Oft er slegið á létta strengi í sláttuvísum, eins og rifjað var upp í vísnahorninu á þriðjudag. Nú gerðist það að á þessu góða hausti var Ágúst Ingi Ketilsson á Brúnastöðum enn í heyskap um tuttugasta október

Oft er slegið á létta strengi í sláttuvísum, eins og rifjað var upp í vísnahorninu á þriðjudag. Nú gerðist það að á þessu góða hausti var Ágúst Ingi Ketilsson á Brúnastöðum enn í heyskap um tuttugasta október. Þá kvað Guðmundur Stefánsson í Hraungerði:

Ekki vitund ögn þeim lái

októbers þó nýti sól

og Brúnastaðabændur slái

breiður túna fyrir jól.

Guðmundur gerði svo bragarbót því langt er til jóla:

Á Brúnastöðum framkvæmd flýta

og fagra sólargeisla nýta.

Á haustblíðunni hafa mætur

og heyskap stunda um veturnætur.

Í sláttuvísum eru tilefnin af margvíslegum toga. Hrekkjavakan er að vísu afstaðin, en þessi vísa um draugadugnað hefði vel sómt sér á þeim degi – þar sem framliðnir voru kallaðir til verks:

Mikið gengur Melstað á,

menn þar lúa hrinda.

Tíu raka, en tólf þar slá

og tuttugu heyið binda.

Að heyskapnum loknum er haustið á næsta leiti. Eins og Stephan G. Stephansson dregur fram í Tíðarfarinu:

Slegna hlíð og hirtan völl

hreggin tíðu næð'um.

Jörðin bíður afklædd öll,

eftir hríðar klæðum.

Guðrún M. Benónýsdóttir á Hvammstanga kastaði einnig fram hringhendu:

Sláttu greiði garpurinn

grænu deyðir stráin.

Alltaf reiðist andi minn

út þá breiðist ljáin.

Júlíana Jónsdóttir frá Akureyjum var á alvarlegum nótum í sláttuvísum sínum og heimfærði þær upp á mannfólkið:

Hugsandi ég horfi á

hvað ég er að vinna,

saklaus hegg ég sundur strá;

síst er vægð að finna.

Ó, hvað nauðug læt ég ljá

lífi þeirra granda;

varnarlaus ei flúið fá,

falla þar sem standa.

Við erum eins og önnur strá,

enduðum lífs að fetum

fyrir dauðans föllum ljá,

flúið ekkert getum.

Hvarflar mér í huga þá

hitt, sem fæstir rækja,

hvenær dauðinn kuldastrá

komi mitt að sækja.