Ólína Sigríður Björnsdóttir, húsmóðir og listakona, fæddist á Siglufirði 11. ágúst 1946. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 20. október 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Hólmfríður Steinþórsdóttir, f. 25. júlí 1917, d. 6. janúar 2013, og Björn Stefán Ólafsson, f. 10. júlí 1917, d. 4. nóvember 1965.

Systkini Ólínu eru: Unnur, f. 25. febrúar 1937, Birgir, f. 24. febrúar 1938, d. 23. júlí 1938, Arnfinna, f. 19. júlí 1942, Guðrún, f. 18. október 1943, Ólafur Kristinn, f. 17. október 1944, d. 15. september 1985, Rósa, f. 9. desember 1947, Birna, f. 4. maí 1949, Elín Sigríður, f. 10. september 1952, og Steinunn Helga, f. 29. nóvember 1956.

Ólína giftist 26. desember 1967 Hólmgeiri Sævari Óskarssyni, f. 26. desember 1945, d. 18. apríl 2016.

Börn þeirra eru: 1) Heimir, f. 7. júlí 1964, húsasmiður og grafískur hönnuður; sambýliskona hans er Louise Aagaard; barn þeirra er Andreas, f. 2. apríl 2011. Heimir á tvö börn frá fyrri sambúð. Þau eru a) Salka, f. 2. júní 1998, og b) Jóel, f. 5. júní 2000. 2) Hilmar, f. 18. júní 1967, framkvæmdastjóri; eiginkona hans er Elín Magnúsdóttir, f. 20. september 1972; barn þeirra er Ólína Sif, f. 15. nóvember 2001. Börn Hilmars frá fyrri samböndum eru Pétur Andri, f. 21. september 1992, og Aron Örn, f. 27. desember 1993. Elín á Magnús, f. 22. janúar 1999. 3) Stefán Þór, f. 3. nóvember 1971, húsasmiður; sambýliskona hans er Karo-
lína Helga Eggertsdóttir. Stefán á frá fyrra sambandi a) Evu, f. 19. desember 2005, og b) Freyju, f. 22. desember 2007. Karolína á Smára Karl, f. 23. apríl 2008.

Ólína ólst upp í foreldrahúsum á Siglufirði. Á Siglufirði lauk hún grunnskólanámi.

Hún fluttist á Selfoss árið 1966 ásamt eiginmanni og syni.

Ólína var virkur félagi í Myndlistarfélagi Árnesinga. Á Selfossi vann hún ýmis störf, m.a. á saumastofu, í verslun og á leikskólum bæjarfélagsins, ásamt því að sinna heimili og börnum.

Útför Ólínu Sigríðar fer fram frá Selfosskirkju í dag,
3. nóvember 2023, klukkan 14.

Elsku mamma mín. Nú þegar ferðalagi þínu er lokið hér á jörðu fara í gegnum huga manns margar góðar minningar sem manni hlýnar við að rifja upp. Það er ómetanlegt hversu fallega og góða sál þú hafðir að geyma. Ég man ekki eftir því að að þú hafir nokkurn tímann sagt eitthvað neikvætt um aðra manneskju. Aldrei. Öllum varst þú tilbúin til að hjálpa eða aðstoða ef með þurfti. Við karlarnir á heimilinu verðum seint kallaðir miklir snyrtipinnar. Mikið var því stússið í kringum okkur, bæði við íþróttir, dúfnabransann og hljómsveitarbröltið, þá varst þú alltaf klettur heimilisins, jafnvel um miðjar nætur smurðir þú ofan í okkur. Ég get lengi skrifað um hæfileika þína á listasviðinu, mála, vefa, sauma, prjóna; allt lék þetta í þínum höndum. Ég veit að þér leið ekki vel einni og áttir í erfiðleikum með kvíða, sérstaklega eftir að pabbi kvaddi okkur. Að lokum vil ég segja, mamma mín, þú ert ein fallegasta manneskja sem ég hef á lífsleiðinni hitt, heiðarleg, góðhjörtuð, dugleg, umburðarlynd og þannig varstu okkur svo góð fyrirmynd. Nú ert þú sjálfsagt komin í Gosahverfið á Siglufirði og ert að bíða eftir æskuástinni úr villimannahverfinu og þið verðið bæði jafn glöð að finna hvort annað á ný. Mikið sem pabbi var skotinn í þér. Takk fyrir allt, elsku mamma.

