Áslaug Halldórsdóttir Kjartansson fæddist 16. apríl 1939 í Reykjavík. Hún lést 13. október 2023 á Landspítalanum.
Foreldrar hennar voru Else Marie Nielsen Kjartansson, f. 27.5. 1908, d. 11.12. 1971, og Halldór Kjartansson, f. 6.9. 1908, d. 16.11. 1971. Bróðir Áslaugar var Kristján Georg Kjartansson, f. 22.6. 1934, d. 30.7. 1999. Hann var kvæntur Iðunni Björnsdóttur, f. 16.12. 1937, d. 25.7. 2005.
Hinn 26. apríl 1958 giftist Áslaug Birni Björnssyni, f. 28.7. 1938, d. 7.8. 2013, eignuðust þau sjö börn: 1) Elsa María, f. 24.12. 1957. Hún er gift Rafni Haraldssyni, f. 25.7. 1957. Börn þeirra eru: (1a) Björn Gunnar, f. 31.5. 1977. Dóttir hans og Sólbjartar Jensdóttur er Elsa María, f. 16.2. 2017. (1b) Áslaug María, f. 17.5. 1982. Hún er gift Skúla Júlíussyni, f. 18.1. 1982. Börn þeirra eru: María Dís, f. 18.3. 2010, Katla Margrét, f. 10.5. 2013, og Júlíus Rafn, f. 10.6. 2020. (1c) Elín Margrét, f. 17.3. 1989. Sambýlismaður hennar er Gylfi Már Þórðarson, f. 6.7. 1990. Dóttir þeirra er Guðrún Júlía, f. 25.9. 2020. 2) Kristján Georg, f. 30.4. 1960. Hann er kvæntur Guðrúnu Theodórsdóttur, f. 27.5. 1959. Börn þeirra eru: (2a) Guðni G., f. 14.8. 1987. Dóttir hans og Ásu Þorsteinsdóttur er Ísabella Lilja, f. 5.7. 2015. Stjúpsonur Guðna er Ragnar Ingi Indíönuson, f. 19.8. 2014. Sambýliskona Guðna er Indíana Ásmundardóttir, f. 25.7. 1995. (2b) Arna María, f. 28.6. 1990. 3) Jón Kjartan, f. 19.4. 1963. Sonur hans og Ágústu Daníelsdóttur er (3a) Alex Þór, f. 23.1. 1992. Alex er kvæntur Hyvonne Apondi Keya, f. 28.9. 1995, og dóttir þeirra Ameera Kea, f. 24.4. 2020. Sambýliskona Jóns er Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, f. 5.11. 1978, og stjúpdóttir hans er Andrá Sigríðar Teitsdóttir, f. 24.4. 2013. 4) Ragnar Ingi, f. 31.8. 1968. Sonur hans og Berglindar Þórðardóttur er (4a) Þórður Kristján, f. 10.10. 1988. Sambýliskona Ragnars er Marta María Þorbjarnardóttir, f. 23.7. 1983. 5) Halldór Kjartansson, f. 28.2. 1972. Hann er kvæntur Magneu Ólöfu Guðjónsdóttur, f. 21.1. 1972. Börn þeirra eru: (5a) Arnór Daði, f. 11.4. 1998, (5b) Thelma Karen, f. 23.7. 2001, og (5c) Kjartan Kári, f. 2.7. 2003. 6) Gussi, f. 4.4. 1975, d. 28.7. 1975. 7) Andrés Þór, f. 30.9. 1977. Hann er kvæntur Evu Ingimarsdóttur, f. 28.8. 1975. Börn þeirra eru: (7a) Andrea Marín, f. 10.10. 2000, (7b) Benoný Breki, f. 3.8. 2005, og (7c) Björgvin Brimi, f. 3.7. 2008.
Áslaug gekk í Landakotsskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og svo lá leiðin í Verslunarskóla Íslands. Á sínum yngri árum vann Áslaug fyrir Sjóvá. Hún tók við sínum hluta af Elding Trading Company af föður sínum á áttunda áratugnum. Frá upphafi níunda áratugarins og allt til síðasta dags flutti hún inn Lumene-snyrtivörur frá Finnlandi og seldi í heildsölu.
Útför Áslaugar verður frá Neskirkju í dag, 3. nóvember 2023, klukkan 15.
