Björn Indriðason tæknifræðingur fæddist á Akranesi 27. febrúar 1957. Björn lést í faðmi fjölskyldunnar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 23. október 2023.

Foreldrar hans voru Indriði Björnsson, skrifstofumaður frá Undirvegg í Kelduhverfi, f. 26.5. 1909, d. 18.1. 1994, og Sigríður Kristjánsdóttir húsmóðir frá Hjöllum í Skötufirði, f. 23.2. 1919, d. 29.12. 2006. Þau skildu. Systkini Björns eru Kristján Jónsson, f. 26.2. 1942, d. 28.12. 2015 (sammæðra), Einar Bragi Indriðason, f. 7.5. 1959, og Aðalheiður Björk Indriðadóttir, f. 19.7. 1960, d. 23.8. 2014.

Björn eignaðist tvær dætur með eftirlifandi eiginkonu sinni, Elsu Gunnarsdóttur sjúkraliða, f. 7.2. 1961. Þær eru 1. Elín Sigríður viðskiptafræðingur, f. 29.7. 1976, búsett í Vestmannaeyjum. Eiginmaður hennar er Símon Þór Eðvarðsson, börn þeirra eru Aron Máni, unnusta hans er Unnur Ástrós Magnúsdóttir; Elí Kristinn og Elsa Sigrún. 2. Elva Dögg matráður, f. 3.9. 1982, búsett í Vestmannaeyjum. Eiginmaður hennar er Sigurður Einar Gíslason, barn þeirra er Rakel Líf og frá fyrra sambandi á Elva dótturina Amelíu Nótt Gunnarsdóttur, maki hennar er Rakel Silja Róbertsdóttir. Sigurður á dótturina Lindu Kristínu Sigurðardóttur frá fyrra sambandi.

Eftir skilnað foreldranna flutti móðir Björns með börnin til Reykjavíkur. Fyrsta heimili þeirra var í Bergstaðarstræti hjá ættingjum, síðan tóku nokkur ár á Bústaðavegi við, þá lá leiðin í Álfheimana og þaðan í Löngubrekku 1, Kópavogi. Indriði faðir Björns flutti einnig til Reykjavíkur og voru systkinin oft hjá honum yfir helgar. Björn sótti vinnu hjá Reykjavíkurborg, stundaði þar nám og kynntist þar eftirlifandi eiginkonu sinni, Elsu Gunnarsdóttur. Þau giftust 23. febrúar 1958.

Björn settist á skólabekk í Iðnskólanum og einnig í Tækniskóla Íslands og var framtíðin þá komin á skrið og hélt Björn ótrauður áfram menntaveginn. Árið 1986 flutti hann ásamt eiginkonu og dætrum til Danmerkur þar sem stundaði nám við Tækniskólann þar úti og útskrifaðist sem rafmagnstæknifræðingur frá Aarhus Teknikum. Árið 1989 flutti fjölskyldan aftur heim til Íslands í Vesturbæinn. Björn hóf störf hjá Mílu árið 1992 og vann þar til ársins 2016 sem stöðvastjóri Sæsímastöðvarinnar í Vestmanneyjum, en þangað flutti fjölskyldan vorið 1994 og hefur búið þar síðan.

Útför Björns fer fram í dag, 3. nóvember 2023, frá Landakirkju í Vestmannaeyjum klukkan 13.

Streymt verður frá athöfninni á Landakirkja.is

Árið er 1975. Ég er á rúntinum með kunningja og hann spyr mig hvort það sé í lagi að hann skutli vini sínum í partí. Ég hélt það nú. Þú sest inn í bílinn og þar sem ég sat í framsætinu þurfti ég að snúa mér við til að heilsa. Tíminn stoppaði í nokkrar sekúndur þegar ég heilsaði. Þarna vissi ég, vissi að það varst þú sem yrðir minn. Svo sagðir þú mér seinna að þú hefðir séð mig áður þar sem ég beið eftir strætó niðri við Hlemm. Þá vissum við að okkur var ætlað að eyða ævinni saman. Takk ástin mín fyrir þau 48 ár sem við áttum saman og liðu alltaf fljótt. Takk fyrir að vera sá karakter sem þú varst. Takk fyrir yndislegu dætur okkar, barnabörn, ferðalögin okkar og fyrir að gefast ekki upp. Ég er svo stolt af því að hafa verið konan þín, stolt af því sem þú áorkaðir í lífinu. Það var ekkert hjá þér sem hét „ég get ekki“ heldur „ég skal“. Takk ástin mín. Það er bara einn Bjössi og það varst þú.

Þín eiginkona.

Til þín.

Einum þér ég aldrei gleymi augnablik.

Ljúfa kossa leynda geymi logakvik.

