Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Yfir bakkann ætla nú. Upp á hatti bretti. Á brauðinu, sem bakar þú. Brúnin fremst á kletti. Gátulausn Þórunnar Erlu á Skaganum hljómar svona: Oft yfir barðið bægslast þú

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Yfir bakkann ætla nú.

Upp á hatti bretti.

Á brauðinu, sem bakar þú.

Brúnin fremst á kletti.

Gátulausn Þórunnar Erlu á Skaganum hljómar svona:

Oft yfir barðið bægslast þú.

Barðið á hatti lagar.

Pottbrauðsbarð fæst sjaldan nú.

Barðið af kletti skagar.

Guðrún B. svarar:

Bakkann fór á barðinu

með barðahattinn fína.

Át skorpu, barð, í skarðinu

og skaust á klettsbarð Stína.

Magnús Halldórsson leysir gátuna:

Víst má kalla bakka börð

og barð á hatti þekki.

Barð er kölluð brúnin hörð,

um brauðið veit ég ekki.

Þá er komið að lausninni, segir Helgi R. Einarsson:

Við moldarbarð er bratti.

Barðið er á hatti.

Á brauði barð má sjá

og barð oft klettum á.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Yfir barð ég ætla nú.

Oft má barð á hatti sjá,

Barð á köku, er bakar þú.

Barð svo fremst er kletti á.

Þá er limra:

Í göngur hann Guðni fer

og gangnaforingi er.

Á göngu um börð

og giljaskörð

hann gengur oft fram af sér.

Síðan er ný gáta eftir
Guðmund:

Snemma ég á fætur fór,

fékk mér eina kollu af bjór,

við það andinn fór á flug

og fljótt mér gáta kom í hug:

Stúlka þessi hefur hátt.

Heiti þetta fiskur ber.

Fugl, er sést við sjóinn þrátt.

Síðan lítil klukka er.

Þessi limra flaut með lausn Helga „upp á grín“:

Þrátt fyrir allt

Karlinn henni er kær,

hún kyssti hann í gær,

samt er undarlegur,

latur, tregur

og lyginn. Henni var nær.