Landspítalinn Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru undir miklu álagi alla daga en eru í fararbroddi innan Evrópu í krabbameinslækningum.
Landspítalinn Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru undir miklu álagi alla daga en eru í fararbroddi innan Evrópu í krabbameinslækningum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskir hjúkrunarfræðingar í krabbameinslækningum eru í fararbroddi innan Evrópu, segir Virpi Sulosaari, doktor í heilbrigðisvísindum við háskólann í Turku í Finnlandi og forseti samtakanna EONS (samtaka evrópskra krabbameinshjúkrunarfræðinga)

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Íslenskir hjúkrunarfræðingar í krabbameinslækningum eru í fararbroddi innan Evrópu, segir Virpi Sulosaari, doktor í heilbrigðisvísindum við háskólann í Turku í Finnlandi og forseti samtakanna EONS (samtaka evrópskra krabbameinshjúkrunarfræðinga). EONS hefur í tvígang gert könnun meðal hjúkrunarfræðinga innan samtakanna, fyrst árið 2020 og svo árið 2022. Árið 2022 var Ísland í fararbroddi: „En það þýðir ekki að það sé ekki hægt að gera betur,“ segir Virpi.

Í könnuninni er reynt að gera grein fyrir menntun þátttakenda, ánægju í starfi, öryggi sjúklinga og á vinnustað meðal annars.

Gæði í krabbameinsmeðferð

Virpi hélt erindi í fyrradag á málþingi Fagdeildar krabbameinshjúkrunarfræðinga, þar sem hún ræddi mikilvægi gæða í krabbameinshjúkrun. Virpi segir einn mikilvægasta þáttinn í góðri krabbameinsmeðferð vera ánægju hjúkrunarfræðinga í starfi: „Ef einhver finnur sig í stöðu þar sem hann getur ekki sinnt starfi sínu eftir bestu getu sökum álags og anna þá minnka gæði meðferðarinnar.“

Tilfellum fjölgar

Krabbameinstilfellum fer fjölgandi og Virpi segir ýmsar ástæður fyrir því. „Hækkun meðalaldurs er ein helsta ástæðan fyrir þessari aukningu, en að sjálfsögðu eru aðrar ástæður fyrir þessari aukningu,“ Virpi nefnir í því samhengi að niðurstöður krabbameinsmeðferðar verði betri með tímanum og þá sérstaklega á Íslandi og í Finnlandi og að lífslíkur þeirra sem ganga í gegnum meðferðina hafi aukist til muna. Það leiði þó af sér að þeir sem hafa greinst með krabbamein greinist stundum aftur síðar á lífsleiðinni með annað krabbamein og jafnvel fleiri. Hún segir einnig að þróun í greiningartækni hafi áhrif á tölfræðina, þar sem fleiri tilfelli eru greind.

Fjölgun krabbameinstilfella eykur álag á starfsfólk og innviði heilbrigðiskerfisins. Virpi segir að á sama tíma og þessi fjölgun eigi sér stað sé nýliðun innan geirans ekki í takt við hana og að illa takist að halda fólki í starfi. Það eigi ekki einungis við um krabbameinshjúkrunarfræðinga, heldur einnig fagfólk sem sérhæfir sig í krabbameinslækningum.

„Það þarf að vinna að því að gera starfsgreinina meira aðlaðandi fyrir ungt fólk,“ segir hún og heldur áfram: „Við þurfum einnig að bæta líðan starfsmanna á vinnustaðnum og koma í veg fyrir kulnun í starfi.“

Höf.: Geir Áslaugarson