Þórir S. Gröndal
Þórir S. Gröndal
Kampakátur Valgarð tók upp annan kolsvartan lambshausinn og hristi hann framan í manngreyið um leið og hann jarmaði hátt.

Þórir S. Gröndal

Hangikjötið hefir ávallt skipað sérstakan sess í lífi mínu. Ekki er það bara uppáhaldskjötmetið, heldur tengist það líka hátíðunum, jólum, páskum og hvítasunnu. Langalgengast er að sjóða kjötið, en það er mismunandi frá fjölskyldu til fjölskyldu hvernig það er borið fram og hvaða meðlæti fylgir. Eftirfarandi dæmi úr gamalli grein útskýrir þetta að nokkru leyti.

Það voru fyrstu jólin í hjónabandinu og unga konan bar fram hangikjötið á jóladag. Brúnin seig á húsbóndanum þegar hann sá að konan hafði sett kartöflur út í jafninginn. „Mamma setti alltaf grænu baunirnar í jafninginn og við borðuðum ekki einu sinni kartöflur með,“ tjáði hann taugaóstyrkri konu sinni. „Svona gerðum við það alltaf heima hjá mér, með kartöflurnar út í og baunirnar sér í skál,“ svaraði hún.

Var nú byrjað að borða og setti eiginmaðurinn strax upp sérkennilegan svip. „Mömmu jafningur var dálítið sætari en hvaða skrítnu brúnu korn eru þetta? Hann hefur þó ekki brunnið við!“ Það var þungi í rödd hans. „Þetta er múskat,“ sagði konan, „það verður að setja svolítið af því í jafninginn til að gefa honum meira bragð. Mamma og líka amma gerðu það alltaf.“ Sáu nú hjónakornin að hér var alvarlegt mál á ferð sem leysa yrði sem fyrst. Eftir flóknar samningaviðræður sættust þau á eftirfarandi málamiðlun í hangikjötsmálum framtíðarinnar: Grænu baunirnar fengu að fara í jafninginn og kartöflurnar voru bornar fram sér. Múskatið fékk að vera á sínum stað en bara minna af því. Aftur á móti var settur í örlítið meiri sykur. Eiginmaðurinn skuldbatt sig til að taka að sér að hræra jafninginn til að koma í veg fyrir kekki og viðbrennslu. Samkomulagið dugði út öll 58 jólin þar til hjónabandinu lauk.

Landar okkar í henni Ameríku hafa í gegnum tíðina orðið að nota ýmis ráð til að verða sér úti um hangikjöt og annan íslenskan hátíðamat. Eina kynlega sögu um slíkt man ég, en hún gerðist um 1960. Heiðursmaðurinn Valgarð J. Ólafsson rak þá skrifstofu SÍS í New York. Jökulfellið hafði komið með farm af freðfiski skömmu fyrir jólin. Valgarð fór um borð til að heilsa upp á mannskapinn og var honum vel veitt í mat og drykk. Var hann leystur út með gjöfum; hangikjötslæri og tveimur heilum sviðahausum í léreftspoka, sem Valgarð sveiflaði á bakið og kvaddi síðan áhöfnina. Skundaði hann upp bryggjuna og varð að stoppa í tollskýlinu. Þar var á vakt einn af okkar svörtu bræðrum og vildi hann vita hvað væri í pokanum. Kampakátur Valgarð tók upp annan kolsvartan lambshausinn og hristi hann framan í manngreyið um leið og hann jarmaði hátt. Vesalings maðurinn hrökklaðist aftur á bak í hryllingi og bandaði Valgarð frá sér, sem lét ekki segja sér það tvisvar og skokkaði upp bryggjuna.

Á langri veru okkar í Vesturheimi höfum við hjónin oft haft áhyggjur af því hvernig við gætum krækt okkur í hangikjötslæri fyrir jólin. Jól án hangikjöts voru næstum óhugsandi. Jafnvel barnabörnin, uppalin í Ameríku, njóta þessa hátíðarréttar, sem þau kalla „hangmeat“. Reglur um innflutning á kjötinu hafa verið ruglingslegar en um nokkurra ára skeið var hægt að koma með hangikjöt ef með fylgdi vottorð frá dýralækni á Íslandi. Í tíðum ferðum til ættlandsins gátum við komið með læri í ferðatöskunni. En það var ekki farið til Íslands á hverju ári svo þá varð að beita öðrum ráðum. Ein jólin keypti ég læri af samlanda og borgaði honum með flösku af vodka.

Nokkur undanfarin ár hefur þetta verið auðveldara og er tækninni að þakka. Netverslunin Nammi.is hefir selt okkur hangikjöt og annað íslenskt góðgæti, sem sent hefir verið með flugi og hefir það borist á þremur til fjórum dögum. En svo gerðist það í fyrra að bandarísk yfirvöld bönnuðu innflutning á öllu íslensku kjötmeti. Nammi tilkynnti viðskiptavinum sínum að utanríkisráðuneytið ætlaði að funda með bandarískum yfirvöldum og reyna að leysa málið en ekkert hefur heyrst meira.

Fyrir mörlanda í útlöndum er þetta mjög alvarlegt mál, og okkur finnst íslensk yfirvöld ekki hafa sýnt því nægilegan skilning. Það er áríðandi fyrir Ísland að halda góðum tengslum við þær þúsundir landsmanna sem búa í Ameríku. Ef þeir fá ekki hangikjöt og annan íslenskan hátíðamat dofna tengslin við gamla landið. Ég hafði vonast til að okkar glæsilega utanríkisráðsfrú gæti sjarmerað bandarískan starfsbróður sinn, Anthony Blinken, upp úr skónum næst þegar þau hittust. Hún gæti hvíslað í eyra hans og látið hann kippa þessu máli í liðinn. En nú er Bjarni Ben búinn að eyðileggja það allt saman, og örugglega getur hann ekki sjarmerað neinn upp úr skónum.

Það verður því að nota önnur og harkalegri ráð. Það þarf að skipuleggja mótmælafundi við bandaríska sendiráðið í Reykjavík og kalla sendiherrann á teppið. Ef það dugar ekki verður að beita hótunum. Fyrst stoppa umsvif Ameríkana á Keflavíkurflugvellinum og svo jafnvel hóta því að við drögum okkur út úr NATO, sem myndi veikja bandalagið feikimikið. Við hættum ekki fyrr en við getum pantað okkar hangikjöt í Nammi.is.

Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku.

Höf.: Þórir S. Gröndal