Steymi frá útför:
https://www.nettengsl.is/aslaug/
Elsku mamma mín, mér finnst svo skrýtið að þú sért farin frá okkur öllum, en það sem eftir situr er mikið þakklæti og skemmtilegar minningar, það væri hægt að skrifa heila bók um þessar minningar. Þú varst ótrúlegur karakter og lést að þér kveða hvert sem þú fórst. Hjálpsamari manneskju var ekki hægt að finna. Varst alltaf tilbúin að hjálpa þeim sem minna máttu sín. Það var ávallt fjör á Grenimelnum þegar ég var yngri og minnist ég þess tíma vel. Þessi tími mótaði mig sem ákveðinn ungan mann sem þroskaðist snemma og var tilbúinn að takast á við hluti. Þegar ég horfi til baka þá kenndir þú mér ótrúlega margt sem ég er ofboðslega þakklátur fyrir. Mér þótti einstaklega skemmtilegt að fylgjast með þér elda mat og fórum við oft í margar búðir til að kaupa í kvöldmatinn. Ostaferðirnar í Hagkaup stóðu oft upp úr og fékk ég alltaf að smakka ostinn, hann þurfti að vera sterkur á bragðið til að hann fengi að fara inn á okkar heimili.
Þú gafst mér ótrúlega margt þegar ég var krakki og fékk ég oft að ferðast með ykkur pabba til Flórída, London eða annarra borga sem var virkilega skemmtilegur tími. Þú studdir mig í íþróttum og komst oft á KR-völlinn að horfa á þegar ég keppti þar.
Seinustu 24 árin eftir að ég kynntist Evu minni þá hefur þú stutt okkur í gegnum ótrúlega margt, hefur gefið Andreu, Benna og Bjögga svo skemmtilegar og fyndnar minningar sem munu lifa lengi með okkur. Ógleymanleg Liverpool-ferð á Anfield þar sem við nutum okkar í botn og þú fékkst draum þinn uppfylltan. Þú elskaðir allar íþróttir og var stundum ekki hægt að hringja í þig þegar leikur var í gangi. Þú varst einn harðasti KR-ingur sem ég veit um og mættir á alla leiki og það skemmdi ekki fyrir að Benni og Bjöggi byrjuðu að æfa með KR.
Elsku mamma mín, þín verður sárt saknað og erum við enn að átta okkur á þessu en ég trúi að þú sért komin til pabba og þið séuð sameinuð á ný. Mig grunar að það sé alvöru partí í gangi þarna með öllu þínu fólki. Hvíldu í friði mamma mín og ég mun aldrei gleyma þér.
Mamma, elsku mamma,
man ég brosið þitt.
Gengu hlýir geislar,
gegnum hjarta mitt.
(Sumarliði Halldórsson)
Þinn sonur,
Andrés (Addi).
Elsku mamma.
Elsku mamma túrbó! Þannig byrjaði ég ræðuna sem ég hélt fyrir okkur systkinin þegar þú varðst sextug.
Þessi orð lýsa þér nokkuð vel því krafturinn og dugnaðurinn sem þú hafðir var ótrúlegur.
Það að eiga mömmu er ekki sjálfgefið, hvað þá mömmu eins og þig. Konu með stórt hjarta og mikla réttlætiskennd sem setti alla aðra en sig í fyrsta sætið. Glæsilega konu sem tekið var eftir og alltaf á amerískum bílum.
Þær eru margar sögurnar sem hægt er að segja um þig og væri líklega efni í heilt bindi.
Það var mikil vinna fyrir ykkur pabba að ala upp sjö börn og missa eitt. Ég veit að það hafði mikil áhrif á ykkur og sár ykkar greru aldrei.
Ferðirnar til útlanda, í sumarbústaðinn á Þingvöllum og á Reykjum. Ekki má gleyma þorrablótunum sem þú hélst árlega á bóndadaginn fyrir vini ykkar í yfir 50 ár. Þegar mest var voru yfir 50 manns í þeim veislum.
Já, það var alltaf mikið fjör og gleði á Grenimelnum og alltaf opið hús fyrir vini okkar systkina.
Öll sú ást sem þið pabbi gáfuð mér og minni fjölskyldu verður seint þökkuð.
Þakklæti er það sem kemur upp í kollinn hjá mér og ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt í þig. Við spjölluðum saman á hverjum degi og alltaf sagðir þú við mig: „Takk fyrir að hringja í mig Dóri minn. Ég kann mikið að meta það.“
Við systkinin stöndum þétt saman á þessum tímamótum og söknuðurinn er mikill.
Ég veit að það hefur verið vel tekið á móti þér elsku mamma.
Þangað til næst.
Elska þig.
Þinn
Halldór (Dóri).
Fallin er frá yndisleg kona sem ég og flestir héldu að væri ódauðleg.
Áslaug var merkileg og mögnuð persóna. Fór sínar leiðir og lét lítið stoppa sig. Kom vel fram og alltaf til staðar ef eitthvað þurfti. Vel til fara, hárið greitt og varalitur, það var líklega það fyrsta sem hún gerði á daginn, að setja upp andlit.
„Sæl, mín kæra“ var ég vön að svara símanum þegar hún hringdi, stundum voru símtölin bara til að spjalla og stundum var eitthvert vesen á tækninni sem hún treysti mér til að leysa en þótti skrítið að ég gæti ekki lagað allt í gegnum símann.
Hún var ekki mikið fyrir þessa tækni, það sýndi sig best að hún notaði einnota myndavélar í boðum. Síminn hennar var upptrekktur, svo gamall var hann, Nokia-sími samanlímdur og brotnir takkar, en nei hún þurfti ekkert nýjan síma, þessi virkaði og það var nóg.
Áslaug treysti manni fyrir mörgum hlutum, ef þú gerðir eitthvað fyrir hana einu sinni þá varst þú sá/sú eina sem gast gert þann hlut þar eftir.
Áslaug var Vesturbæingur í húð og hár, stuðningsmaður KR, mætti á flesta leiki og lét til sín heyra. Hennar skoðun var alltaf sú rétta og eiginlega sú eina. Var óhrædd við að láta sínar skoðanir koma hreint út og kalla aðra vitleysinga ef þeir voru ekki sammála.
Áslaug elskaði fótbolta, blóðþrýstingurinn upp úr öllu og allt í steik því helv… dómarinn var ekki að vinna vinnuna sína.
Maður vogaði sér ekki að hringja þegar það var bolti í sjónvarpinu, ef maður hringdi var oftast svarað í símann: „Hva, ertu ekki að horfa á leikinn!“ Og þá sérstaklega ef það var KR eða Liverpool sem voru að spila, þá kvaddi maður fljótt.
Hún var stolt af æsku sinni og lífi. Fékk maður ófáa bíltúrana um æskuslóðirnar með öllum þeim sögum sem því fylgdu. Henni þótti ekki leiðinlegt að vera á ferðinni og fannst nú ekki mikið mál að skjótast hingað og þangað. Hún þekkti öll bakarí á landinu og hvað þeirra sérstaða væri; í þessu var besta brauðið, þarna bestu kleinurnar og meira í þeim dúr og oft tekinn rúnturinn í fleiri en eitt bakarí á sama deginum til að fá það besta frá hverju og einu. Meina hvað er eðlilegra, búandi í Vesturbænum, en að skjótast til Hafnarfjarðar í bakarí til að fá besta hafrakexið!
Áslaug var mér afar kær, tók mér opnum örmum inn á heimilið sitt er ég kynntist Ragnari syni hennar, hún var með góða nærveru og mér þótti gott að kíkja til hennar. Ferðir í Mombasa, sumarbústaðinn þeirra Áslaugar og Bjössa, voru yndislegar. Áslaug var alltaf að, hún elskaði að þjóna og bjóða fólki. Kona sem var alltaf til staðar fyrir alla, sendandi matarbakka til fólks sem þess þurfti. Ég er þakklát að geta sagt að Áslaug var ekki bara tengdamamma heldur einnig kær vinkona.
En því miður er komið að kveðjustund og skarðið er stórt sem þessi magnaða kona skilur eftir. Yndisleg mamma, tengdamamma, amma og langamma sem allir eiga sínar sögu um.
Elsku Áslaug, þín verður ansi sárt saknað, en minningarnar ylja og verða með okkur um ókomna tíð.
Þó að leiðir skilji nú í hjarta mínu ávallt lifir þú.
Þar til næst mín kæra.
Þín tengdadóttir,
Marta María.
Elsku hjartans amma mín er farin.
Ég er þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á um ömmu. Ég er þakklát fyrir að hafa getað gengið til hennar eftir skóla og fengið að eyða deginum með henni á rúntinum. Að eyða deginum með ömmu Áslaugu var það skemmtilegasta; tvær bakarískerlingar að keyra á milli bakaría að kaupa mismunandi bakkelsi, stoppa síðan í ýmsum fyrirtækjum og heimahúsum til að fara inn og afhenda snyrtivörur. Amma var þekkt fyrir að leggja amerísku köggunum sínum þar sem henni sýndist. Þeir eru margir rúntarnir okkar sem eru mér minnisstæðir. Einu sinni sem oftar þurfti hún að hoppa inn í Sparisjóðinn við Skólavörðustíg. Hún lagði beint fyrir utan og lét mig fá nokkrar Lumene-prufur og sagði: „Ef stöðumælavörðurinn kemur þá gefur þú honum prufurnar og segir að ég sé rétt ókomin!“ Þegar amma kom út úr bankanum stóð ég fyrir utan bílinn að gefa stöðumælaverði prufur, hún sagði mér að fara inn í bíl og við brunuðum af stað.
Amma elskaði Vesturbæinn og KR. Við fórum á ófáa KR-leiki saman, bæði heimaleiki og útileiki. Veðrið skipti ekki máli, hún lét fátt stoppa sig í að mæta á völlinn og styðja sína menn. Við mamma kíktum á hana á spítalann ekki fyrir löngu, hún var orðin mikið veik en þarna lá hún í rúminu, með heyrnartól að horfa á Benna sinn spila með KR í sjónvarpinu. Það sem hún var stolt af því að eiga barnabarn sem var að spila með KR. Hún var svo stolt af strákunum sínum og mætti ekki bara á KR-leiki þetta sumarið heldur einnig FH-leiki þar sem Kjartan Kári var að spila. Hún var ótrúleg.
Ein af mínum uppáhaldsminningum er úr óvæntri afmælisferð á leik með Liverpool sem við stórfjölskyldan buðum ömmu í þegar hún varð áttræð. Sú var lukkuleg þegar hún var kölluð upp í setustofu á Anfield og fékk afmæliskort frá Liverpool.
Þegar ég fékk aldur til var mér loksins boðið í þorrablótið sem amma hélt á hverju ári. Árið 2019 hélt amma upp á 57. þorrablótið sitt. Ég hlakkaði til þorrablótsins á hverju ári, allir hittust á Grenimelnum og skemmtu sér saman. Magnað að skemmtilegustu partíin sem maður fór í voru hjá ömmu og afa á Grenó.
Mikið á ég eftir að sakna þín, amma mín, en það verður gott að hlýja sér yfir öllum góðu minningunum af samveru okkar.
„Love you!“
Elín Margrét Rafnsdóttir.
Elsku amma mín, það er svo óraunverulegt að þú sért farin. Ég var svo barnaleg að halda að þú myndir í alvörunni lifa okkur öll, þrjóskan og styrkurinn svo magnaður að það kæmi ekkert annað til greina. En núna ertu farin til afa og Gussa og allra hinna sem biðu eftir þér hinum megin. Ég er viss um að veislan heldur áfram.
Þú stórkostlega kona sem varst fyrirmynd mín í svo mörgu. Ég hef alltaf verið stolt af því að fá að bera nafnið þitt. Ég mun reyna mitt allra besta til þess að halda uppi heiðrinum sem fylgir því.
Þú varst engin venjuleg amma, ég veit ekki hversu oft ég hef verið spurð hvort bleika konan á ameríska kagganum sé virkilega amma mín. Ég var alltaf svo stolt að segja já. Þegar ég var lítil var ég svo oft að flækjast með þér hingað og þangað að keyra út Lumene, kaupa í matinn, heimsækja hinn og þennan og allt það sem fylgdi. Það var alltaf brjálað að gera og ekkert stoppaði þig. Að fara með þér í búð var oft erfitt, því þar þekktirðu alla og allir vildu spjalla við þig.
Verkefnin voru alls konar þegar ég var á Grenimelnum hjá ykkur afa. Fyrir jólin og þorrablótin þurfti að fægja silfrið, svo þurfti að greiða ömmu svo hún myndi nú slaka á í smástund, hjálpa til við Lumene-pantanir, bókhaldið og margt fleira. Þegar ég byrjaði í hlutastarfi hjá þér í Lumene ákvað ég strax að ég ætlaði að verða bissnesskona eins og amma. Það var mögnuð reynsla sem fylgir mér enn. Ég fékk alltaf 10 í bókhaldi eftir það og ég lærði hversu mikilvæg viðskiptavinatengsl eru. Þú kenndir mér að konur geta líka verið töffarar í krefjandi störfum. Það er samt sumt sem ég apaði ekki upp eftir þér, þú til dæmis sagðir alltaf að getnaðarvarnir væru ekki fyrir þig, það væri alveg nóg að snúa sér á hina hliðina. Þú áttir sjö börn, ég á þrjú. Þar tók ég vísindin fram yfir ömmuráð.
