Rjúpa Rjúpnaveiðarnar standa nú sem hæst og kallar Náttúrufræðistofnun eftir rjúpnavængjum frá veiðimönnum til rannsókna.
Rjúpa Rjúpnaveiðarnar standa nú sem hæst og kallar Náttúrufræðistofnun eftir rjúpnavængjum frá veiðimönnum til rannsókna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Náttúrufræðistofnun metur nú aldurshlutföll rjúpna í haustveiðinni. Búið er að aldursgreina 600 fugla, að því er fram kemur hjá Ólafi K. Nielsen, vistfræðingi hjá Náttúrufræðistofnun, í ákalli til áhugamanna um rjúpnarannsóknir

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Náttúrufræðistofnun metur nú aldurshlutföll rjúpna í haustveiðinni. Búið er að aldursgreina 600 fugla, að því er fram kemur hjá Ólafi K. Nielsen, vistfræðingi hjá Náttúrufræðistofnun, í ákalli til áhugamanna um rjúpnarannsóknir. Markmiðið sé að greina 3.000 fugla.

Kveðst hann kominn með sýni úr fjórum landshlutum og er hlutfall unga lágt á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Frá öðrum landshornum eru komin fá sýni eða engin, en aldurssamsetning í afla sé nauðsynleg við útreikning á afföllum og stofnstærð rjúpu.

Þá hafi samtals 410 fuglar fengist til skoðunar frá veiðimönnum, allir skotnir í Þingeyjarsýslum og þeir skoðaðir og mældir í heimabyggð. Hver fugl var aldurs- og kyngreindur og vigtaður, en einnig mæld lengd hauss, vængs og ristar. Sarpurinn var og tæmdur og innihald vigtað.

Ólafur segir í samtali við Morgunblaðið að mælingar á holdafari rjúpna séu gerðar til þess að skerpa skilning á mögulegum aflvökum stofnsveiflunnar í rjúpnastofninum, en þær hófust árið 2006. Söfnun upplýsinga um aldurshlutföll, sem lesin eru úr vængjum fuglanna, tengist aftur á móti veiðistjórnuninni. Aldurshlutföll eru skoðuð þrisvar á ári, þ. á m. á veiðitíma, til að fá aldurssamsetningu í landshlutunum og nýtast við útreikning á stofnstærð og afföllum í stofnlíkani.

„Holdafarið rís og hnígur eins og allt hjá rjúpunni, en holdafarið sýnir veik tölfræðileg tengsl við afföll hjá rjúpunni. Ef þær ganga inn í veturinn í lélegum holdum verða afföllin meiri en ella,“ segir Ólafur. Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að samanborið við fyrri ár sé holdafar rjúpna í haust í meðallagi. Hins vegar stefnir ferill fyrir holdastuðul aldurshópanna sem greindir hafa verið niður á við, þannig að gera má ráð fyrir miklum afföllum rjúpna í vetur og að fækkun verði í varpstofni á Norðausturlandi frá síðasta ári.

Ólafur hvetur veiðimenn til að senda inn rjúpnavængi, þ.e. annan væng felldra fugla, merkja pakkann Náttúrufræðistofnun sérstaklega og senda til stofnunarinnar ásamt upplýsingum um sendanda. Einnig geti menn komið vængjunum sjálfir til stofnunarinnar. Segir hann að lítið sé komið af vængjum enn sem komið er.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson