Anna Guðbjörg Kristjánsdóttir kennari fæddist í Reykjavík 3. febrúar 1935. Hún lést á Droplaugarstöðum 21. október 2023.

Foreldrar hennar voru Kristín Geirsdóttir húsmóðir, f. 3. janúar 1908, d. 3. nóvember. 1990, og Kristján Elíasson verkstjóri, f. 31. maí 1899, d. 9. nóvember 1977. Anna var næstyngst af fjórum börnum Kristínar og Kristjáns. Hin eru Guðbjörg (Stella), f. 22. febrúar 1931, d. 23. september 1931, Geir, f. 16. janúar 1934, d. 14. ágúst 2009, og Halldóra Elísabet (Dóra), f. 25. júní 1944, d. 29. febrúar 2020.

Anna giftist Ólafi Hannibalssyni, f. 6. nóvember 1935, d. 30. júní 2015. Foreldrar hans voru Hannibal Valdimarsson, alþingismaður og ráðherra, f. 1903, d. 1991, og Sólveig Ólafsdóttir húsmóðir, f. 1904, d. 1997. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Hugi, f. 19. mars 1964, maki Victoria Tarevskaia; synir hans með Jóhönnu Magnúsdóttur eru Bjarki Ólafur, f. 1998, og Kristján Orri, f. 2003. 2) Sólveig, f. 12. september 1965, maki Jóhann Kristinsson, þeirra sonur er Hrafnkell Húni, f. 2011; dóttir Jóhanns er Hekla Bryndís, f. 1997. 3) Kristín, f. 19. janúar 1971,
maki Guðmundur Sverrisson, börn þeirra eru Hannibal Máni, f. 2009, og Maísól Anna, f. 2012. Dóttir Kristínar með Karli Emil Guðmundssyni er Saga Sól, f. 1998.

Anna varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1955 og lauk kennaraprófi árið 1956. Hún kenndi við Melaskóla og Vesturbæjarskóla, en lengst af við Árbæjarskóla, frá upphafi kennslu þar í núverandi byggingu árið
1967 til ársins 2000. Hún kenndi einkum íslensku og dönsku, mest á unglingastigi. Hún var yfirkennari í Árbæjarskóla í eitt ár. Hún flutti í Árbæjarhverfi þegar það var nýbyggt og bjó í 55 ár í Hraunbæ 100. Anna var Reykjavíkurbarn, en var mörg sumur í sveit sem barn, unglingur og ung kona; í Fljótshlíð, Ölfusi, Flóa, Borgarfirði, Þingeyjarsýslu og Vestfjörðum, auk heimsókna í ættaróðalið, Múla í Biskupstungum. Hún minntist sumra sinna sem kaupakona með hlýju. Hún sótti fjölmörg námskeið um Íslendingasögur og fór í margar hópferðir tengdar þeim, innanlands sem utan. Síðustu þrjá mánuði bjó hún á Droplaugarstöðum.

Anna G. verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 3. nóvember 2023, klukkan 14.

Mamma ólst upp á ástríku heimili með foreldrum og tveimur systkinum. Það var hlýja og blíða í litlu íbúðinni hjá ömmu og afa á Njálsinum og þar fékk mamma hollt veganesti fyrir lífsgönguna.

Mamma var Reykjavíkurbarn og vissi fátt skemmtilegra en að ganga niður Laugaveginn. Á unglingsárum lá leiðin þó í Menntaskólann á Akureyri og hún sagðist alltaf hafa litið á það sem sína gæfu. Þar eignaðist mamma marga sína bestu vini, sem héldu hópinn fyrir lífstíð.

Borgarbarnið kynntist líka sveitinni. Í æsku heimsótti mamma ættaróðalið Múla í Biskupstungum og var í sveit í Fljótshlíð. Síðar var hún kaupakona, í flestum landsfjórðungum. Hún hafði gaman af þegar aldurhniginn þingeyskur bóndi gerði sér ferð með nokkrum erfiðismunum í fjósið á Breiðumýri til að athuga hvort rétt væri að Reykjavíkurstúlka kynni að mjólka, en því vildi hann ekki trúa óséðu. Í sveitinni urðu líka til vinatengsl. Í viðkomu á Bæ í Borgarfirði á sólríkum sumardegi fyrir nokkrum árum hittum við þar á fyrrverandi heimasætu og vinkonu hennar Sillu – áratugirnir gufuðu upp þegar Silla hellti upp á kaffi og sýndi okkur töfragarðinn sinn á höfuðbólinu.

Mamma var kennari að ævistarfi og sagðist aldrei hafa hugsað af alvöru um annað starf. Hún hóf kennslu við Melaskóla 1956 og kenndi svo við Vesturbæjarskóla og Árbæjarskóla, allt frá byggingu hans árið 1967 til aldamóta; einkum í unglingadeild, mest dönsku og íslensku. Ég veit ekki tölu nemenda hennar í gegnum árin, en hún er dávæn. Það var þekkt að mamma var aldrei veik og alltaf mætt til vinnu. Skyldurækni og heiðarleiki voru henni eðlislæg. Við rákumst ósjaldan á gamla nemendur hennar og vorum þá beðin fyrir hlýja kveðju.