Á unglingsárunum gat verið erfitt að eiga svona yfirnáttúrulega ömmu, ömmu sem vissi alltaf allt og ef hún vissi það ekki bjó hún til lygasögu til þess að komast að sannleikanum. Þegar ég var í Hagaskóla var kjörið að fara á Grenó í hádeginu og fá dýrindis hádegismat en auðvitað komstu þá að því að ég væri að fikta við að reykja. Sagðir mér lygasögu til þess að fá mig til að játa.
Það sem ég mun varðveita í minningum og sakna mest er hláturinn þinn, hvernig þú skríktir eins og smástelpa þegar við vorum að segja eitthvað fyndið. Það var svo oft, það var alltaf svo gaman með þér. Ég elskaði að hlusta á sögur af ferðalögunum ykkar afa frá því í gamla daga og allt það sem þið höfðuð gert og gengið í gegnum.
Skúli biður að heilsa og já hann borðar tómata, skilur hvað ég meina. Nú þarf ég að leggja allt mitt í að búa til langömmu-kjötsúpu fyrir krakkana mína. Þú kannski sendir mér uppskriftina að handan, ef einhver getur það þá ert það þú. Ég treysti því að þú pikkir í mig ef ég er að beygja vitlaust. Ég veit að þú munt fylgja okkur öllum.
Eins og við enduðum öll símtöl: Ég elska þig. Í dag verð ég berfætt í skónum og fæ mér vodka með slettu af kóki þér til heiðurs.
Guð geymi þig elsku amma mín.
Þín nafna,
Áslaug María Rafnsdóttir.
Elsku amma mín, ég sakna þín strax svo mikið. Vesturbærinn er svo tómur og litlaus án þín. Ég keyrði Ásvallagötuna fyrir nokkrum dögum þar sem þú ólst upp og rifjaði upp sögurnar sem þú sagðir mér frá æskuárum þínum og fór að ímynda mér litlu ömmu að hlaupa um götuna með flétturnar og spóaleggina. Það var örugglega algjört ævintýri að alast upp með þér, minntir mig oft á Línu langsokk, alltaf eitthvað að grallarast og gera hluti sem mátti ekki.
Það var alltaf svo gaman að vera í kringum þig, þú varst með svo góða nærveru og tókst alltaf svo vel á móti okkur. Það var eins og jólin að koma í heimsókn til þín, áttir alltaf alls kyns góðgæti sem ég gat hámað í mig af bestu lyst og maður slapp sko ekki með að fá sér ekki neitt.
Bestu minningarnar um þig eru stundirnar saman á KR-leikjunum í Vesturbænum. Þá var sko gaman, mættum á góðum tíma með teppi og kakó og það allra besta; KR-kexið góða. Brúna LU-kexið hefur verið kallað KR-kex síðan ég man eftir mér og var líka alltaf til í góðgætisskápnum heima hjá þér. Þegar ég borða það núna streyma fram allar minningarnar og góðu stundirnar sem við áttum saman elsku amma.
Þú vildir alltaf allt fyrir alla gera og það sem þú varst góðhjörtuð og umhyggjusöm. Þegar ég kom í heimsókn til þín á spítalann á afmælinu mínu, þremur dögum áður en þú fórst, varstu mjög máttlaus og uppgefin. Ég knúsaði þig og hélt í höndina þína og óskaði þess svo innilega að þér myndi batna. Það var erfitt fyrir þig að tala og þú varst mjög þreytt en samt náðirðu að berjast við það að koma saman orðum og óska mér til hamingju með daginn. Mér fannst afmælisdagurinn minn ekki skipta neinu máli miðað við það sem var að gerast hjá þér en það lýsir því svo vel hvaða manneskju þú hafðir að geyma.
Ég er svo þakklát að hafa átt þig sem ömmu og ég veit núna hvernig amma mig langar að verða þegar kemur að því einn daginn. Ég elska þig og sakna þín, þangað til næst elsku amma mín.
Þín
Andrea.
hinsta kveðja
Elsku amma, það verður skrítið að mæta á KR-völlinn á næsta tímabili og þú verður ekki þar undir teppi með KR-kexið í veskinu. Við munum halda í hefðina í minningu þína. Ég elska þig, þín ömmustelpa,
Thelma Karen.