Gjöf Lionsfélagarnir Friðrik Már Bergsveinsson og Guðmundur Harðarson úr BUGL-nefnd Fjörgynjar framan við nýjasta bílinn.
Gjöf Lionsfélagarnir Friðrik Már Bergsveinsson og Guðmundur Harðarson úr BUGL-nefnd Fjörgynjar framan við nýjasta bílinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi var stofnaður 1990 og hefur síðan veitt samtals um 150 milljónir króna í styrki til góðra málefna. Helsta fjáröflunarleið klúbbsins frá 2003 hafa verið stórtónleikar til styrktar Barna- og unglingageðdeild…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi var stofnaður 1990 og hefur síðan veitt samtals um 150 milljónir króna í styrki til góðra málefna. Helsta fjáröflunarleið klúbbsins frá 2003 hafa verið stórtónleikar til styrktar Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, og Umhyggu, félagi langveikra barna, í Grafarvogskirkju, en 19. tónleikarnir verða næstkomandi fimmtudag, 9. nóvember.

Þór Steinarsson formaður verkefnanefndar er einn stofnfélaga Fjörgynjar og hefur verið viðloðandi stjórnina nær allar götur síðan. Hann segir að eftir að klúbburinn hafi styrkt Barnaspítala Hringsins í mörg ár hafi þeim verið bent á að BUGL þyrfti á aðstoð að halda. Helsta vandamálið væri að farartæki vantaði til þess að gera meðferðarteymi BUGL mögulegt að heimsækja skjólstæðinga sína á suðvesturhorninu, frá Borgarnesi að Selfossi.

„Þá réðumst við í það verkefni að halda stórtónleika og afla fjár,“ rifjar Þór upp. Til að byrja með hafi þeir verið með bíla í kaupleigu fyrir BUGL í nokkur ár en síðan keypt bílana. „BUGL fékk fyrsta bílinn frá okkur 2007 og síðan hefur þeim verið skipt út, eins og gengur.“ Auk þess hafi líknarsjóður Fjörgynjar styrkt BUGL með öðrum hætti, meðal annars aðstoðað við kaup á tölvum, skjávörpum og ýmsum öðrum hlutum til að létta börnunum lund.

Yfir 100 tónlistarmenn

Umhyggja hlýtur nú beinan fjárstuðning frá Fjörgyn annað árið í röð. Þór bendir á að líknarsjóðurinn styrki fjölmörg verkefni og þau séu misjafnlega stór í sniðum. Í því sambandi nefnir hann martargjafir á aðventunni í samstarfi við Grafarvogskirkju og Íslensku kristskirkjuna, stuðning við Ljósið sem og við Sólheima í Grímsnesi.

Þór segir að drjúgur hluti styrkja Fjörgynjar frá upphafi hafi runnið til Barnaspítala Hringsins, einkum í formi tækjagjafa, og BUGL. Fyrstu fimm árin hafi stuðningurinn þó fyrst og fremst verið við stofnanir, félög og félagasamtök í Grafarvogi eins og til Skátafélagsins Vogabúa, Skólahljómsveitar Grafarvogs, Foldaskóla, Fjölnis og Grafarvogskirkju, þar sem félagsmenn hafi unnið ýmis verk við bygginguna. Í mörg ár hafi klúbburinn staðið fyrir svonefndum Eirdegi á Eir hjúkrunarheimili og segja megi að stórtónleikarnir hafi tekið við af honum.

Mörg fyrirtæki hafa stutt Fjörgyn í tengslum við fjáröflun klúbbsins. Bónus hafi til dæmis verið með í stuðningi við Barnaspítala Hringsins og í kringum Eirdaginn og Sjóvá og N1 hafi verið með í bílaverkefninu fyrir BUGL frá upphafi.

Yfir 100 tónlistarmenn hafa lagt fram krafta sína endurgjaldslaust á stórtónleikunum, sem Vigfús Þór Árnason hefur skipulagt frá upphafi. Raggi Bjarna söng 14 sinnum á þeim áður en hann lést 2020. Nú koma fram Karlakórinn Fóstbræður, Baggalútur, Ellen Kristjánsdóttir (í 11. sinn), Friðrik Ómar, Gissur Páll Gissurarson (í 10. sinn), Guðrún Árný Karlsdóttir, Jógvan Hansen, Systur, Dísella Lárusdóttir, Emmsjé Gauti, Geir Ólafsson Greta Salóme, Helgi Björnsson og Rebekka Blöndal. Undirleikarar verða Lára Bryndís Eggertsdóttir, Matthías Stefánsson og Andrés Þór Gunnlaugsson. Tónleikarnir hefjast klukkan 19.30 og miðasala er á netinu (tix.is).

Höf.: Steinþór Guðbjartsson