Andrés Ingi Jónsson
Andrés Ingi Jónsson
Vísindaheimurinn ætti að standa á öndinni eftir að tímamótauppgötvun í líffræði var laumað inn í hógvært frumvarp um hvalveiðar. Í þessu ágæta frumvarpi Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata eru þau sláandi rök færð fyrir því að bann við hvalveiðum sé skynsamlegt að hvalir framleiði súrefni.

Vísindaheimurinn ætti að standa á öndinni eftir að tímamótauppgötvun í líffræði var laumað inn í hógvært frumvarp um hvalveiðar. Í þessu ágæta frumvarpi Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata eru þau sláandi rök færð fyrir því að bann við hvalveiðum sé skynsamlegt að hvalir framleiði súrefni.

Þingmaðurinn rekur að saurlát hvala séu mikilvæg fyrir vistkerfi sjávar vegna þess að þaðan fái ljóstillífandi lífverur næringu. Saurinn sé hluti af ferli sem úr verði súrefni og það sé nauðsynlegt lífverum sjávar.

Þetta er vitaskuld hægt að yfirfæra á fleiri tegundir. Kýr, kindur, svín og hross hljóta að sama skapi að frameiða súrefni séu saurlát þeirra notuð í áburð til að rækta ljóstillífandi gróður.

Ætli maðurinn framleiði þá ekki líka súrefni. Þar með væru loftslagsmálin sett í glænýtt samhengi.

Hin byltingarkennda kenning þingmannsins mætir þó ekki alls staðar velvilja. Hafrannsóknastofnun gerir ýmsar athugasemdir við rökflutninginn með frumvarpi Andrésar Inga. Þar má meðal annars lesa eftirfarandi fullyrðingu: „Við bendum á að hvalir framleiða ekki súrefni.“

Þar fór það.