Ármann Þorvaldsson
Ármann Þorvaldsson
Hagnaður Kviku banka nam um 540 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs, og dróst saman um tæpar 930 milljónir króna á milli ára. Tekjur bankans námu um 4,8 milljörðum króna og drógust saman um tæpar 190 milljónir á milli ára

Hagnaður Kviku banka nam um 540 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs, og dróst saman um tæpar 930 milljónir króna á milli ára. Tekjur bankans námu um 4,8 milljörðum króna og drógust saman um tæpar 190 milljónir á milli ára. Í uppgjörstilkynningu bankans kemur fram að niðurstaðan sé í samræmi við spá bankans.

Hagnaður bankans fyrstu níu mánuði ársins nemur því um 2,5 milljörðum króna og dróst saman um tæpar 750 milljónir króna á milli ára. Arðsemi eigin fjár fyrir skatta var 11,5% og eigið fé er um 80 milljarðar króna.

Spá bankans um afkomu fyrir árið helst óbreytt, en gert er ráð fyrir um 6,6 milljarða króna hagnaði á 12 mánaða tímabili sem lýkur 30. júní 2024.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir í uppgjörstilkynningu að rekstur bankans sé traustur þrátt fyrir háa vexti og krefjandi aðstæður á fjármálamörkuðum. Hann segir að gripið hafi verið til aðgerða til að bæta rekstur bankans, m.a. með 900 milljóna króna lækkun rekstrarkostnaðar og ákvörðun um að hefja sölu á dótturfélaginu TM. „Salan mun gera Kviku kleift að skerpa áherslu á kjarna bankastarfsemi, stækka og auka fjölbreytni í lánabók bankans og auka arðsemi, auk þess að skila verulegu fjármagni til hluthafa,“ segir hann.