Þegar vægi öryggis- og varnarmála eykst í norrænu samstarfi verður að tryggja að við einangrumst ekki vegna þekkingar- og reynsluskorts.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Fyrir þing Norðurlandaráðs í Osló í vikunni skrifaði fyrrverandi forseti þess og fyrrverandi danskur ráðherra fyrir Venstre-flokkinn, Bertel Haarder, grein þar sem hann sagði að vegna umróts í öryggismálum og með aðild Finna og væntanlega Svía að NATO hefði ráðið stofnað starfshóp til að ræða hvaða áhrif þetta allt hefði á norrænu „stjórnarskrána“, Helsingforssáttmálann frá júlí 1962.

Haarder bendir á að sáttmálinn beri með sér að hann hafi verið gerður í kalda stríðinu og þess vegna sé þar að finna hömlur á samstarfi Finna og Svía við aðrar norrænar þjóðir, aðila að NATO.

Af grein Haarders má ráða að ekki sé hlaupið að því að breyta sáttmálanum. Það hafi verið gert sjö sinnum á undanförnum 60 árum. Ekki hafi verið hreyft við neinu ákvæði hans undanfarin 27 ár.

Greinina segist Haarder skrifa að ósk starfshópsins. Hann vill að innan Norðurlandaráðs og á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar verði komið á fót utanríkis- og varnarmálanefndum að fyrirmynd frá ESB-þinginu og ESB-ráðherraráðinu.

Hann segir að sameiginleg norræn sýn í þessum málaflokkum styrki norðurvæng NATO sem sé æskilegt frá sjónarhóli norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna.

Sameiginlega ráði norrænu ríkin yfir 500 orrustuþotum (álíka mörgum og breski flugherinn) og tæplega 4.000 skriðdrekum. Saman séu þau ekki lítil. Auk þess sé stærsti kaupskipafloti heims á hendi norrænna skipafélaga.

Við brottför Breta úr ESB hafi skapast tómarúm sem verði að fylla. Þjóðverjum yrði mjög kært ef norræna röddin yrði sterkari á vettvangi ESB sem einnig skipti miklu fyrir hagsmuni Noregs og Íslands, norrænu ríkjanna utan ESB. „Hvers vegna eigum við að sitja með hendur í skauti og bíða eftir frumkvæði frá Berlín og París?“ spyr Bertel Haarder.

Hann segir að skref sem þetta krefjist þess að horfið sé frá smáríkjahugsunarhætti og að ráðherrar stilli betur saman strengi sína.

Tillöguna um að stofna formlega til utanríkis- og varnarmálasamstarfs innan ramma Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar ber að skoða í ljósi þess að utan ráðsins og ráðherranefndarinnar hefur varnarmálasamstarf landanna þróast síðan árið 2009 undir merkjum NORDEFCO. Utanríkisráðherrar landanna hittast reglulega við hliðina á norrænu ráðherranefndinni.

Við setningu þingsins í Osló sagði norski þingmaðurinn Jorodd Asphjell, fráfarandi forseti Norðurlandaráðs, að undir hans forystu hefði forsætisnefndin sett á laggirnar starfshópinn til að skoða Helsingforssáttmálann sem Bertel Haarder nefndi. Níu sætu í hópnum og ætti hann að ljúka við að skoða málið á næsta ári. Forsetinn fráfarandi nefndi breytingarnar sem tengdust því að öll norrænu ríkin yrðu aðilar að NATO. Bauð hann öllum ríkisstjórnunum að koma að ferlinu.

Norðurlandaráð starfar næsta ár undir forsæti Íslands. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Haraldsdóttir, var kjörinn forseti ráðsins á þinginu í Osló. Það kemur í hennar hlut að sjá til þess að þessi mikilvægi starfshópur ljúki störfum á næsta ári.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var á ný gestaræðumaður á Norðurlandaráðsþinginu. Á norsku vefsíðunni High North News, þar sem vel er fylgst með fréttum sem tengjast norðurslóðum, er sagt frá ræðu Stoltenbergs og þetta haft eftir honum:

„Við höfum alltaf sagt að á norðurslóðum ríki lágspenna. Því miður er málum ekki lengur þannig háttað. Ein af afleiðingum stríðsins í Úkraínu er að spenna hefur einnig aukist á norðurslóðum. Þar má sjá verulega aukna hervæðingu hjá Rússum.“

Norrænir stjórnmálamenn hafa jafnan talað um norðurslóðir sem lágspennusvæði. Það markar óneitanlega ákveðin þáttaskil að fyrrverandi norskur forsætisráðherra sem beitti sér mjög fyrir því í stjórnartíð sinni að stuðla að vinsamlegum samskiptum við Rússa í norðri skuli nú sem framkvæmdastjóri NATO sjá sig knúinn til að boða þá viðhorfsbreytingu sem felst í tilvitnuðu orðunum.

Í þeim felst hins vegar raunsætt mat á hernaðarlegum aðstæðum í hánorðri. Hollenski flotaforinginn Rob Bauer, formaður hermálanefndar NATO, sagði meðal annars í ræðu 14. október 2023 á Arctic Circle í Hörpu:

„Norðurslóðir (e. Arctic) eru enn hernaðarlegt höfuðvígi Rússa – heimkynni Norðurflotans, kjarnorkukafbáta, flugskeyta, flugstöðva, ratsjáa og herafla. Mest af herliði Rússa er á Kólaskaga sem liggur að Noregi og Finnlandi, nýjasta aðildarríki NATO. Umsvifin verða sífellt víðtækari með frekari byggingu og endurnýjun herstöðva. Svæðið er einnig notað til tilrauna með ný rússnesk vopn, þar á meðal ofurhljóðfrá fugskeyti og Poseidon kjarnorku tundurskeytadróna.“

Í árlegri könnun um viðhorf Íslendinga til ýmissa þátta utanríkismála sem utanríkisráðuneytið birti nú í september var spurt um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Íslendingar eru sem fyrr jákvæðastir fyrir norrænu samstarfi. Alls segjast 87,9 prósent landsmanna jákvæð gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í norrænu samstarfi.

Þegar vægi öryggis- og varnarmála eykst í norrænu samstarfi verður að tryggja að við einangrumst ekki vegna þekkingar- og reynsluskorts. Virk þátttaka í samstarfi á þessum sviðum krefst fræðslu til almennings, rannsókna, fræðilegrar ráðgjafar og upplýstra umræðna í stað upphrópana. Þessir grunnþættir eru vanræktir hér. Eftir því sem við stígum fleiri skref til samstarfs við nánustu vinaþjóðir um þessi mál verður brýnna að styrkja þessa þætti.