Myndbrot Selfoss hefur oft verið nefndur bílabærinn, bæði fyrr og nú.
Myndbrot Selfoss hefur oft verið nefndur bílabærinn, bæði fyrr og nú.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Kvikmyndaáhuginn kom snemma og hefur alltaf fylgt mér,“ segir Marteinn Sigurgeirsson fyrrverandi kennari. Á fimmtudag í næstu viku heldur hann á æskuslóðum sínum austur á Selfossi sýningu með myndbrotum af ýmsu því sem hann hefur filmað þar í bæ á undanförnum áratugum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Kvikmyndaáhuginn kom snemma og hefur alltaf fylgt mér,“ segir Marteinn Sigurgeirsson fyrrverandi kennari. Á fimmtudag í næstu viku heldur hann á æskuslóðum sínum austur á Selfossi sýningu með myndbrotum af ýmsu því sem hann hefur filmað þar í bæ á undanförnum áratugum. Rétt sextíu ár eru síðan Marteinn byrjaði að mynda þar í bæ, og úr því hafa orðið merkar heimildir um mannlífið þar.

„Ég byrjaði snemma í félagsstörfum og íþróttum heima á Selfossi. Aðstaðan til slíks var bágborin þegar þetta var, fyrir rúmum sextíu árum. En mikið óskaplega var þetta nú skemmtilegt. Svo kom að því að halda bíó og þar fann ég mig algjörlega. Ég leigði stundum hús Iðnskólans og sýndi þar efni sem fékkst frá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna, meðal annars myndir af húsbyggingum þar vestra. Slíkar myndir vöktu mikinn áhuga bíógesta, ungra drengja sem síðar urðu helstu húsasmiðirnir á Selfossi,“ segir Marteinn.

Á unglingsaldri fór Marteinn í Kaupfélag Árnesinga á Selfossi og ætlaði að kaupa þar hefðbundna myndavél. Engin slík fékkst í búðinni en tiltæk var kvikmyndavél. Þar með varð ekki aftur snúið.

Krónprins í Fuglafirði

„Fljótlega eftir að ég eignaðist kvikmyndatökuvélina fór ég sem fararstjóri með krökkum mér nokkru yngri norður á Húsavík, þar sem keppt var í sundi og knattspyrnu. Síðar myndaði ég ferðalag Selfosskrakka í Þórsmörk og á Þingvelli, einnig leiðangur fótboltamanna með Friðriki krónprinsi til Fuglafjarðar í Færeyjum. Þetta var í kringum 1970,“ segir Marteinn sem búið hefur í áratugi í Kópavogi og myndað margt þar í bæ. Þá var hann lengi kennari við Álftamýrarskóla í Reykjavík og kynnti þar nemendum sínum meðal annars gerð heimildamynda. Margir reyndu sig einmitt á slíku og höfðu ánægju af.

„Ég fer oft austur á Selfoss að ná myndefni, sem ég á nú í tugum klukkutíma. Myndir frá ungmennafélagsmótum og 100 ára afmæli brúar yfir Ölfusá árið 1991 eru í sarpinum. Einnig efni tengt Hestamannafélaginu Sleipni. Af nægu er að taka og þegar gera skyldi heimildarmynd var vandasamt að velja úr. Ég er þó sáttur við útkomuna,“ segir Marteinn um heimildarmynd sína sem heitir 60 ár á 60 mínútum.

Bræður rifja upp

Og meira er í pípunum, svo sem gerð heimildarmyndar um upphaf skólastarfs á Selfossi. Sumra þeirra kennara sem þá störfuðu í bænum nýtur enn við og eru þeir til frásagnar. Einnig nemendur, nú roskið fólk, sem hafa margs að minnast. Myndin verður sýnd á Sviðinu í nýja miðbænum á Selfossi nk. fimmtudagskvöld, 9. nóvember, kl. 20. Þar verður einnig rifjað upp ýmislegt sem tengist mannlífi á Selfossi af Marteini og Gunnari bróður hans, en þeir Sigurgeirssynir fengu fyrir myndatökur sínar og fleira menningarverðlaun Árborgar 2019.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson