Lítið lát hefur verið á stórum og öflugum skjálftum á Reykjanesskaga síðustu sólarhringa. Að sögn Benedikts Gunnar Ófeigssonar, sérfræðings Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, er hrinan sem hefur verið í gangi núna með þeim öflugri frá því að jarðhræringar hófust að nýju á svæðinu

Lítið lát hefur verið á stórum og öflugum skjálftum á Reykjanesskaga síðustu sólarhringa. Að sögn Benedikts Gunnar Ófeigssonar, sérfræðings Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, er hrinan sem hefur verið í gangi núna með þeim öflugri frá því að jarðhræringar hófust að nýju á svæðinu.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni klukkan 20 í gærkvöldi kom fram að kvika héldi áfram að flæða í innskotið sem myndast hefur undir svæðinu norðvestur af Þorbirni á um 4 kílómetra dýpi.

Þó sæjust ekki neinar skýrar breytingar sem bentu til þess að kvika væri að brjóta sér leið til yfirborðs.

Allt kerfið brugðist við

Af orðum Egils Sigmundssonar, sviðsstjóra rafmagnssviðs hjá HS Veitum, á íbúafundinum í Grindavík í fyrradag mátti ráða að hann teldi almannavarnir ekki taka stöðuna alvarlega.

Því er Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ekki sammála spurður út í orð Egils.

„Þetta er ekki rétt. Í stuttu máli hefur almannavarnakerfið, sem er samsett úr fjölmörgum einingum, allt brugðist við frá því að óvissustigi var lýst yfir vegna jarðhræringa og þegar sú sviðsmynd fer að skýrast að það sé kvikusöfnun norðvestur af Þorbirni þá er sú sviðsmynd lögð á borðið og almannavarnakerfið býr sig undir þá sviðsmynd sérstaklega.“

Bláa lónið í góðum höndum

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, segist fara í einu og öllu eftir því sem almannavarnakerfið leggur til hverju sinni, spurð að því hvað þurfi að koma til svo Bláa lóninu verði lokað.

„Eins og við höfum verið að leggja hlutina upp þá horfum við til þess að sérfræðingarnir séu í raun og veru best til þess fallnir að meta stöðuna hverju sinni. Þess vegna erum við í þéttu og góðu samtali við þá á hverjum degi og gerum eins og þeir leggja til,“ segir hún og bætir við að auðvitað sé aldrei gaman að þurfa að vera í óvissu.

„Auðvitað fylgja þessu óþægindi en á móti kemur að við erum orðin að einhverju leyti vön jarðhræringum á síðustu árum, en að vita það að okkar sérfræðingar og hæfasta fólk, þ.e.a.s. almannavarnir og sérfræðingar Veðurstofunnar, séu að rýna í stöðuna á hverjum tíma gerir það að verkum að maður veit að við erum í góðum höndum. Það er það sem skiptir öllu máli.“