Gegnumbrot Landsliðskonan Elín Rósa Magnúsdóttir í liði Vals fer í gegnum vörn Framara í Reykjavíkurslagnum í Úlfarsárdal í gærkvöldi.
Gegnumbrot Landsliðskonan Elín Rósa Magnúsdóttir í liði Vals fer í gegnum vörn Framara í Reykjavíkurslagnum í Úlfarsárdal í gærkvöldi. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Valur og Haukar eru enn jafnir að stigum á toppi úrvalsdeildar kvenna í handbolta eftir tvo fyrstu leiki áttundu umferðarinnar í gærkvöldi, en liðin þurftu bæði að hafa fyrir stigunum í spennandi leikjum

Valur og Haukar eru enn jafnir að stigum á toppi úrvalsdeildar kvenna í handbolta eftir tvo fyrstu leiki áttundu umferðarinnar í gærkvöldi, en liðin þurftu bæði að hafa fyrir stigunum í spennandi leikjum.

Valur hafði betur gegn Fram í stórslag í Úlfarsárdal, 26:21. Var leikurinn hnífjafn og spennandi, þangað til Valur skoraði sex mörk í röð undir lokin og tryggði sér sigurinn.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Thea Imani Sturludóttir voru markahæstar hjá Val með sex mörk hvor. Hafdís Renötudóttir átti stórleik á sínum gamla heimavelli og varði 15 skot í marki Vals. Alfa Brá Hagalín skoraði sex fyrir Fram og Lena Margrét Valdimarsdóttir fimm.

Haukar höfðu betur gegn Stjörnunni, 25:24, á heimavelli í spennutrylli. Var leikurinn í járnum allan tímann, en hálfleikstölur voru 13:13. Liðin héldu áfram að skora til skiptis allt til loka og var staðan 24:24 þegar ein mínúta var eftir. Þá skoraði Sara Katrín Gunnarsdóttir 25. mark Hauka og tókst Stjörnunni ekki að svara hinum megin.

Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka og hetjan Sara gerði fjögur. Embla Steindórsdóttir, sem er aðeins 17 ára gömul, skoraði níu fyrir Stjörnuna.