Heilsuhælið Pálmi rekur sögu langafa síns Jónasar „á greinargóðan og fræðandi hátt í bók sinni“.
Heilsuhælið Pálmi rekur sögu langafa síns Jónasar „á greinargóðan og fræðandi hátt í bók sinni“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ævisaga Að deyja frá betri heimi ★★★★· Eftir Pálma Jónasson. Fagurskinna, 2023. Innb. 444 bls.

Bækur

Björn

Bjarnason

Um miðjan september 2021 var heimildarmyndin Láttu þá sjá um lífshlaup Jónasar Kristjánssonar, læknis og stofnanda Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) og Heilsuhælisins í Hveragerði, sýnd í ríkissjónvarpinu.

Nokkrum dögum síðar birtist frétt um að Gunnlaugur K. Jónsson forseti NLFÍ og Pálmi Jónasson, sagnfræðingur og fréttamaður, hefðu ritað undir samning um að Pálmi ritaði ævisögu Jónasar Kristjánssonar læknis. Sagði í fréttinni að Pálma rynni blóðið til skyldunnar vegna þess að honum væri verkefnið hugleikið og Jónas Kristjánsson væri langafi hans. Gríðarlega miklar heimildir hefðu safnast við gerð heimildarmyndarinnar og fengi Pálmi aðgang að þeim.

Um tveimur árum síðar birtist afrakstur þessa samnings og vinnu Pálma í bókinni Að deyja frá betri heimi – ævisögu Jónasar Kristjánssonar.

Þetta er ekki fyrsta ævisaga Jónasar læknis sem gefin er út með stuðningi NLFÍ. Árið 1987 sendi félagið frá sér bók um ævi Jónasar sem Benedikt Gíslason frá Hofteigi skrifaði en Anna Ólafsdóttir Björnsson bjó til prentunar.

Ævi Jónasar Kristjánssonar spannar 89 ár. Hún er góður efniviður fyrir fleiri en einn höfund. Jónas lagði hönd á margt í fortíð og nútíð sem vert er að varðveita og kynna öðrum.

Jónas Kristjánsson fæddist á Snæringsstöðum í Svínadal í A-Húnavatnssýslu 20. september 1870. Hann var sonur Kristjáns Kristjánssonar bónda og Steinunnar Guðmundsdóttur húsfreyju. Þegar Jónas var 11 ára dó móðir hans eftir að hafa smitast af vinnumanni sem fékk bólguveiki eða blóðeitrun við að borða skemmt kjöt. Læknir kom henni of seint til hjálpar en orð hans festust í barnsminni Jónasar þegar hann sagði að það hefði mátt bægja hættunni frá móðurinni með því að einangra hana á heimilinu. Frá ungra aldri var sagt að Jónas hefði læknishendur og reyndust það orð að sönnu. Líf sitt helgaði hann sjúkdómavörnum og lækningum.

Kristján, faðir Jónasar, lést frá átta börnum nokkrum árum síðar. Síðasta bón hans til sveitunga sinna var að þeir hjálpuðu börnum hans að halda saman og búa áfram á Snæringsstöðum. Sveitungarnir leystu hins vegar upp heimilið og barnahópurinn dreifðist, meðal annars vestur um haf til Kanada.

Jónas fór ekki til Vesturheims heldur til frænda síns á Grenjaðarstað í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar hlaut hann næga menntun til að komast í Lærða skólann í Reykjavík og þaðan varð hann stúdent 1896. Embættisprófi frá Læknaskólanum lauk hann 1901 og fór síðan í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Jónas var héraðslæknir í Fljótsdalshéraði 1901-1911 og héraðslæknir á Sauðárkróki frá 1911 og til ársloka 1938. Jónas var alþingismaður fyrir Íhalds- og Sjálfstæðisflokk 1926-1930.

Alkominn til Reykjavíkur frá Sauðárkróki tók Jónas um 70 ára aldur til við að leggja grunn að nýjum kafla í lífi sínu með því að helga krafta sína forvörnum og náttúrulækningum. Kórónu lífsstarfs hans njóta menn enn á Heilsustofnuninni í Hveragerði en fyrir 70 árum hóf hann byggingu fyrsta áfanga hennar.

Pálmi rekur þessa sögu alla á greinargóðan og fræðandi hátt í bók sinni. Frásögnin er breið. Lýst er fólki, mannlífi, híbýlum og búskaparháttum á ljóslifandi hátt. Frásagnir af svaðilförum Jónasar læknis sýna að hann sinnti starfi sínu og skjólstæðingum af hugrekki, snilld og umhyggju.

Jónas lagði sig ekki aðeins fram við skurðaðgerðir, oft við erfiðustu aðstæður, heldur sleppti hann ekki hendi af skjólstæðingum sínum fyrr en hann taldi þá hólpna. Hann brýndi fyrir þeim heilbrigða lifnaðarhætti, hreinlæti og hollustu í mataræði.

Á fyrstu áratugum aldarinnar áttu læknar ríkan þátt í að færa þjóðina inn í nýja tíma með fræðslu í því skyni að leiða mönnum fyrir sjónir gildi breytinga á lifnaðarháttum og húsakosti. Jónas varð ástsæll þar sem hann þjónaði vegna þess að allir fundu hve miklu hann áorkaði með erfiði sínu og ábendingum.

Hann var í raun farinn að heilsu þegar hann fluttist til Reykjavíkur. Hann gat varla setið hest lengur – lýsingar á honum og hestum hans eru magnaðar – og hann átti bágt með gang. Á þessu sigraðist hann með eigin lækningum og sjálfsaga.

Jónas átti víðtæk og náin samskipti við fremstu lækna á áhugasviði sínu austan hafs og vestan. Grunnurinn sem Jónas lagði að náttúrulækningum hér er traustur vegna þess að hann tileinkaði sér fróðleik frá þeim sem þá þóttu bestir erlendis og bauð sumum þeirra hingað heim. Hann boðaði fagnaðarerindi til heilsubótar.

Bókin er myndskreytt og prentuð á þungan pappír. Efnisyfirlit hefði mátt gefa betri hugmynd um skiptingu bókarinnar í höfuð- og undirkafla. Skrár eru yfir tilvísanir, heimildir, myndir og nöfn.

Pálmi Jónasson hefur gott vald á miklum heimildum um langafa sinn. Öllum höfuðatriðum í ævi hans og fjölskylduhögum er vel til skila haldið. Hansína Benediktsdóttir, eiginkona hans og frænka, var honum mikil stoð og heimilið var opið öllum. Undir lok bókarinnar verður frásögnin af Jónasi daufari og snýr meira að NLFÍ.

Hugur Jónasar Kristjánssonar beindist mjög að betra lífi. Áfengi, tóbak og sykur og jafnvel kaffi og te voru eitur í hans beinum. Hann hvatti til gönguferða, sunds og annarrar líkamsræktar svo að ekki sé minnst á þvotta og gott mataræði í hreinum híbýlum. Vegna þessa boðskapar skipaði hann sér sérstöðu og sætti gagnrýni. Nú vitum við betur, hann var á undan samtíð sinni.