Hans Petersen fæddist 5. nóvember 1873 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Adolph Petersen bókhaldari og kona hans María Ólafsdóttir er síðar giftist Birni Guðmundssyni timburkaupmanni í Reykjavík. Hans Petersen fluttist með móður sinni til…

Hans Petersen fæddist 5. nóvember 1873 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Adolph Petersen bókhaldari og kona hans María Ólafsdóttir er síðar giftist Birni Guðmundssyni timburkaupmanni í Reykjavík.

Hans Petersen fluttist með móður sinni til Reykjavíkur og ólst þar upp til 12 ára aldurs, en flutti þá til Keflavíkur og starfaði við H.P. Duusverslun í rúm 20 ár, fyrst í Keflavík en síðar sem verslunarstjóri fyrirtækisins í Reykjavík.

Árið 1907 stofnaði hann eigin verslun í Bankastræti, í upphafi einkum með matvörur, en einnig með ljósmyndavörur og frá árinu 1916 eingöngu með þær og það sem þeim tengdist. Hans fékk einkaumboð fyrir Kodak-vörur.

Árið 1915 kvæntist Hans Petersen Guðrúnu Jónsdóttur, fósturdóttur Guðmundar Hannessonar prófessors, og fluttu þau í nýtt hús í Skólastrætinu. Eignuðust þau hjón sex börn.

Hans Petersen var sagður fáskiptinn um opinber mál, en fylgdist þó vel með öllu sem gerðist, stjórnmálum sem öðrum efnum. Það orð fór af honum að hann hefði verið hygginn maður, lipur og orðheldinn og naut trausts í viðskiptalífinu og hjá viðskiptamönnum sínum. Í vinahópi var hann glaðvær, hnyttinn og spaugsamur og höfðingi heim að sækja.

Síðustu ár sín bjó hann við vanheilsu og leitaði sér lækninga í Danmörku, með aðstoð Kristins læknis Björnssonar bróður síns. Í þeirri ferð versnaði honum snögglega og lést hann eftir stutta sjúkrahúslegu ytra.

Ekkja hans Guðrún tók að sér að stjórna rekstrinum og gerði það af röggsemi og síðar tók Hans Petersen sonur þeirra við og loks leiddi dóttir hans, Hildur Petersen, fyrirtækið og kom fjölskyldan þannig að rekstri þess í nærri eina öld.

Hans Petersen lést 8. maí 1938.