Þinn

Hilmar.

Elsku mamma.

Það er mikil sorg sem býr í brjósti mér þegar við kveðjum þig í dag. Þú sem varst þessi hjartahlýja góða kona sem vildir hjálpa og gefa af þér ert nú farin í draumalandið.

Margar góðar minningar munu ylja okkur um ókomna tíð, og er margs að minnast. Þú varst einstakur persónuleiki sem náði ávallt að laða það besta fram í fólki enda vinmörg og fordómalaus. Þú varst ósérhlífinn dugnaðarforkur og oft þegar mest á reyndi í fjölskyldunni, hvort sem það voru veikindi eða hvers kyns áföll, varst þú kletturinn sem hægt var að leita til, alltaf svo elskuleg og ráðagóð í öllum aðstæðum. Það er skrýtið að heyra aldrei aftur rödd þína eða finna ekki vangann þinn, því þú kvaddir mann alltaf með kossi og setningum eins og „takk fyrir allt“ og „farið varlega“ sem lýstu væntumþykju og hugulsemi þinni svo vel.

Margar góðar samverustundir áttum við fjölskyldan á æskuheimili okkar í Sigtúni og svo seinna í Tröllhólum þar sem þið pabbi eydduð saman ykkar síðustu árum. Þar var dansað, sungið, spilað og hvaðeina. Skemmtilegast þóttir þér að dansa og sýna okkur nýjustu dressin sem þú hafðir annaðhvort keypt þér eða saumað sjálf. Í minningunni lék allt í höndunum á þér, hvort sem það var saumaskapur, listmálun, vefnaður eða prjónaskapur, allt var þetta búið til af miklu listfengi enda varstu sönn listakona. Þú varst einstaklega góð amma og reyndist öllum ömmubörnunum þínum alltaf einstaklega vel enda voru þau hrifin af þér. Þú gafst þeim allan þinn tíma þegar þau komu til þín og var þá ekki setið auðum höndum heldur var föndrað, bakað, spilað, sýnd tískusýning eða bara spjallað og eftir heimsókn hjá ömmu voru börnin iðulega leyst út með ömmu Línu prjóni, húfum eða vettlingum, nasli í poka eða úrklippuföndri og er ég þér afar þakklátur fyrir að búa þeim svo fallegar minningar.

Árið 2016 lést pabbi, sem var ástin í þínu lífi, og var það áfall þér svo stórt að þú náðir þér aldrei á strik eftir það. Parkinsonsjúkdómurinn þinn fór versnandi og andlegu veikindin líka, en þú áttir alltaf þann draum að þetta myndi allt saman lagast. En elsku mamma mín, nú ertu komin í Draumalandið og búin að hitta ástina þína hann pabba og er ég sannfærður um að þetta hefur lagast.

Ég mun alltaf sakna þín og halda minningu þinni á lofti elsku mamma.

Þinn sonur,

Stefán.

Elsku systir, það er margs að minnast þó að þú hafir verið sex árum eldri en ég áttum við alla tíð í miklum samskiptum. Þú varst listakona af lífi og sál og alveg sama hvað þú tókst þér fyrir hendur, allt lék í höndunum á þér. Þú málaðir málverk og á gjafakort við alls konar tækifæri. Saumaskapur var líka í uppáhaldi ásamt því að prjóna, hekla og vefa alls konar listaverk. Þú tókst þátt í nokkrum samsýningum um árin. Einnig þótti þér gaman að safna bjöllum og áttir safn frá ölum heimshornum sem einnig var til sýnis. Mokkabollasafnið var líka í uppáhaldi og það gladdi þig mikið þegar þér voru færðir fallegir bollar í safnið.