Að hafa þig í hugardraumi huggar mig.

Ég alltaf mun í ævistraumi elska þig.

(Rúna 1960)

Elsa Gunnarsdóttir.

Elsku pabbi, það er svo sárt að þurfa kveðja þig allt of snemma.

Líf þitt var ekki alltaf dans á rósum. Aðeins 15 ára verður þú fyrir áfalli og lamast eftir heilablæðingu. Varstu dæmdur í hjólastól af hjúkrunarfólki það sem eftir væri ævinnar. Ætli þvermóðska þín hafi ekki eflst við þennan dóm því þú sýndir öllum svo sannarlega að kraftaverkin gerast. Ég hef alltaf verið svo stolt af þér, elsku pabbi, einmitt fyrir elju þína og dugnað. Þú fórst ótrauður menntaveginn og er ég afar þakklát fyrir þau þrjú ár sem við bjuggum í Danmörku þegar þú gekkst í Tækniháskólann í Árósum.

Þú elskaðir að ferðast og varst duglegur að brölta með mig litlu stelpuna þína og síðar okkur systurnar um landið, bak við fossa, inn í hella og upp á fjöll. Við höfum nú oft hlegið að því þegar þú barst mig á hestbaki upp að Glym og misstir skóinn minn í ána, ég ekki svo glöð en þú hlóst svo innilega á meðan ég hoppaði um á einum fæti að bílnum í bakaleiðinni og aldrei fannst skórinn. Þú varst nefnilega einstaklega stríðinn og gast alveg farið með hana mömmu stundum. Brosinu þínu og hlátrinum mun ég aldrei gleyma, þú brostir svo blítt allan hringinn, með augun pírð.

Um vorið 1994 tilkynntuð þið mamma okkur systrum að það stæði til að flytja til Vestmannaeyja því þér hafði boðist starf þar sem stöðvarstjóri Sæsímastöðvarinnar hjá Mílu. Það kom sko ekki til greina að ég myndi flytja út á land, ég ætlaði bara að fara með og hjálpa ykkur að taka upp úr kössum og svo væri ég farin aftur í borgina. Örlögin gripu heldur betur í taumana þetta sumar og ég kynnist Símoni mínum í Herjólfsdal aðeins viku eftir komu okkar til Eyja. Þú varst nú ekki par hrifinn í fyrstu af því að ég skyldi koma með einn átta árum eldri inn á heimilið, var þá Símon tekinn á eintal þar sem þú tókst loforð af honum um að passa stelpuna þína vel. Þessir flutningar reyndust mín mestu gæfuspor því tæpum 30 árum og þremur börnum síðar búum við hér enn. Barnabörnin áttu ætíð hug þinn allan og þeim sinntir þú af alúð í gegnum árin. Þau minnast allra sögustundanna, sundferðanna og alls náttúrubröltsins með Bjössa afa sínum.

Elsku pabbi, ég vildi að ég gæti tekið utan um þig bara einu sinni enn og sagt þér hvað ég elska þig mikið. Minning um brosmilda, stríðna og ljúfasta pabba sem elskaði fólkið sitt lifir. Ég mun sakna þín endalaust og þú munt ávallt eiga sérstakan stað í mínu hjarta. Ég veit að þú vakir yfir okkur hópnum þínum, stoltur með brosið þitt bjarta. Við lofum að halda vel utan mömmu sem þú elskaðir svo heitt. Hún hefur staðið eins og klettur við hlið þér og er missir hennar mikill. Hvíldu í friði, elsku besti pabbi minn, við hittumst þegar minn tími kemur.

Föðurminning

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Þín elsku dóttir,

Ella Sigga Björnsdóttir.

Elsku pabbi, það er svo undarlegt að þú sért farinn. Finnst ég enn vera litla stelpan þín sem á enn nógan tíma með pabba sínum. En því miður voru það veikindi sem drógu þig frá mér og fjölskyldunni. Eitthvað sem við gátum lítið ráðið við. Stundin var friðsæl þegar þú kvaddir. Þú hafðir okkur stelpurnar þínar hjá þér. Eins konar loka náttfatapartí. Þú fórst frá okkur sáttur ég sá það á þér. Dumbólíus fékk að vera hjá okkur líka.

