Markvarsla Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar vel og innilega eftir góða markvörslu í Laugardalshöllinni.
Markvarsla Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar vel og innilega eftir góða markvörslu í Laugardalshöllinni. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessir leikir leggjast mjög vel í mig og ég er virkilega spenntur,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Víkinni í Fossvogi í gær

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þessir leikir leggjast mjög vel í mig og ég er virkilega spenntur,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Víkinni í Fossvogi í gær.

Ísland mætir Færeyjum í kvöld í Laugardalshöll í vináttulandsleik og svo aftur á morgun, laugardag, á sama stað.

Þetta verða einu heimaleikir Íslands fyrir lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem hefst í janúar á næsta ári í Þýskalandi en þar leikur Ísland í C-riðli keppninnar ásamt Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi.

Liðið mætir Austurríki í tveimur vináttulandsleikjum ytra í janúar áður EM hefst en Ísland mætir Serbíu í München í upphafsleik sínum á mótinu hinn 12. janúar.

„Æfingarnar í vikunni hafa gengið mjög vel og það er búinn að vera mikill hraði í þessu. Æfingarnar hafa verið mjög skemmtilegar og ég hef virkilega góða tilfinningu fyrir þessu.

Það er líka alltaf gott að koma heim og hitta vini sína, tala smá íslensku og æfa með vinum sínum þannig að þetta er allt saman búið að vera mjög jákvætt,“ sagði Viktor Gísli sem er 23 ára gamall.

Ýmislegt í þá spunnið

Karlalandslið Færeyja hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum en liðið tekur þátt í lokakeppni EM í Þýskalandi í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar.

„Það er einstakt að spila í Laugardalshöll fyrir framan íslensku þjóðina og maður mætir alltaf vel gíraður til leiks. Ég á von á hörkuleik gegn Færeyingum og þeir eru með mikið af ungum og góðum leikmönnum. Þeir hafa staðið sig mjög vel á þessum stórmótum með yngri landsliðunum og svo er Elias Ellefsen á Skipagötu samningsbundinn Þýskalandsmeisturum Kiel þannig að það er ýmislegt spunnið í þá.

Þeir spila mjög hraðan nútímahandbolta og ég á von á mjög hröðum og skemmtilegum leik gegn þeim. Þetta eru auðvitað fyrstu leikirnir undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar og eins og hann kom sjálfur inn á í einhverjum viðtölum þá hefur æfingavikan farið meira í það að einbeita okkur að okkur sjálfum en á sama tíma erum við búnir að fara ágætlega yfir Færeyingana líka.

Við höfum því nýtt tímann mjög vel saman myndi ég segja.“

Óheppnir með meiðsli

Viktor Gísli er samningsbundinn Nantes í frönsku 1. deildinni og er á sínu öðru tímabili með liðinu en Nantes er sem stendur með 13 stig í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði París SG.

„Mér líður vel í Frakklandi en það hefur aðeins vantað upp á stöðugleikann hjá okkur í upphafi tímabilsins. Stemningin innan liðsins hefur sveiflast með því og hún hefur kannski oft verið betri en akkúrat núna. Á sama tíma erum við með geggjaðan heimavöll þar sem stemningin er alltaf frábær.

Við höfum líka verið óheppnir með meiðsli þar sem við misstum tvo góða og mikilvæga menn en það styttist í endurkomu hjá þeim og vonandi verða þeir báðir orðnir klárir í slaginn strax eftir landsleikjahlé. Ég reikna því fastlega með því að stemningin fari aftur upp á við þegar þeir snúa aftur og að úrslitin fari að detta með okkur.“

Frábært lífsreynsla

Markvörðurinn varð bikarmeistari með Nantes á síðustu leiktíð þegar liðið hafði betur gegn Montpellier í úrslitaleik í Bercy-höllinni í París, 39:33, en Viktor varði níu skot í leiknum og var með 27% markvörslu.

„Það var frábær lífsreynsla að verða bikarmeistari í sumar og við komum inn í þann leik eftir að hafa spilað okkur mjög vel saman allt tímabilið. Við toppuðum algjörlega á réttum tíma og markmiðið var að taka þá frammistöðu með okkur inn í þetta tímabil en því miður þá hefur það ekki alveg gengið eftir en það er bara eins og það er. Það er komin aðeins meiri pressa á þjálfarann núna en við erum með frábæra leikmenn og þetta á eftir að fara upp á við, ég er alveg sannfærður um það.

Sjálfur hef ég verið að byrja flesta leiki og ég fór vel af stað en það er mikið verið að rótera markmönnunum. Ef þú stendur þig ekki þá færðu ekki mikinn tíma inni á vellinum og þá er þér bara skipt af velli. Það þýðir hins vegar ekki að hengja haus og það er mitt að bíta á jaxlinn, halda áfram að æfa vel og vinna í sjálfum mér. Þjálfarinn stjórnar og ég þarf að einbeita mér að þeim hlutum sem ég get sjálfur stjórnað og spila betur, þetta er ekki mjög flókið.“

Öðruvísi stíll í Frakklandi

Viktor Gísli hélt ungur að árum út í atvinnumennsku þegar hann samdi við GOG í Danmörku árið 2019, þá 18 ára gamall, og hefur því verið í atvinnumennsku í fimm ár þrátt fyrir ungan aldur.

„Atvinnumannaumhverfið er bara þannig að það þýðir ekki að pæla í hlutum sem þú hefur enga stjórn á sjálfur. Stíllinn í Frakklandi er öðruvísi en maður er vanur í Skandinavíu sem dæmi og þolinmæðin og svigrúmið fyrir mistökum er ekki mikið. Maður er ennþá að læra inn á það og þetta er líka eitthvað sem kemur með meiri reynslu held ég.

Markmiðið er alltaf að verða Frakklandsmeistari og til þess þurfum við að vinna París SG og okkur hefur ekki tekist að gera það hingað til. Við þurfum líka að vinna alla hina leikina í deildinni og við gerðum jafntefli um daginn á móti liði sem við áttum að vinna. Það svíður auðvitað en það er góð byrjun að vinna París SG á heimavelli og við fáum tækifæri til þess í apríl á næsta ári.“

Orðrómur sem truflar ekki

Viktor Gísli er reglulega orðaður við Þýskalandsmeistara Kiel en hann er einbeittur á að standa sig vel í Frakklandi.

„Ég hef bara séð þetta á samfélagsmiðlum eins og Instagram til dæmis en hef ekkert heyrt frá umboðsmanninum mínum þannig að ég get ekki sagt að þetta trufli mig mikið. Ég er mjög einbeittur á að standa mig vel fyrir Nantes og landsliðið og það er í rauninni það eina sem ég er að hugsa um.

Ég á eitt og hálft ár eftir af samningi mínum í Frakklandi og ég er ekki að hugsa um neitt annað í rauninni. Ég ætla að halda áfram að standa mig vel og svo bara sjáum við til hvað verður,“ bætti landsliðsmarkvörðurinn við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason