Afrek „Það er afrek að komast þetta langt og algerlega einstakt að fá innsýn í þessa erfiðu lífsreynslu á þennan hátt,“ segir í rýni um sýninguna Stroke þar sem Virginia Gillard deilir sárri lífsreynslu með ógleymanlegum hætti.
Afrek „Það er afrek að komast þetta langt og algerlega einstakt að fá innsýn í þessa erfiðu lífsreynslu á þennan hátt,“ segir í rýni um sýninguna Stroke þar sem Virginia Gillard deilir sárri lífsreynslu með ógleymanlegum hætti. — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Stroke ★★★★½ Eftir Virginiu Gillard og Trigger Warning. Leikstjórn og dramatúrgía: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir og Kara Hergils. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Tónlist: Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir. Lýsing: Jóhann Friðriksson. Leikarar: Sæmundur Andrésson og Virginia Gillard. Trigger Warning í samstarfi við Virginiu Gillard frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 12. október 2023, en rýnt er í sýninguna á sama stað sunnudaginn 22. október 2023.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Trúðurinn horfir með opineygu sakleysi á heiminn. Bæði umheiminn og það sem hann rekst á innra með sjálfum sér. Fyrir vikið hinn fullkomni leiðsögumaður um það sem gerist þegar það verður skammhlaup í óskiljanlegu víravirki heilans. Það blasir við í Tjarnarbíói þessa dagana.

Heilablóðfallið sem umbylti lífi Virginiu Gillard er umfjöllunarefni hennar í sýningunni Stroke. Góðu heilli gefur bakgrunnur Virginiu í trúðleik henni einstaka möguleika á að sýna okkur það sem gerist þegar færni til að tjá sig og fremja einföldustu verk daglegs lífs hverfur eins og dögg fyrir sólu. Og hvað það kostar að ná tökunum á ný.

Þannig að það er trúðurinn Cookie sem sýnir okkur glímuna, í bland við upptekin viðtöl við Virginiu og Sæmund Andrésson eiginmann hennar um bakgrunn þeirra og hið örlagalíka slag. Sæmundur er líka trúðleikari og kemur sem slíkur Cookie til aðstoðar og mótleiks.

Útkoman er verulega áhrifarík. Það var hrein unun að finna spenntan meðbyrinn sem myndaðist í þétt skipuðum Tjarnarbíóssalnum þegar Cookie glímdi við talverkefnin í tölvunni eða reyndi að ná fyrri tökum á þeirri hversdagslegu en mikilvægu list að smyrja brauð. Og taka þátt í einlægum fögnuðinum þegar æðrulaus áreynslan skilaði árangri og þessi einföldu verk gengu loksins upp. Gráðugur leikhúsgesturinn hefði alveg getað hugsað sér fleiri atriði og lengri sýningu, en vafalaust eru takmörk fyrir hvað leikkona í bata eftir svona alvarlegt áfall ræður við. Það er afrek að komast þetta langt og algerlega einstakt að fá innsýn í þessa erfiðu lífsreynslu á þennan hátt.

Dásamleg nærvera trúðanna er í sjálfu sér nóg, en höfundar sýningarinnar hafa svo sannarlega ekki látið þá eina um að skapa áhrifin. Öll umgjörðin og framsetning sýningarinnar er sérlega vel heppnuð. Sviðslistahópurinn Trigger Warning er samstarfsaðili Virginiu og Sæmundar í verkinu og kemur með afgerandi listræna sýn að borðinu, en þær Andrea Elín Vilhjálmsdóttir og Kara Hergils eru leikstjórar og dramatúrgar sýningarinnar.

Leikmynd og leikmunir eru sérlega stílhrein og úthugsuð hjá Brynju Björnsdóttur og sama má segja um stemningsríka lýsingu Jóhanns Friðrikssonar. Tónlist Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur er einstaklega fallega saman sett, og vel til fundið að hefja leik á alþekktu lagi eftir landa Virginiu í AC/DC. „Thunderstruck“ er svo sannarlega réttnefni yfir það sem fjallað er um í sýningunni, og það rifjast upp að forsprakki sveitarinnar, Malcolm Young, glímdi sjálfur við heilasjúkdóm þótt af allt öðru tagi hafi verið.

Það er alltaf sérstök nautn fyrir leikhúsunnendur þegar tekst að láta ólíkar listrænar aðferðir vinna saman sem órofa heild. Ekki síst af því að það er ekki á vísan að róa með slík vinnubrögð. Hér gengur allt upp. Vel unnin og valin myndbönd úr heimildaleikhúsinu, framúrskarandi hönnun sjón- og hljóðrænna þátta og töframáttur trúðleiksins. Og síðast en ekki síst örlát og hugrökk frammistaða Virginiu Gillard við að deila sinni sárustu lífsreynslu þannig að ógleymanlegt verður.