Þessir dagar sem liðnir eru síðan þú fórst hafa skipst á milli gráts og hláturs. Við eigum ógrynni af skemmtilegum minningum um þig svo ekki sé talað um myndum sem þú varst duglegur að taka. Höfum við verið að gramsa í myndaflóðinu og rifja upp margt skemmtilegt í kringum þær. Ég var alltaf pabbastelpa enda var ég litla dekurdúkkan þín. Þú kannski lést aðeins of mikið eftir mér, alla vega samkvæmt mömmu. En besta gjöfin sem þú gast gefið mér var ást þín til mín. Þú varst alltaf glaður og mikill húmoristi. Held ég hafi ekki séð þig oft reiðan. En þú áttir það til að hneykslast yfir vitleysunni í manni, en þá hristirðu yfirleitt bara höfuðið og brostir. Þitt mottó í lífinu var alltaf „Always look on the bright side of life“ og þú fórst svo sannarlega eftir því fram á það síðasta þrátt fyrir þín veikindi. Stærsta stolt þitt var ávallt fjölskyldan þín. Mamma, við dæturnar og barnabörnin. Eftir að hafa rennt í gegnum myndirnar þínar þá var bros þitt aldrei eins breitt og þegar þú varst með barnabörnin, enda var alltaf stjanað í kringum þessa krakka.

Elsku pabbi, það er allt svo tómt án þín, en ég get huggað mig við það að nú líður þér betur. Ég lofa þér því, pabbi minn, að við fjölskyldan munum halda utan um hvert annað, styðja og passa. Nú ertu kominn í faðm Siggu ömmu og Indriða afa. Systkinin þín Heiða og Stjáni hafa eflaust tekið vel á móti þér líka.

Góða nótt, pabbi minn.

Saknaðarkveðja frá litlu stelpunni þinni.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabba minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkar minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem förum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar, pabbi minn.

Elva.

Elsku Bjössi afi.

Ég á endalaust af góðum minningum með þér afi minn. Allir Liverpool-leikirnir í sófanum saman, útiveran og fjallgöngurnar í Eyjum, Danmerkurferðirnar, hringferðin um landið, bústaðarferðirnar, spjallið með þér og ömmu í Hrauntúninu og svo mætti lengi telja.

Okkur þótti gaman að rifja upp gamla tíma, gleðjast yfir þeim og hlæja saman. Eins og þegar ég skildi eftir mig slóð af sælgæti í hrauninu á Skansinum þegar nammipokinn rifnaði eða þegar þú sparkaðir nýja fótboltanum, sumargjöfinni, upp í loft og niður í Lyngfellisdal sem mér fannst á þeim tíma vera heljarinnar fjarlægð.

Þú náðir svo oft að endurframkalla minningar og augnablik eins og þessi, skælbrosandi og hlæjandi.

Nú í seinni tíð eru stundir sem mér þykir vænt um eins og þegar þú varst um tíma á Grensásdeild hér í bænum og við fórum saman að leiði mömmu þinnar í Fossvogskirkjugarðinum. Þú varst farinn að eiga erfitt með gang á þessum tíma en okkur tókst á þrjóskunni og með þinni leiðsögn að finna leiðið hennar langömmu og á ég góðar myndir af þér frá þeim degi.

Svo var það auðvitað fallega athöfnin ykkar ömmu fyrir rétt rúmu ári þar sem þú ljómaðir allur.

Þú varst alltaf svo stoltur af þínu fólki, ömmu, systrunum og okkur barnabörnunum og vildir allt fyrir okkur gera.

Það var erfitt að sætta sig við og horfa upp á veikindi þín síðustu ár enda áttir þú allt gott skilið. Þú varst heppinn að hafa hana ömmu sem hefur staðið sig eins og hetja þér við hlið.

Það er sárt að kveðja þig elsku afi minn en þú skilur eftir þig fjöldann allan af góðum minningum sem við fjölskyldan getum glaðst yfir um ókomna tíð.

Ég trúi því að nú sért þú kominn á góðan stað og takir vel á móti okkur öllum þegar að því kemur.

Takk fyrir allt elsku afi minn, við sjáumst síðar.

Þinn afastrákur,

Aron Máni.

Elsku góði afi minn. Mér þykir svo vænt um þig. Það er svo margt sem þú hefur gert fyrir mig og ég er svo þakklátur fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman. Mér fannst alltaf svo gaman þegar við hittumst um helgar og horfðum saman á kvikmyndir með snakk og pepsí. Takk fyrir allar sögustundirnar, sundferðirnar og franskarnar í Tvistinum. Ég vildi að ég hefði fengið lengri tíma með þér elsku afi minn. Við ætluðum að horfa á svo margar kvikmyndir saman og áttum eftir að klára The twilight zone-þættina okkar. Elsku besti afi minn ég á eftir að sakna þín svo mikið. Ég veit þú vakir yfir mér stoltur og ég mun hugsa til þín þegar ég fer næst á svið. Ég mun alltaf hafa okkar setningu í huga, „Always look on the bright side of life“ úr uppáhaldsgrínmyndinni okkar Monty Python's Life of Brian.

Ég elska þig.

Þinn afastrákur,

Elí Kristinn
Símonarson.