Kristinn Sigurjón Antonsson fæddist á Dalvík 26. febrúar 1936. Hann lést á Hrafnistu, Nesvöllum, 19. október 2023.

Foreldrar hans voru þau Anton Gunnlaugsson, fæddur 19.8. 1913, látinn 9.9. 2004 og Jóna Hallfríður Kristjánsdóttir, fædd 10. ágúst 1910, látin 13.12. 2007.

Systkini Kristins eru Þröstur, fæddur 3.7. 1938, látinn 21.6. 1995, Flóra Róslaug, fædd 17.2. 1940, Felix Veigar, fæddur 17.2. 1940, Ingvi Kristins, fæddur 9.3. 1942, Ragnhildur Ingibjörg, fædd 6.3. 1943, Sesselja Guðlaug, fædd 13.3. 1946 og Jónas Baldvin, fæddur 27.6. 1949.

Eiginkona Kristins var Elínborg Ósk Elísdóttir, fædd í Sælingsdal í Hvammssveit 10. apríl 1935. Þau gengu í hjónaband 1. júní 1958.

Börn þeirra eru: 1) Jens Elís, fæddur 21. febrúar 1959, eiginkona hans er Magnea Garðarsdóttir og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn. 2) Anton Gunnlaugur, fæddur 30. október 1960, eiginkona hans er Kristjana Sólrún Vilhelmsdóttir og eiga þau þrjár dætur og sex barnabörn. 3) Kolbrún, fædd 13. febrúar 1962, eiginmaður Jóhann Kristinn Lárusson, eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. 4) Berglind, fædd 11. október 1969, eiginmaður Georg Einir Friðriksson, eiga þau tvö börn og þrjú barnabörn. 5) Kristín Sesselja, fædd 22. júní 1976, eiginmaður Snorri Pálmason, eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.

Kristinn fór ungur að vinna og var nánast allan sinn starfsferil í vinnu sem tengdist sjávarútvegi á einn eða annan hátt. Fór ungur á sjó en eftir að hann flutti til Njarðvíkur árið 1960 hóf
hann störf í Röstinni hjá Margeiri Jónssyni sem vörubílstjóri en síðar verkstjóri. Þegar starfsemin í Röstinni hætti fór hann til Birgis Axelssonar í rækjuvinnsluna. Hann varð verkstjóri hjá Hilmari og Oddi í Stafnesi en lauk starfsævi sinni sem verkstjóri í fraktinni hjá Icelandair.

Útför Kristins fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 3. nóvember 2023, kl. 13.

Það var bölvuð bræla, hefði pabbi sagt, nóttina sem hann kvaddi. Ef hann hefði verið á vinnumarkaði hefði hann rifið sig á fætur fyrir allar aldir og mætt í vinnuna löngu áður en vinnudagurinn ætti að hefjast.

Pabbi var búinn miklu fleiri kostum en samviskusemi, hann var húmoristi og með eindæmum geðgóður. Hann var alltaf til í að spila, spilaði félagsvist og kana meðan einhver nennti að taka í spil.

Hann vann nánast alla sína starfsævi í kringum fisk. Hann keyrði vörubíl hjá Margeiri Jónssyni í Röstinni í mörg ár og varð svo síðar verkstjóri á sama stað. Ég var pínulítil þegar ég gerði mér grein fyrir gæðastundum sem hægt væri að njóta með pabba í vörubílnum. Ég hékk með honum í röðinni í útskipun í Keflavík eða þegar það var löndun í Grindavík, sem var minn uppáhaldsstaður því við hliðina á hafnarvigtinni í Grindavík var nefnilega sjoppa. Það var auðvelt að fá pabba til að stoppa þar og kaupa rauðan Nóa eða Prins póló. Þegar ég var orðin fullorðin heyrði ég ennþá minnst á mig sem litlu stelpuna hans Kidda sem var alltaf með honum í vörubílnum í Grindavík.

Þegar starfsemi hætti í Röstinni vann hann á ýmsum stöðum sem verkstjóri í fiski. Miklar breytingar urðu á sjávarútvegi á þessum tíma, kvótakerfið var komið til að vera og í Keflavík, eins og svo mörgum sjávarplássum, var kvótinn seldur burt. Pabbi lauk starfsævi sinni hjá Icelandair. Í rabbi okkar um daginn og veginn spurði ég hann hver hefði verið helsta breytingin í kringum kvótakerfið fyrir sjávarútveginn á Suðurnesjum. Hann var fljótur til svars: fyrir kvótakerfi fór maður með sama fiskinn nokkrum sinnum á hafnarvigtina til þess að útgerðin eða skipstjórinn yrði aflakóngur ársins. Eftir kvótakerfi reyndu hins vegar allir að svindla sér fram hjá hafnarvigtinni.

Pabbi tók sjálfan sig ekki alltof alvarlega, hann notaði frasann „hvað er tomma í togara“ óspart þegar einhver gerði athugasemdir við mælingar hjá honum eða ef smá helgidagar voru á stofuveggnum að lokinni málningarvinnu.

Mikill sælkeri var hann, alltaf til í sætabrauð og nammi. Ég sagði oft að hann hefði fengið sér sykur með smá kaffi út í þegar ég sá kaffibollann hans. Hafði jafnvel áhyggjur af því að hann væri kominn með holur í gervitennurnar. Sennilega þarf að láta Dansukker vita að hann sé fallinn frá, þeir gætu eitthvað þurft að minnka framleiðsluna hjá sér eða gefa út afkomuviðvörun fyrir Kauphöllina.

Það má því segja að pabbi hafi verið ósköp sætur bæði að innan og utan. Hann var besti pabbi og tengdapabbi sem hægt var að hugsa sér, frábær afi og langafi. Hann var okkur börnunum mikil fyrirmynd í lífinu en mér finnst það vera sá dýrmætasti arfur sem þú getur gefið afkomendum þínum.

Lífið er ekki alltaf bara grand, það er stundum líka nóló. Við
getum því ekkert gert í dag þegar við kveðjum pabba nema vera þakklát fyrir að hafa notið návistar þessa dásamlega manns sem hefur lagt öll sín spil á borðið og tekið sinn síðasta slag í þessari vist.

Þín elskandi dóttir og tengdasonur,

Berglind og Georg.