ekki sjúga merg úr súpukjötsbeini.

Því Kristín ólst upp með gildum fyrri hluta 20. aldar. Hún benti mér einu sinni á að ekki væri við hæfi að stúlka væri að blístra, hvað þá að blístra sálma! Hún klæddist vinnuslopp að morgni, batt klút um hárið og fór að sjóða bleyjur og þrífa húsið. Fyrir klukkan tólf var hún búin að klæða sig huggulega og elda hádegismat handa Þorsteini. Ég nefni þetta vegna þess að 30 árum síðar hló þessi merka kona og vændi mig um lygi þegar ég rifjaði upp að hún hefði verið slík gamaldags húsmóðir.

Kristín var nefnilega aldrei föst í fortíðinni, heldur óx hún og fylgdist með alla ævi. Sem ung kona hélt hún til Noregs í húsmæðraskóla. Hún lagði í að finna sér vinnu í London á eftirstríðsárunum. Hún ferðaðist með manni sínum til Evrópulanda og ætíð var hún glæsilegur förunautur. Um leið og börnin náðu svolitlu sjálfstæði fór hún út á vinnumarkað, en fyrst í heimahverfinu. Hún vildi tryggja að þau hefðu aðgang að henni meðan þau voru á viðkvæmum aldri. Alla tíð var Kristín samstiga Þorsteini, manni sínum og besta vini. Þau hjón kunnu vel að ganga saman gegn um súrt og sætt, og voru hvort öðru bæði styrkur og skemmtun. Sjálf var hún hæversk og hógvær, gjörn á að benda á manninn sinn eða aðra þegar hún átti jú sjálf fullan þátt í einhverri velgengni, stóru eða smáu. Fráfall Þorsteins var Kristínu mikill harmur og dró úr lífsánægjunni.

Börn og barnabörn og gamlir vinir glöddu hana samt, og það var alltaf skemmtilegt að eiga stund með Kristínu að ræða menn og málefni, hársídd, skófatnað – hvað sem okkur datt í hug. Og alltaf var gaman að hlæja með henni, stundum bara svona mátulega, eins og á nýliðnum vikum, stundum óstjórnlega, sérstaklega ef Kristín Björg var með í för.

Kristín kvaddi rólega, södd lífdaga, með börnin sín hjá sér. Ég óska öllum sem voru svo heppin að eiga eitthvað í henni friðar vegna sorgar en til hamingju með góðar minningar sem hún hefur gefið okkur. Á það allra mest við um fóstursystkini mín, Pál, Kristínu Björgu og Hannes, og börn þeirra.

Hvíl í friði, Kristín Páls.

Wincie Jóhannsdóttir.