Forseti Finnbjörn sagði að árangur í glímunni við verðbólguna væri forsenda þess að unnt væri að auka kaupmáttinn.
Forseti Finnbjörn sagði að árangur í glímunni við verðbólguna væri forsenda þess að unnt væri að auka kaupmáttinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil samstaða og samhugur um að þétta raðirnar í komandi kjaraviðræðum einkenndi fund formanna aðildarfélaga ASÍ sem fram fór í gær, að sögn verkalýðsforingja sem sátu fundinn. Er það verulegur viðsnúningur eftir þær væringar sem verið hafa innan verkalýðshreyfingarinnar á seinustu árum

Ólafur Pálsson

Ómar Friðriksson

Mikil samstaða og samhugur um að þétta raðirnar í komandi kjaraviðræðum einkenndi fund formanna aðildarfélaga ASÍ sem fram fór í gær, að sögn verkalýðsforingja sem sátu fundinn. Er það verulegur viðsnúningur eftir þær væringar sem verið hafa innan verkalýðshreyfingarinnar á seinustu árum.

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ greindi frá því í setningarræðu að náðst hefði samstaða meðal formanna landssambanda og stærstu aðildarfélaga sl. þriðjudag um að ASÍ-félögin stæðu saman að viðræðum við viðsemjendur innan Samtaka atvinnulífsins og við fulltrúa ríkisvaldsins um sameiginleg mál. Var sú ákvörðun rædd á fundi miðstjórnar sl. miðvikudag og ákveðið að formenn landssambanda og stærstu félaga mynduðu viðræðunefnd ásamt forseta og varaforsetum ASÍ.

Finnbjörn kvaðst aðspurður í gær vera bjartsýnn á að formennirnir myndu sameinast um að þétta raðirnar með þessum hætti en sagði þó að ekki væri hægt að bindast neinu í dag því að samningsumboðið lægi hjá samninganefndunum. „En eftir þennan fund verðum við komin með stóru línurnar hvað varðar kröfur á ríkisvald og sameiginlegar kröfur á atvinnurekendur. Við förum svo bara að vinna úr því strax í næstu viku,“ sagði hann.

Finnbjörn sagðist í setningarræðunni hafa tekið að sér embætti forseta í fullvissu um að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar ætluðu að snúa bökum saman og að persónulegar erjur væru að baki. Að öðrum kosti næði hún engu fram í þeim stóru verkefnum sem blasa við. „Við stöndum frammi fyrir risavöxnu verkefni. Ég legg áherslu á að verkalýðshreyfingin mun ein og sér ekki leiða baráttuna gegn verðbólgunni. Forsenda árangurs í því verkefni er samstarf hreyfingarinnar, atvinnurekenda, banka, verslunar, sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Og fleiri verða kallaðir til,“ sagði hann í ræðunni.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar er sammála öðrum verkalýðsleiðtogum innan vébanda ASÍ um að það sé mikilvægt að verkalýðsforystan standi saman. Hún segir viljann innan verkalýðsforystunnar vera raunverulegan og kvaðst í samtali við mbl.is finna fyrir miklum samhljómi og vilja meðal fólks. Hún sagði formannafund ASÍ hafa verið góðan og að margt áhugavert hefði komið fram. Sagði hún mikinn vilja vera til að lyfta lægst launaða fólkinu og að ná tökum á því skelfilega efnahagsástandi sem ríkti og væri að leggja líf fólks í rúst.

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins sagði mikla samstöðu á meðal aðildarfélaga ASÍ um að fara sameiginlega í það gríðarlega erfiða verkefni sem fram undan væri.

Sagði hann það samróma álit þeirra sem hefðu tekið til máls að verkefnið væri það stórt að það krefðist þess að hreyfingin stæði þétt saman. Þá sagði hann það liggja fyrir og að það hefði komið fram á þessum fundi að aðkoma stjórnvalda, sveitarfélaga, fjármálakerfisins og fleiri væri mjög mikilvæg vegna þess að launafólk ætlaði sér ekki undir nokkrum kringumstæðum að standa eitt og sér í því að axla þá ábyrgð sem hlytist af háum vöxtum, verðbólgu og öðru slíku. „En verkalýðshreyfingin er tilbúin í þetta samtal sé vilji til þess af hálfu stjórnvalda og sveitarfélaga að koma að slíku samtali.“

„Það var gegnumgangandi mikill samhugur og maður fann kraftinn í hópnum í þessa átt,“ sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins. Fundarmenn lögðu í máli sínu m.a. ríka áherslu á mikilvægi aðgerða stjórnvalda. „Aðgerðir stjórnvalda skipta gríðarlega miklu máli við þessar aðstæður og það þarf að koma aðgerðum af stað. Það skiptir gríðarlegu máli inn í næstu mánuði og ár að stjórnvöld verði gerendur í því sem fram undan er með okkur,“ segir Kristján.

Samkomulagið um að félögin standi saman snýr að viðræðum um sameiginleg mál verkalýðshreyfingarinnar gagnvart ríkisvaldinu og atvinnurekendum. Það nær ekki til sjálfrar samningsgerðarinnar þegar kemur að endurnýjun kjarasamninganna þar sem samningsumboðið er hjá stéttarfélögunum. Spurður um þetta segir Kristján það rétt að umboðið sé ennþá þar, „en þegar við hins vegar förum í að vinna þetta áfram, þá veit maður aldrei hvort við komumst ekki bara lengra gagnvart öllu“, svaraði hann.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR tók í samtali við mbl.is undir að sú samstaða verkalýðshreyfingarinnar sem endurspeglast hefði á formannafundi ASÍ gæti talist til tíðinda í íslenskri kjarabaráttu. „Já, þetta getur alveg talist til tíðinda en staðan er grafalvarleg og allir formenn aðildarfélaga Alþýðusambandsins taka stöðuna mjög alvarlega og tækifærin sem felast í því að fara sameiginlega fram, fyrst og fremst með hagsmuni okkar félagsmanna og almennings að leiðarljósi,“ sagði hann. Sagði Ragnar mikinn samhljóm og samstöðu ríkja um verkefnið fram undan og mikilvægi þess. „Þar erum við að horfa á efnahagsmálin og nauðsyn þess að hér þurfi að verða kerfisbreytingar í okkar samfélagi. Ég hef sjaldan setið formannafund þar sem ég skynja svona mikinn kraft og samheldni ólíkra hópa. Ég er virkilega bjartsýnn eftir fundinn á framhaldið, sérstaklega fyrir hönd launafólks.“

Höf.: Ólafur Pálsson