Troðsla Kristófer Acox treður boltanum í gærkvöldi. Þrátt fyrir flott tilþrif máttu hann og liðsfélagar hans hjá Val játa sig sigraða gegn Stjörnunni.
Troðsla Kristófer Acox treður boltanum í gærkvöldi. Þrátt fyrir flott tilþrif máttu hann og liðsfélagar hans hjá Val játa sig sigraða gegn Stjörnunni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðeins tvö af fimm efstu liðum úrvalsdeildar karla í körfubolta fögnuðu sigri er fimm fyrstu leikir 5. umferðarinnar voru leiknir í gærkvöldi. Fyrir vikið eru Tindastóll og Þór frá Þorlákshöfn nú saman á toppnum með átta stig hvor, á meðan Njarðvík, …

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Aðeins tvö af fimm efstu liðum úrvalsdeildar karla í körfubolta fögnuðu sigri er fimm fyrstu leikir 5. umferðarinnar voru leiknir í gærkvöldi. Fyrir vikið eru Tindastóll og Þór frá Þorlákshöfn nú saman á toppnum með átta stig hvor, á meðan Njarðvík, Álftanes, Stjarnan, Valur og Höttur koma öll þar á eftir með sex stig hvert.

Þór, sem varð meistari árið 2021, er heitasta lið landsins um þessar mundir en sigurinn á Álftanesi í gær var sá fjórði í röð hjá liðinu. Urðu lokatölur í Þorlákshöfn 84:79, en bæði lið voru með þrjá sigra í röð fyrir leikinn. Þór fékk skell gegn Val, 81:96, í fyrstu umferðinni en hefur heldur betur svarað fyrir það. Á meðan hafa nýliðar Álftaness heillað marga.

Þórsarar voru með forskot stóran hluta leiks í gær, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 24:17 og munaði enn sjö stigum í hálfleik, 47:40. Þór ríghélt í þá forystu allan seinni hálfleikinn og tókst Álftanesi ekki að jafna, þrátt fyrir að Þór hafi ekki náð að hrista nýliðana almennilega af sér.

Jordan Semple skoraði 25 stig og tók 14 fráköst fyrir Þór. Douglas Wilson skoraði 27 stig fyrir Álftanes.

Meistararnir unnu botnliðið

Tindastóll svaraði fyrir tapið gegn Val í síðustu umferð með öruggum 92:77-útisigri á stigalausu liði Breiðabliks í Smáranum í Kópavogi. Þrátt fyrir tapið í síðustu umferð hafa meistararnir litið vel út til þessa í vetur og ætla sér ekkert annað en að vera með í toppbaráttunni til loka.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson hefur komið ansi sterkur inn í lið Tindastóls á leiktíðinni og skilaði hann þrefaldri tvennu í gær; skoraði 26 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

Breiðablik hefur fengið hvern skellinn á fætur öðrum og er fátt sem bendir til annars en að liðið þurfi að bíta í það súra epli að falla niður um deild. Keith Jordan skoraði 22 stig og tók 11 fráköst fyrir Breiðablik.

Þrír í röð hjá Stjörnunni

Stjarnan er á góðri siglingu og liðið vann sinn þriðja sigur í röð er það heimsótti Val á Hlíðarenda og fagnaði 86:77-sigri. Fá lið koma á Hlíðarenda og ná í sigur, en Stjörnuliðið verður betra með hverjum leiknum eftir töp í tveimur fyrstu umferðunum. Það eru vonbrigði hjá Val að tapa tveimur af fyrstu fimm leikjunum.

Ægir Þór Steinarsson var enn og aftur stigahæstur hjá Stjörnunni með 19 stig. Hefur hann verið besti íslenski leikmaður deildarinnar til þessa. Joshua Jefferson gerði 25 stig fyrir Val.

Grindavík vann grannaslaginn

Grindavík gerði vel í að sækja 95:87-útisigur til Njarðvíkur í grannaslag. Eru liðin á leiðinni sitt í hvora áttina, því Grindavík hefur unnið tvo í röð og Njarðvík tapað tveimur í röð.

Deandre Kane er að komast betur inn í hlutina hjá Grindavík og hann skoraði 24 stig í gær. Kane er með glæsilega ferilskrá og ætti að styrkja Grindavíkurliðið verulega þegar hann verður kominn í 100 prósent stand. Carlos Novas átti sinn besta leik hjá Njarðvík til þessa og skoraði 26 stig.

Loks vann Höttur 109:102-útisigur á nýliðum Hamars. Var sigurinn kærkominn fyrir Hött, eftir tvö töp í röð. Hamri gengur hins vegar illa að fóta sig í efstu deild og er liðið enn stigalaust. Deontaye Buskey skoraði 23 stig fyrir Hött og Maurice Creek gerði 31 stig fyrir Hamar.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson