Rut Valdimarsdóttir fæddist á Sauðárkróki 20. janúar 1940. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 21. október 2023.

Foreldrar hennar voru Valdimar Pétursson, f. 2. apríl 1911, d. 5. apríl 1968, og Herdís Sigurjónsdóttir, f. 25. desember 1914, d. 29. september 1999. Rut var næstelst þriggja systkina. Elst var Sigríður,
f. 19. desember 1937, og yngstur var Pétur, f. 22. júlí 1950.

Rut giftist Valgarði Birki Guðmundssyni, f. 13. október 1936, d. 9. júlí 2016,
árið 1961. Börn þeirra eru: 1) Gunnar, f. 27. júlí 1961, maki hans er Sigríður Kristín Jónsdóttir. 2) Valdimar, f. 12. maí 1963. 3) Sigurjón, f. 7. júlí 1968, maki Bogdís Una Hermannsdóttir. 4) Hrólfur Birgir, f. 10. janúar 1974, d. 28 júlí 1976,
og Guðbjörg Ósk, f. 22. júní 1975. Rut átti orðið nokkur barna- og barnabarnabörn.

Útför Rutar fer fram frá Mælifellskirkju í dag, 3. nóvember 2023, klukkan 14.

Ástkær tengdamóðir mín lést 21. október sl. á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki.

Þetta hefur verið skrítið ár, elsku mamma lést 25. júlí og nú mín ástkæra tengdamóðir. Þær búnar að kveðja okkur á tæpum þremur mánuðum. Það er stórt skarð á ekki lengri tíma. Þær höfðu skilað sínu, heilsunni farið að hraka og gátu ekki lengur séð um sig sjálfar. Það var ekki þeirra, þær voru meira í að huga að öðrum. Maður er því sáttur að kveðja, að þær séu komnar yfir í sumarlandið til Valgarðs og pabba.

Við höfðum ákveðið að fara til útlanda og brunuðum því til að kveðja þig. Þú sagðir okkur að hafa ekki áhyggjur af þér, bara að skemmta okkur og njóta. Rut var á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki í þrjú og hálft ár. Heilsa hennar var upp og niður, við reyndum að fara einu sinni í viku í heimsókn. Hún sagði okkur alltaf að hafa ekki áhyggjur af sér.

Mamma og Rut voru vinkonur. Systkini mín þrjú sem mamma átti áður og tengdamamma eru bræðrabörn, já lífið er skrítið. Þær áttu margt annað sameiginlegt, höfðu báðar misst börn, mamma systur mína nokkurra mánaða vegna veikinda og Rut son sinn af slysförum tveggja og hálfs árs.

Ég er búin að þekkja Rut síðan ég man eftir mér, öll sumur var farið norður í heimsókn til mömmu Rutar á Sauðárkrók og þá alltaf kíkt í kaffi í Tunguhlíð til Rutar og Valgarðs. Ég kynntist svo Sigurjóni árið 2006.

Rut var glaðlynd og skemmtileg og gaman að spjalla við hana, gerði mikið að gamni sínu en átti ekki alltaf sjö dagana sæla. Ung fluttist hún í Tunguhlíð, þar var bara torfbær, síðan byggðu þau sér nýtt hús. Það var stórt skref fyrir stelpu úr borginni að fara þangað, en þar eyddi hún 50 árum ævi sinnar en flutti svo á Sauðárkrók. Rut treysti mikið á Valgarð og eftir að hann lést fór henni að hraka.

Rut fannst gaman að ferðast en vildi ekki vera lengi í burtu. Hún vildi stoppa í öllum sjoppum og fá kaffi og nammi og að allir fengju nóg að borða. Við fórum stundum saman til Akureyrar og alltaf vildi hún byrja á að borða og svo versla. Hún sagði mér margt í þessum ferðum en það verður bara okkar á milli. Hún var virk á yngri árum í kvenfélagi Lýtingsstaðahrepps og meðan heilsan leyfði. Hún var hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom. Rut var fljótfær og lá ekki á hlutunum, sagði beint út það sem henni fannst. Skipti ekki máli þótt það ætti ekki alltaf við. Hún hló bara á eftir ef öðrum líkaði ekki það sem hún sagði. Og stundum meinti hún allt annað, svona var hún Rut.

Rut fór á Staðarfell í húsmæðraskólann. Hún hafði gaman af því að gantast með að hún hefði farið á Staðarfell. Þegar hún var spurð: fórstu í meðferð? sagði hún: nei, í kvennaskólann eins og allar ungar stúlkur á þeim tíma.

Fyrstu árin mín í Villinganesi var oft rennt yfir í Tunguhlíð í mat, þar var alltaf gott að koma. Rut passaði að við kæmum fyrir jólin að ná í smákökur og brauð á meðan heilsan leyfði. Hún átti líka alltaf steikt brauð ef hún vissi að til stóð að fara í hestaferðir.

Elsku tengdamamma takk fyrir allt.

Minningin um þig og mömmu mun lifa.

Ég votta okkur öllum samúð.

Þín tengdadóttir,

Bogdís Una.

Það er ekki sjálfgefið að eignast góða nágranna. Við hjónin duttum svo sannarlega í þann lukkupott þegar Rut og Valgarð fluttu „á mölina“ úr sveitinni sinni og í næsta hús við okkar. Þau voru svo sannarlega góðir grannar og aldrei bar nokkurn skugga á samskiptin.

Aldrei kvartaði Rut, þó söknuðurinn væri sár eftir fráfall Valgarðs, bónda hennar. Hún bar sig alltaf vel og sagðist hafa það gott, enda vel studd af fólkinu sínu.

Hún var óvílin, glaðsinna og gestrisin. Naut þess að hafa fólk í kring um sig og var óspör á veitingar og skemmtilegt spjall. Gamlir sveitungar, frændfólk og vinir litu oft inn og var tekið fagnandi. Það brást heldur ekki að ef hún sá til okkar eitthvað að dútla úti á lóð var hún óðara komin út í dyr og kallaði til okkar: „Komið endilega að fá kaffisopa, ég var að enda við að hella á!“ Og alltaf voru stundirnar við eldhúsborðið hjá Rut líflegar og nærandi. Bæri það við að langt hefði liðið frá því við hittumst síðast skaust hún gjarnan yfir í forstofuna til okkar, bankaði hressilega og kallaði: „Nokkur heima?“ Gaf sér smástund til að spyrja frétta og spjalla aðeins, súpa hálfan kaffibolla eða svo og svo var hún rokin. Já, hún Rut var einstök, sjálfstæð, skemmtileg, hispurslaus, stundum hávær, alltaf hreinskilin, rösk til orða og verka og sannur vinur vina sinna.

Við minnumst hennar með hlýju og söknuði og þökkum henni samfylgdina. Við gleðjumst yfir því að nú sé hún laus undan oki Elli kerlingar og komin í ljósið. Ég sé þau Valgarð fyrir mér saman á ný, hýrleg og sátt, grannana okkar góðu. Blessuð sé minning þeirra.

Guðbjörgu, Hrafnhildi, Sæmundi, sonum hennar og öðrum ástvinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Ingunn og Bragi.