Margrét Elísabet Guðbjartsdóttir fæddist í Hnífsdal 26. desember 1926. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri 25. október síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Jónína Þóra Guðbjartsdóttir, f. 24. ágúst 1902, d. 9. júní 1988 og Guðbjartur Marías Ásgeirsson, f. 14. apríl 1899, d. 3. nóvember 1973. Margrét var elst fimm systkina sem öll eru látin nema eitt.

Margrét giftist árið 1948 Kristni Arnbjörnssyni, f. 26. júní 1924, d. 28. nóvember 1976. Börn þeirra eru: 1) Jónína Guðbjörg Kristinsdóttir, f. 22. júlí 1950, d. 14. apríl 2006. Hún var gift Guðmundi Óla K. Lyngmo, f. 13. maí 1954. Þau eiga eina dóttur saman, Lindu Lyngmo, f. 3. ágúst 1985, maki Haukur Eiríksson, f. 27. ágúst 1982. Þau eiga þrjú börn. Fyrir átti Jónína dótturina Sigurlínu Jónasdóttur, f. 8. desember 1969, maki Magnús Gautur Gíslason, f. 11. desember 1968. Þau eiga þrjár dætur. 2) Arnar Kristinsson, f. 24. desember 1953, maki Ingibjörg Margrét Jónasdóttir, f. 15. júní 1954. Börn þeirra eru: a) Margrét Ósk Arnarsdóttir, f. 4. september 1972, maki Matthías Arngrímsson, f. 7. nóvember 1970. Margrét á fjögur börn og tvö stjúpbörn. b) Kristinn Elvar Arnarsson, f. 26. desember 1975, maki Kristín Tinna Aradóttir, f. 18. október 1988. Kristinn Elvar á þrjár dætur og þrjár stjúpdætur.

Margrét ólst upp á Ísafirði og gekk þar í skóla. Hún fór snemma út á vinnumarkaðinn og vann við síldarvinnslu á Siglufirði og í Neskaupstað, stofnaði síðan verslunina Ósk á Ísafirði ásamt mágkonu sinni og rak hana um nokkurra ára skeið. Síðar hóf hún störf í versluninni Neista og eftir að hafa látið af störfum í Neista starfaði hún á Pósthúsinu á Ísafirði út starfsævi sína.

Margrét var félagskona í kvennadeild SVFÍ Ísafirði. Hún sat til að mynda í stjórn þar á tímabili og tók virkan þátt í þeim félagsskap alla tíð.

Áhugamál hennar voru, auk fjölskyldunnar, ferðalög, handavinna og lestur góðra bóka.

Margrét verður jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju í dag, 3. nóvember 2023, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku, elsku amma. Þá er komið að hinstu kveðju. Þú hefur nú fengið hvíldina eftir langa og góða ævi. Þegar ég horfi til baka eru minningarnar margar þar sem ég var svo mikið hjá þér alla tíð og hvergi leið mér betur. Alltaf eitthvað gott að borða, stundum of mikið, og alltaf efasemdir um að ég væri orðin södd, ég hlyti nú að geta borðað aðeins meira. Alltaf umhyggjan og hlýjan þín sem umvafði mig.

Ég minnist allra sumranna þegar ég vann í Íshúsinu sem unglingur, þá var best að gista hjá þér þar sem stutt var í vinnuna og koma svo til þín í hádeginu og þá var alltaf búið að leggja hinar ýmsu kræsingar á borð og oftar en ekki fiskibollur úr dós með karrýsósu og karamellubúðing í eftirrétt sem var bæði í miklu uppáhaldi hjá mér, svo lagði ég mig aðeins í stofusófann þar til þú hnipptir í mig og ég fór aftur í vinnuna.

Eftir að mamma dó var yndislegt að þú komst alltaf til okkar í sunnudagssteikina, sem var auðvitað alltaf lambalæri eða lambahryggur, og svo var borðaður ís í eftirrétt og horft á Landann í sjónvarpinu. Allir bílrúntarnir okkar sem voru margir og dásamlegir þar sem engum fannst skemmtilegra í bíl en þér. Allar ferðirnar okkar um landið, til Reykjavíkur og Akureyrar og í sumarbústaði hér og þar, oft bara ég, þú og stelpurnar mínar, og áttum við alltaf yndislegar stundir í þessum ferðum.

Alltaf varstu svo jákvæð og hef ég reynt að tileinka mér það líka og oftar en ekki notaðir þú orðatiltækið vertu jákvæður það er léttara og er ég farin að nota það óspart núna.

Já, margs er að minnast og ég gæti haldið áfram endalaust að rifja upp góðar stundir svo margar voru þær og ég er svo þakklát fyrir það. Sorgin og söknuðurinn er mikill, en það er huggun harmi gegn að ég veit að mamma og afi hafa tekið vel á móti þér og ég gleðst yfir því að þið eruð nú sameinuð á ný.

Elsku amma, takk fyrir allt, takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig, fyrir vinskapinn, umhyggjuna og elskuna. Minningarnar munu lifa og hugga okkur í sorginni og vera ljós í lífi okkar um ókomin ár.

Þú varst mildi og ást

og þitt móðerni bar

við sinn líknsama barm

dagsins lifandi svar:

allt sem grét, allt sem hló,

átti griðastað þar

– jafnvel nálægð þín ein

sérstök náðargjöf var.

Hversu þreytt sem þú varst,

hvað sem þrautin var sár,

þá var hugur þinn samt

eins og himinninn blár:

eins og birta og dögg

voru bros þín og tár.

Og nú ljómar þín sól

bak við lokaðar brár.

(Friðmey Guðmundsdóttir)

Þín Lína,

Sigurlína Jónasdóttir.

Elsku amma.

Orð fá því ekki lýst hversu mikilvæg þú varst okkur systrum. Alltaf var tekið á móti okkur með hlýju og heimilið opnað upp á gátt fyrir öll þau sem fylgdu okkur. Þú varst með eindæmum góð og efst í huga okkar er hvað við erum þakklátar fyrir að hafa fengið allan þennan tíma með þér.

Takk fyrir allar kræsingarnar sem hættu ekki að koma á borðið þótt við værum löngu orðnar saddar. Takk fyrir alla rúntana og skutlin. Takk fyrir öll sunnudagsmatarboðin og skötuveislurnar sem voru samt meira pítsuveislur fyrir okkur systur. Takk fyrir öll spilakvöldin að spila rakka. Takk fyrir alla handavinnuna, prjónið og krosssauminn. Takk fyrir allar sögurnar og spjallið. Takk fyrir að minna okkur alltaf á að vera jákvæðar því það er betra og brosa framan í heiminn.

Elsku amma, takk fyrir allt.

Þínar

Elísabet Ósk, Melkorka Ýr og Hrafnhildur Una.

Nú eru komin ferðalok hjá henni Möggu Bjartar vinkonu minni og langri vegferð lokið en hún hefði orðið 97 ára um jólin. Hún kvaddi á sinn fallega hátt eins og hún lifði og var hún næstelsti Ísfirðingurinn. Hún Magga var einstök kona með sína fallegu ljúfu lund og stóra hjartað sem gerði heiminn betri. Okkar kynni hófust þegar maður var barn og hún var ein af mömmunum á Hlíðarveginum þar sem bjó stórt samfélag og var hún fjölmennasta gatan á Ísafirði. Þar voru um 100 börn þegar mest var og á milli 50 og 60 í Hlíðarvegsblokkinni.

Þegar hún og kynslóðir foreldra okkar og mikið af ungu fólki voru frumbyggjar þar og litla kaupfélagsbúðin í blokkinni var naflinn og allar mömmurnar komu að versla þar. Okkar samvera varð síðan meiri þegar Jónína einkadóttir hennar fór að búa með Óla æskuvini mínum og óx í yndislega vináttu sem var mér hjartans kær og ljúf. Vinátta þeirra mæðgna var mikil og þær nánar og Magga umvafði hana og Arnar einkasoninn og alla sína afkomendur, fjölskyldu og vini.

Magga varð ekkja á besta aldri en Kiddi maður hennar var vélstjóri með mági sínum á Guggunni og síðar lést Jónína dóttir hennar og var það Möggu mikill sorg sem hún tók með æðruleysi, en hún átti fyrir utan börn og barnabörn öll sín systkini sín hérna á Ísafirði, þá aflabræðurna Geira, Hörra og Badda og ekki síst Haddý systur sína en þær voru nánar alla tíð og góðar vinkonur. Þau settu mikinn svip á Ísafjörð. Magga rak verslun hér með Dídí mágkonu sinni í nokkur ár og vann í fjölda ára á pósthúsinu. Einnig var hún virk og öflug í starfi kvennadeildar Slysavarnafélagsins ásamt Haddý og mágkonum sínum. Magga elskaði að ferðast með fjölskyldu sinni í bíltúra, bústaðarferðir og til útlanda og þau Jónína og Arnar og fjölskyldur voru dugleg að fara með hana.

Það geislaði af henni Möggu hlý birta og gleði sem hún gaf af sér við allt og alla. Við vinkonur áttum ófáa bíltúra, kaffiboð og afmælisstundir saman og mér var þessi vinátta við þessa mannkostakonu gleði og heiður en hún var alltaf svo jákvæð og sagði við unga og aldna og starfsstúlkurnar á Eyri „vertu jákvæð, það er léttara“.

Arnar minn, þú sýndir mömmu þinni sérlega fallega sonarumhyggju sem var henni dýrmætt. Ég kveð góða og trygga vinkonu sem var gegnheil við samferðafólkið sitt með virðingu og þakklæti. Hjartans einlægustu samúðarkveðjur sendi ég Arnari og fjölskyldu og dætrum Jónínu, Línu og Lindu og ástvinum og ekki síst henni Haddý systur hennar og vinkonu minni sem er ein eftirlifandi af systkinunum og þakka henni Möggu fyrir fallega samfylgd í lífinu.

Blessuð sé minning mætrar konu.

Bjarndís.

Elsku hjartans vina, kæra Magga. Listin að lifa er ekki öllum gefin eða auðveld. Lífsviðhorf þitt breytti öllu til betri vegar og gaf samferðafólki þínu tilgang og gleði í störfum sínum og lífi. Minning um elsku þína og samveru fylgir okkur í minningunni og með þakklæti fyrir öll árin. Guð blessi þig og minningu þína.

Kæra Magga

Blítt var brosið þitt

ljúft sem andinn blíði

handtakið heilt og þýtt

hugann fyllti friði.

Ljóssins brot á birtu slær

bjart yfir minninguna

megi góður Guð þér vera nær

hjartans þökk fyrir samveruna.

Hugheilar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Ragnheiður Hákonardóttir og Guðbjartur Ásgeirsson og fjölskylda.