Hleranir Flestar hleranir eru vegna brota á fíkniefnalögum.
Hleranir Flestar hleranir eru vegna brota á fíkniefnalögum. — Morgunblaðið/Eggert
Lögreglan hlerar fleiri síma en áður vegna stórfelldra brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Fjöldi mála var 18 árið 2013 en hafði verið 34 árið 2022. Sömu þróun má sjá hvað viðkemur almennri gagnasöfnun; árið 2013 voru einungis tvær, en 16 árið 2022

Lögreglan hlerar fleiri síma en áður vegna stórfelldra brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Fjöldi mála var 18 árið 2013 en hafði verið 34 árið 2022. Sömu þróun má sjá hvað viðkemur almennri gagnasöfnun; árið 2013 voru einungis tvær, en 16 árið 2022. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Gísla Rafns Ólafssonar þingmanns Pírata.

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurninni er þó ófullnægjandi að mati Gísla, sem hefur í tvígang reynt að leita svara um fjölda stjórnmálamanna sem voru hleraðir um miðja síðustu öld en svar dómsmálaráðherra nær einungis til ársins 2013.

Sendir aðra fyrirspurn

„Ég lagði svipaða fyrirspurn fram í vor þar sem ég var að fylgja eftir fréttum um hleranir hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum í kringum 1950 og ég fékk ekki svar við þeirri fyrirspurn,“ segir Gísli og heldur áfram:

„Þá spurði ég frekar hvaða hleranir hefðu verið framkvæmdar og út frá hvaða hegningarlagabrotum. Dómsmálaráðherra svaraði bara spurningunum að hluta til, þar sem gögnin ná einungis aftur til 2013. Ég þarf þá að senda inn eina aðra fyrirspurn til viðbótar.“

Spurning Gísla er tvíþætt, þar sem fyrri spurningin snýr að símhlerunum sem þurfa að fara fyrir dómara til þess að verða framkvæmdar, en hin spurningin snýr að almennri gagnasöfnun úr símum, tölvum eða annars konar samskiptabúnaði, en slík gögn gætu til dæmis komið frá fórnarlambi í sakamáli sem gefur lögreglu leyfi til að skoða gögnin. Fyrir vikið eru mun fleiri mál sem snúa að almennri gagnasöfnun. geir@mbl.is