Heilsu þinni fór hrakandi síðustu ár vegna sjúkdóms. Þú lést veikindin ekki ræna þig lífsgleðinni heldur hélst ótrauð áfram og þótti þér ekkert eins gaman og að klæða þig í fín föt og snyrta. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt saman, bökuðum tókum slátur, elduðum mat, lituðum augabrýr og sátum með kaffibolla og skoðuðum hannyrðablöð og þá var dansað og tjúttað eftir íslenskri tónlist. Það var margt um manninn á heimilinu og bakkelsi alltaf á boðstólum þegar gesti bar að garði og áttir þú góðar vinkonur sem komu og spjölluðu og sem gaman var að kynnast. Veit að þær munu sakna þín sárt.

Það var alltaf gott að leita til þín, elsku systir, með alla hluti, faðmur þinn var hlýr og þú tókst okkur opnum örmum alla tíð. Allar ferðirnar austur fyrir fjall um jólin í afmæli Hólmgeirs og að hitta stórfjölskylduna þína eru minnisstæðar og þá spiluðu feðgarnir jólalög og þú útbjóst veislur sem gleymast seint. Ferðirnar voru líka margar austur yfir sumartímann og í Tröllahólum var fallega sumarskreytt utanhúss og þú lagðir mikinn metnað í að hafa fallegt umhorfs. Minningar eru líka frá bráðskemmtilegri ferð í sumarbústað í Munaðarnesi með góðum vinum og á Mýrarnar í bústaðinn á afmælisdaginn þinn og þá var gaman, mikið hlegið, dansað og slegið upp grillveislu. Það eru margar ógleymanlegar stundir frá liðnum árum og vil ég þakka þér fyrir þær. Minning þín mun lifa um ókomin ár og þín verður sárt saknað.

Guð geymi þig og samúðarkveðjur til elsku fjölskyldu þinnar.

Kveðja, þín systir,

Elín (Ellý).

Hugurinn reikar fjörutíu og fimm ár aftur í tímann á Selfossi æsku okkar þegar við strákarnir höfðum verið á Eikatúni í fótbolta og skyndilegur þorsti og hungur sótti að ungu knattspyrnuhetjunum. Þá gat verið gott að geta farið á nærtækt heimili til þess að svala þessum þörfum og heimili þeirra Hólmgeirs og Línu í Sigtúnum 30 stóð öllum vinunum opið. Mjólkurkex og djús var næringin og Lína okkar, sem réð ríkjum, lét okkur hlýða pjakkana og ef við fórum eftir hennar reglum stóð faðmurinn opinn og veitingar nægar.

Um unglingsárin varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að vera einn af stofnendum hljómsveitarinnar Lótuss á Selfossi ásamt bræðrunum Hilmari æskuvini mínum og Heimi bróður hans og sonum Hólmgeirs og Línu. Þetta eru ógleymanleg ár þar sem Hólmgeir og Lína lánuðu okkur bílskúrinn undir hljómsveitaræfingar og vorum við, bræðurnir Heimir og Hilmar, Gunnar, Hróbjartur og Bragi, þeim ævinlega þakklátir fyrir umburðarlyndið og fórnfýsina. Steini spil, einn þekktasti hljómsveitarmaður landsins og smíðakennari okkar, var svo með æfingar í næsta húsi og var því oft allnokkur hávaði í hverfinu þegar æft var á báðum stöðum. Þetta voru skemmtilegir tímar og þau hjón voru órjúfanlegur partur af þessum mögnuðu árum og Stefán yngsti bróðir Hilmars og Heimis. Simcan var höfð úti á hlaði
þar sem hljómsveitargræjurnar tóku allt plássið í bílskúrnum og gerði ég mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu seinna hversu fórn þeirra var mikil og veitingarnar sem við fengum að ganga í ómetanlegar.

Vináttubönd okkar hljómsveitarbræðra hafa staðið sterkum fótum alla tíð og þakka ég það að hluta þeim einstöku hjónum Hólmgeiri og Línu. Partíin hjá ungu hjónunum stóðu okkur opin félögunum þar sem gripið var í hljóðfæri og sungið og trallað langt fram eftir. Systurnar eins og þær voru kallaðar, systur Línu, voru miklir gleðipinnar og þá skemmdi það ekki partíið ef móðir þeirra, amma Fríða eins og hún var kölluð, var með og hækkaði þá stuðpúlsinn enn frekar.

Þetta góða fólk, frá Siglufirði ættað, á djúpt þakklæti frá okkur unga fólkinu skilið og reyndum við í lifanda lífi að sýna þeim það. Vináttan var alltaf til staðar og árin öll með Hólmgeiri í karlakórnum voru dásamleg, en heilsufarslega erfið ár nú undir það síðasta hjá Ólínu voru henni og fjölskyldunni erfið en í þau of fáu skipti sem við hittumst eða heyrðumst var vináttustrengurinn sterkur. Elsku Lína sagði mér í samtali í fyrravor þegar ég var að vasast í bæjarmálunum og kosningum tengdum þeim að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af sér og engin fleiri orð um það. Ég heimsótti hana undir sumarlok á Móberg þar sem hún átti heimili síðast og fann ég að lífsneistinn var að hverfa. Nú eru þau hjón bæði farin, langt fyrir aldur fram, á fund Drottins og bið ég þeim Guðs blessunar með djúpu þakklæti fyrir árin öll.

Elsku Heimir, Hilmar, Stefán og Hulda, innilegar samúðarkveðjur færi ég ykkur öllum og fjölskyldum ykkar.

Kjartan Björnsson.

Látin er góð vinkona og vinur til margra ára, Ólína Björnsdóttir. Hún Lína Hólmgeirs, eins og hún var alltaf kölluð hér á Selfossi, var yndisleg kona og vinur í raun. Við hjónin kynntumst henni og manni hennar, Hólmgeiri Óskarssyni, fyrir tæplega hálfri öld. Þannig var að synir okkar stofnuðu hljómsveit ungir að árum sem leiddi til þessara góðu kynna. Heimili þeirra við Sigtún var vettvangur drengjanna, þar fengu þeir að æfa í bílskúrnum alla daga og Lína sá svo um að gefa þeim holla næringu að aflokinni æfingu. Heyrði ég drengina tala um að yfirleitt hefði verið eitthvað gott í ísskápnum í Sigtúninu þegar heim var komið eftir böllin.

Lína og Hólmgeir voru skemmtileg hjón, alltaf líf og fjör í kringum þau. Við áttum margar samverustundir, mikið spilað, stundum dansað og borðaður góður matur. Það var engin lognmolla yfir spilamennskunni, Hólmgeir gat verið djarfur í sögnum sem setti Línu stundum í smá uppnám. Þá heyrðist vel í henni sem kryddaði bara kvöldið og samverustundina. Lína var listhneigð kona, hún málað og prjónaði og sat yfirleitt ekki auðum höndum. Hún var vinur vina sinna, mætti alltaf á afmælisdegi konu minnar með gjöf, annaðhvort eitthvað sem hún hafði hannað sjálf eða keypt. Ein gjöf frá henni var svokallaður Heiðapeli, áletraður úr silfri. En þannig var að hún var veðurhrædd og að fara yfir Hellisheiði í eitthvað misjöfnu var afleitt. Þá kom sér vel, sagði hún, að hafa Heiðapelann meðferðis.

Í seinni tíð fór að bera á veikindum hjá Línu sem erfitt var að ráða við. Eftir að Hólmgeir dó fór hún á Kirkjuhvol á Hvolsvelli og síðar á Móberg á Selfossi. Það mátti alveg sjá og finna að hún var ekki sátt við þetta heilsuleysi.

Elsku Lína mín, við hjónin þökkum þér allar yndislegu og góðu samverustundirnar, megi góður Guð varðveita minningu þína. Hann Hólmgeir þinn tekur á móti þér með trompetleik í Sumarlandinu.

Kæra fjölskylda, vottum ykkur innilega samúð.

Hólmfríður og Björn Ingi Gíslason.