[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikael Anderson átti stórleik fyrir AGF er liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í fótbolta með 4:0-útisigri á Ishöj í gærkvöldi

Mikael Anderson átti stórleik fyrir AGF er liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í fótbolta með 4:0-útisigri á Ishöj í gærkvöldi. Mikael skoraði þriðja mark AGF á 73. mínútu og lagði upp það fjórða á lokamínútunni. Mikael hefur leikið mjög vel með AGF á leiktíðinni og vakið verðskuldaða athygli.

Portúgalska stórliðið Porto hefur áhuga á að fá skyttuna Þorstein Leó Gunnarsson til liðs við sig, en Þorsteinn hefur slegið í gegn með Aftureldingu undanfarna mánuði og unnið sér inn sæti í íslenska landsliðinu fyrir vikið. Arnar Daði Arnarsson, stjórnandi hlaðvarpsins Handkastsins og fyrrverandi þjálfari karlaliðs Gróttu, greindi frá. Að sögn Arnars fór Þorsteinn til Portúgals á dögunum og ræddi við forráðamenn félagsins.

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Rodrygo hefur skrifað undir nýjan samning við spænska stórveldið Real Madríd sem gildir til sumarsins 2028. Rodrygo er 22 ára gamall sóknarmaður og fetar í fótspor landa síns Vinícius Júnior, sem skrifaði einnig undir framlengingu á samningi sínum við Real Madríd í vikunni. Rodrygo hefur leikið með Real Madríd frá árinu 2019 og unnið Meistaradeild Evrópu einu sinni, spænsku 1. deildina einu sinni og spænska bikarinn einu sinni. Hann hefur skorað 39 mörk og lagt upp önnur 33 í 179 leikjum fyrir Madrídinga í öllum keppnum.

Félög sem hafa áhuga á enska framherjanum Ivan Toney í janúar þurfa að minnsta kosti að greiða 100 milljónir punda fyrir leikmanninn. Hann hefur ekki mátt spila á leiktíðinni til þessa vegna leikbanns eftir að hann gerðist sekur um brot á veðmálareglum. Þrátt fyrir það eru bæði Chelsea og Arsenal áhugasöm um Toney, sem hefur raðað inn mörkum fyrir Brentford undanfarin ár.

Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro fór af velli í hálfleik í 0:3-tapi Manchester United fyrir Newcastle United í enska deildabikarnum á miðvikudagskvöld og því er ólíklegt að hann geti spilað gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni á morgun. „Ég held að hann geti pottþétt ekki spilað á laugardag,“ sagði Erik ten Hag knattspyrnustjóri félagsins á blaðamannafundi í gær.

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti afar góðan leik fyrir gríska liðið PAOK þegar það laut í lægra haldi fyrir portúgalska stórveldinu Benfica, 72:94, í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn. Elvar Már var atkvæðamestur hjá PAOK er hann skoraði 16 stig, tók fjögur fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal einum bolta á um 30 mínútum. PAOK er í efsta sæti G-riðils með tvö stig eftir tvo leiki, jafnmörg stig og Benfica. Elvar hefur leikið gríðarlega vel með liðinu eftir að hann kom til þess fyrir leiktíðina, en hann lék áður með Rytas í Litáen.