Mamma var klettur á vinnustað og líka á heimili. Hún flutti í nýsteypta blokk og bjó í 55 ár í sömu íbúðinni í Hraunbæ 100. Af suðursvölunum, sem voru hennar yndisreitur, sá hún Breiðholt rísa á hæðinni sunnan Elliðaánna, Húsfell hverfa á bak við aspir og hverfið sitt dafna. Hún ól þarna upp þrjú börn, sem einstæð móðir eftir skilnað árið 1975. Hún kom okkur til manns og gaf okkur gott veganesti, eins og hún hafði fengið úr sínum foreldrahúsum.

Tími til tómstunda var oft tæpur utan skylduvakta, en mamma átti sín áhugamál. Hún sótti námskeið um Íslendingasögur og heimsótti sögusvið þeirra innanlands og utan. Ferðir um Ísland voru henni yndi, þá var margþvæld handbók með í för, lesin upp bæjarnöfn á skiltum og flett upp á merkisstöðum og sagan rifjuð upp. Fyrsta utanlandsferðin var útskriftarferð úr Kennaraskólanum til Norðurlanda – þar bauðst henni starf á hóteli nálægt Ósló, sem hún þáði og nýtti til að ferðast um Noreg á milli vinnutarna. Síðar fór hún gjarnan að hitta vinkonur og afkvæmin, þegar þau dvöldu erlendis.

Síðari árin fór minnið að svíkja mömmu, ofan á dofnandi sjón og heyrn. Hún missti þó aldrei jákvæðni sína og jafnaðargeð og tók fagnandi á móti börnunum sínum. Mamma lagði marga steina á langri ævi og lifir í minningum allra þeirra sem fengu að njóta hennar mildu og nærandi handleiðslu og nærveru.

Hugi.

Sem barn áttaði ég mig ekki á að samfélagið hefði verið allt öðruvísi þegar mamma ólst upp. Mér fannst svo sjálfsagt allt sem hún hafði gert. Það var ekki fyrr en síðar sem ég áttaði mig á að það var ekki allra að taka stúdentspróf og enn síður algengt með stúlkur, um miðja síðustu öld. Að hún var barn hjá vandalausum á sumrin að gæta ekki mikið yngri barna. Kaupakona á sumrin til að safna fyrir vetrardvöl á Akureyri í heimavistinni við MA. Fyrir mér lá svo beint við að öll ungmenni héldu áfram námi umfram skyldu, eins og mamma hafði gert, en það var heldur ekki jafn sjálfsagt þegar ég var í þeim sporum og það er núna.

Við mæðgur fórum í nokkrar utanlandsferðir saman. Þegar ég var unglingur tók hún mig með í endurmenntunarferð dönskukennara til Danmerkur og svo vorum við lengur og ferðuðumst um landið. Við fórum tvær til Havana á Kúbu 1992 og Prag 2011. Einnig nokkrar Ameríkuferðir, ýmist með systkinum mínum eða minni fjölskyldu, sú síðasta 2014 í faðm ættingjanna í Seattle.

Mamma flíkaði hvorki tilfinningum sínum né staldraði lengi við erfiða tíma og gaf ekki mikið svigrúm fyrir aðra að gera slíkt heldur. Var meira í Íslendingasagnastílnum. Var samt alla tíð hvetjandi, sama hvað við systkinin tókum okkur fyrir hendur. Hún tók virkan þátt í að breyta samfélaginu, var meðal annars sjálfboðaliði í kosningabaráttu Vigdísar til forseta 1980, stóð ófáa verkfallsvaktina í verkföllum kennara og hélt 19. júní kaffi árlega fyrir vinkonur. Eftir að starfsævinni lauk var hún sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands, varð búðarkona á Laugaveginum í rúman áratug og var það fastur punktur í tilveru margra vina og vandamanna að líta þar við.

Það stóð ekki beinlínis til að feta í fótspor mömmu en það fór svo að síðastliðinn áratug hef ég gert það meir en áður. Ég fór í kennaranám og kenndi í nokkurn tíma, flutti til Akureyrar og varð rauðhærð! Ég ákvað svo að bæta Önnudóttir við sem kenninafni, til að heiðra baráttukonuna fyrir jafnrétti kynja, þar sem mestan hluta ævinnar hef ég sinnt þeim málaflokki í leik og starfi. Mamma var fyrirmynd á svo mörgum sviðum.

Mamma naut þess að koma í heimsókn norður, hitta vini sína Svanhildi og Rúnar og fara um gamlar slóðir, m.a. á Breiðumýri í Þingeyjarsveit, þar sem hún var kaupakona 1955. Á tónleikum í Hofi 19. júní 2018 kom kona til hennar og sagðist muna eftir henni í bænum frá menntaskólaárunum. Sú hafði ekki tilheyrt menntskælingum og það þótti mér merkilegt.

Mamma komst loksins að á hjúkrunarheimili í júlí, eftir langa bið. Droplaugarstaðir voru hennar heimili síðustu þrjá mánuðina og naut hún þess að ganga að félagsskap vísum, alla daga og eignaðist þar vini. Hún var jákvæð og sparaði ekki hrósið á starfsfólkið í umönnuninni. Ein ung kona sagðist vona að svona yrði hún, þegar þar að kæmi.

Elsku mamma varð 88 ára. Eilífðartáknið, hún mun fylgja okkur um eilífð alla.

Kristín Ólafsdóttir.

Það er tómlegt án mömmu, enda var hún þungamiðja fjölskyldunnar. Síðustu ár þegar hugurinn var farinn að bila komu styrkleikar hennar sterkar í ljós – jákvæðni, lífsgleði og þörfin fyrir félagsskap.

Mamma var nefnilega stemningskona og alltaf til, hvort sem það voru skemmtanir, ferðalög eða bara ganga niður Laugaveginn og setjast á kaffihús. Þær systur voru líkar að þessu leyti, og áttu alltaf vísan félagsskap hvor annarrar.

Þau voru góð systkin Geir, Anna og Dóra, alin upp við ástríki og grunngildi sem þau hvikuðu aldrei frá enda prinsippfólk. Vinkonur mömmu sóttu í að koma á Njálsgötuna því þar var alltaf kærleikur og eftirtektarvert hversu fallega hjónin ávörpuðu hvort annað: Kristján minn og Kristín mín í hverri setningu.

Mamma bjó að þessu, hún var jafnaðarkona, réttsýn og sanngjörn. Hún gerði kröfur og fannst sjálfsagt að við systkinin stæðum undir þeim en var líka handviss um að við gætum orðið hvað sem er og farið hvert sem er.

Mamma var trygg sínu fólki. Allir sem komust í innsta kjarna voru þar fyrir lífstíð, stórfjölskyldan, æskuvinir, samstarfsfólk, tengdafólk og fylgifiskar okkar systkina. Mamma og pabbi kynntust 11 ára í Laugarnesskóla og voru vinir út lífið þrátt fyrir skilnað.

Við mamma urðum nánar þegar ég flutti að heiman – ég þurfti kannski fjarlægð til að sjá alla hennar kosti. Og þá varð mér ljóst hvílík fyrirmynd hún var. Hún menntaði sig og vann alla tíð úti, og varð svo búðarkona í Rauða krossinum þegar hún hætti kennslu.

Í búskap þeirra pabba var hún fasta fyrirvinnan og kletturinn. Þegar hún varð ein með okkur systkinin voru aldrei neinar hindranir, hún einfaldlega lét allt ganga upp. Hún fór með okkur til útlanda – öll saman en líka hvert í sínu lagi eftir efnum og aðstæðum. Hún lét samfélagið ekki setja sér skorður, hún kom iðulega vestur í Selárdal og tók þátt í bústörfunum með pabba og okkur.

Mamma nýtti sér það til fulls að við systkinin völdum að nema og starfa í útlöndum. Árið sem við vorum öll í Bandaríkjunum kom hún bara út og hélt jólin með okkur, og svo hittum við Dóru og fjölskyldu í Flórída til að halda áramót saman. Mamma og pabbi komu saman í útskriftir okkar systkina í New York og Boston, og kynntust vinum okkar þar.

Beint flug til Brussel kom sér vel árið sem ég bjó þar. Hún kom oft árin mín í Genf og setti þá gjarnan upp ferðaskrifstofu í íbúðinni minni þar sem hún skipulagði heimsóknir mismunandi vinahópa. Hápunkturinn var þegar Dóra, Geir og Anna mágkona komu og dvöldu í viku, eina utanlandsferð þeirra saman. Þá var í fyrsta sinn kvartað yfir hávaða heima hjá mér, þegar hlátrasköllin af svölunum bergmáluðu í Júrafjallgarðinum.

Aldrei skyldi hún fara til Afríku eða Asíu en braut þá reglu árið sem hún varð sjötug. Þá fórum í ógleymanlega ferð um sunnanverða Afríku og þær Kristín heimsóttu mig til Srí Lanka þegar ég varð fertug. Hún var alltaf til í að endurskoða reglur ef ástæða gafst.

Það er ómetanlegt að hafa átt mömmu að í 58 ár. Hún var frábær vinkona, amma og tengdamamma, og við munum sakna hennar alltaf.

Sólveig, Jóhann, Hrafnkell Húni og Hekla Bryndís.

Kæra amma, ég vona að þér líði vel núna þar sem þú ert. Ég veit að ég var alltaf mjög feimin þegar ég var hjá þér en núna veit ég að það er miklu verra að vita að ég mun aldrei vera hjá þér aftur. Aldrei sjá þig aftur.

Ég man alltaf þegar við komum í heimsókn. Þú sagðir: Opnaðu munninn og lokaðu augunum svo settirðu hvítt súkkulaði í munninn á mér.

Ég var mjög stolt af því að eiga ömmu sem var Íslandsmeistari í handbolta. Ég sá alltaf fyrir mér gamla hvíthærða konu í markinu og fór alltaf að brosa.

Kær kveðja,

þitt yngsta barnabarn,

Maísól Anna.