Úrsúla Jünemann
Úrsúla Jünemann
Bak við þennan hrylling standa auðvitað þeir sem græða á vopnasölu.

Úrsúla Jünemann

Fyrir botni Miðjarðarhafsins búa um tvær milljónir manna í landi sem er ekki miklu stærra en Reykjavíkursvæðið. Landamærin ná öll að Ísrael nema að hafinu.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var gyðingunum úthlutað landi til að stofna nýtt ríki. Þá var tekið landsvæði frá öðrum og þrengt var mjög að Palestínu. Ekki nóg með það: Palestínumenn hafa þurft að búa við alls konar kúgun af hálfu Ísraela sem óðu með frekju og yfirgangi yfir þessa litla þjóð. Þeir tóku meðal annars vatnslindir og leiddu í sitt land á kostnað þeirra sem þurftu á því að halda í Palestínu.

Undir svona kringumstæðum er ekki skrýtið að hatur blossi upp. Þá sjá hryðjuverkasamtök sér leik á borði að auka sitt fylgi. Aldrei hefur verið ró og friður milli ríkjanna. Ísrael er í hlutverki Golíats, með öflugan her sem er styrktur aðallega frá Bandaríkjunum. Palestína er frekar í hlutverki Davíðs sem kann bara að verja sig með því að slöngva steinum. Þannig köstuðu palestínskir unglingar steinum yfir landamærin til Ísraels en fengu byssuskot til baka sem drápu suma þeirra.

Nú hafa þessi átök stigmagnast og eru komin í blindgötu sem kostar þúsundir lífið í báðum ríkjum, ekki síst eftir að Benjamin Netanyahu tók við völdum og myndaði harðstjórn sem margir Ísraelar eru ekki sáttir við. Þessi maður hefur vægast sagt vafasama fortíð í stjórnmálum.

Nú vil ég alls ekki réttlæta árás Hamas á saklaust fólk í Ísrael. Þessir menn eru veruleikafirrtir og blindir af hatri. Þeir hafa ausið olíu á eldinn í þessa púðurtunnu sem var fyrir.

Það ástand sem er núna er skelfilegt. Ísraelsher valsar grár fyrir járnum yfir litla landið þeirra Palestínumanna. Þar skulu milljónir yfirgefa heimili sín án þess að vita hvert skal fara. Landamærin eru lokuð. Ekkert vatn, engan mat er að fá, enga læknishjálp né aðra aðstoð. Ísraelsmenn hafa lokað fyrir að hjálparsamtök geti komist að. Þarna er greinilega verið að fremja þjóðarmorð, ekki er hægt að kalla þetta annað.

En þjóðir heimsins standa hjá og ekkert er gert. Ísrael nýtur stuðnings frá flestöllum vestrænum löndum, stuðnings við að útrýma lítilli þjóð fyrir botni Miðjarðarhafsins. Ef þetta er ekki helför þá veit ég ekki hvað.

Bak við þennan hrylling standa auðvitað þeir sem græða á vopnasölu. Og Vesturlöndin kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Ég skora á íslensku ríkisstjórnina að senda álit frá sér þess eðlis að við styðjum ekki Ísrael í þessari útrýmingarherferð sem á sér stað í Palestínu. Lítil þjóð eins og Ísland gæti gefið öðrum gott fordæmi sem gæti sáð sér víðar.

Höfundur er kennari á eftirlaunum.

Höf.: Úrsúla Jünemann