Óþægileg Midsommar er óþægileg kvikmynd.
Óþægileg Midsommar er óþægileg kvikmynd. — Ljósmynd/A24 Films
Ég ætlaði vart að trúa eigin augum þegar ég stillti á RÚV á dögunum og bandaríska kvikmyndin Midsommar var að fara af stað. Er hún þekkt fyrir að vera frekar ógeðfelld og því stranglega bönnuð innan 18 ára

Jóhann Ingi Hafþórsson

Ég ætlaði vart að trúa eigin augum þegar ég stillti á RÚV á dögunum og bandaríska kvikmyndin Midsommar var að fara af stað. Er hún þekkt fyrir að vera frekar ógeðfelld og því stranglega bönnuð innan 18 ára. Ég átti ekki endilega von á að slík mynd væri á dagskrá hjá Ríkissjónvarpinu, en ég fagna því í sjálfu sér.

Var ég búinn að heyra skiptar skoðanir um ágæti myndarinnar, en eins og nafnið gefur til kynna gerist hún í Svíþjóð.

Svo virðist sem fólk annaðhvort elski Midsommar eða hreinlega hati hana. Lítið er um milliveginn góða. Einn samstarfsfélagi er gríðarlega hrifinn af myndinni og hann hefur verið gestur í kvikmyndahlaðvarpi. Eitthvað hlýtur hann að hafa til síns máls.

Sú staðreynd að myndin var sýnd á RÚV gerði mig einhverra hluta vegna enn forvitnari um að loksins horfa á hana, sem og ég gerði.

Ég gæti ekki verið meira ósammála annars ágætum samstarfsfélaga um ágæti Midsommar. Ekki eru margar kvikmyndir sem láta manni líða illa, en það gerði Midsommar svo sannarlega. Ég hefði betur varið kvöldinu í eitthvað annað, helst eitthvað sem hefði haft jákvæðari áhrif á sálarlífið.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson