Garðar Sævar Einarsson fæddist á Ísafirði 24. febrúar 1938. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði 29. október 2023.

Foreldrar hans voru hjónin og Einar Ingiberg Guðmundsson sjómaður frá Selakirkjubóli í Önundarfirði, f. 22. ágúst 1907, d. 24. júní 1991, og Björg Aðalheiður Jónsdóttir frá Hlíðarenda á Ísafirði, f. 24. maí 1915, d. 21. des. 1998. Systkini Garðars eru Þorgerður Sigrún, f. 6. janúar 1940, d. 1. mars 2006, Ingibjörg Steinunn, f. 22. maí 1942, Guðmundur Sigurbjörn, f. 3. apríl 1945, og Tryggvi Sæberg, f. 5. apríl 1949.

Garðar ólst upp í stóru fjölskyldubúi á Hlíðarenda á Ísafirði og þar átti hann heimili sitt alla tíð þar til hann flutti á Hlíf eftir að heilsan var farin að gefa sig.

Að loknu gagnfræðaskólanámi vann Garðar ýmis verkamannastörf á Ísafirði í rúmt ár, m.a. í byggingarvinnu við Mjólkárvirkjun. Hann stundaði síðan verslunarstörf á Ísafirði, s.s. í Bókaverslun Matthíasar Bjarnasonar og síðar í Bókhlöðunni en svo kölluðu Ísfirðingar Bókaverslun Jónasar Tómassonar.

Garðar hóf störf hjá útibúi Landsbanka Íslands á Ísafirði 1975. Þar var hann lengst af gjaldkeri og yfirgjaldkeri. Hann fór á eftirlaun árið 2003. Samhliða gjaldkerastarfinu var Garðar vistarvörður við MÍ á áttunda áratugnum.

Garðar var ætíð mjög félagslyndur og hafði ánægju af ferðalögum og útivist. Hann gekk í skátafélagið Einherja á Ísafirði árið 1950 og var síðast í rekkasveit þess sem nú heitir skátafélagið Einherjar-Valkyrjan. Með skátunum tók Garðar m.a. þátt í alþjóðlegum skátamótum sem á þeim árum var mikið ævintýri og eftirminnileg upplifun fyrir ungan mann.

Garðar starfaði með Lionsklúbbi Ísafjarðar frá 1961 og fékk árið 2011, á 50 ára starfsafmæli sínu fyrir Lions, sérstaka viðurkenningu frá alþjóðaforseta hreyfingarinnar. Hann var þá gerður að ævifélaga Lions fyrir störf í þágu klúbbsins og samfélagsins.

Frá 1982 var Garðar jafnframt bróðir í Ísafjarðardeild Gídeonfélagsins á Íslandi. Hann ferðaðist árlega um Vestfirði til að afhenda grunnskólabörnum Nýja testamentið.

Garðar tók virkan þátt í söngstarfi á Ísafirði og starfaði með kórunum þar, Karlakór Ísafjarðar, Sunnukórnum og Kirkjukór Ísafjarðarkirkju. Hann var bæjarfulltrúi á Ísafirði fyrir Sjálfstæðisflokkinn eitt kjörtímabil auk þess sem hann sat m.a. í áfengisvarnarnefnd til margra ára fyrir bæinn. Þá var Garðar virkur meðlimur í nokkrum félögum, m.a. Skógræktarfélagi Ísafjarðar og Ferðafélagi Íslands sem hann ferðaðist með um landið í fjölbreyttri útivist.

Útförin fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 4. nóvember 2023, klukkan 13.

Sú frétt barst mér að Garðar Einarsson væri þungt haldinn eftir slæmt fall á heimili sínu, Hlíf á Ísafirði, fyrir fáeinum dögum. Stuttu síðar var tilkynnt um lát hans. Kynni mín af Garðari hófust aðallega í skátahreyfingunni. Hann varð sveitarforingi í Skátafélaginu Einherjum á Ísafirði þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í því ágæta félagi. Garðar bjó að miklum gáska og glaðværð og sá eiginleiki gerði honum auðvelt að hrífa unga menn með sér. Hann var prýðis söngmaður og kunni helstu skátasöngva, einkum eftir Harald Ólafsson (Halla Ól.) sem skildi eftir sig mikinn fjársjóð í fjörugum söngtextum. Garðar nýtti sér það vel að vera meðlimur í alþjóðahreyfingu. Hann sótti meðal annars, ásamt tveimur ungum Ísfirðingum, skátamót sem haldið var í Grikklandi. Þá starfaði hann mikið að undirbúningi fjölmenns skátamóts Vestjarða sem haldið var árið 1960 í Dynjandisvogi í Arnarfirði. Tók þá þátt í fjallgöngu á hæsta fjall Vestfjarða, Kaldbak, sem er 1.000 metra hátt.

Þegar árin færðust yfir sótti hann fundi elstu skátanna sem nefndir voru Rekkar. Var það augljóst að hann naut sín vel í þeim hópi og var mættur þar á hvern fund. Sömuleiðis minnist ég að hann lét sig ekki vanta í gamla útileguskála skátanna, Valhöll í Tungudal, þegar hann hafði verið endurreistur árið 2006. Fundarritari minntist þess að stemmingin hefði verið stórkostleg þegar fimmtugir til áttræðir skátar minntust með mikilli ánægju gamalla og eftirminnilegra stunda og sungu gömlu góðu söngvana sem rifjuðu upp glaðværar minningar sem þessi fornfrægi skáli geymir.

Annar félagsskapur sem ég kynntist Garðari í var Lionsklúbbur Ísafjarðar. Þar átti hann ánægjulegar stundir, undi sér vel í fjáröflunum einkum við öflun og verkun sjávarfangs í þágu þeirra sem minna mega sín. Eins og í Skátafélaginu sótti hann alla fundi og tók virkan þátt í starfinu.

Margir kynntust Garðari sem verslunarmanni í þeirri velþekktu verslun Bókhlöðunni eða eins og hún hét Bókaverslun Jónasar Tómassonar. Hafði hann orð á sér þar fyrir lipurð og greiðvikni. Annar vinnustaður sem margir minnast hans frá er Landsbanki Íslands, Ísafirði, þar sem hann gegndi starfi gjaldkera um árabil. Hann afgreiddi mig oft er ég kom með þykkan greiðslubunka af erlendum reikningum og yfirleitt á síðustu mínútum fyrir lokun og bankinn því lokaður þegar kom að afgreiðslu hjá gjaldkeranum. Garðar átti létt með að fyrirgefa þessar „syndir mínar“ og naut ég þess að við vorum í skátabræðralagi og félagar í Lions. Er ég þess fullviss að starfsfélagar hans í Landsbankanum minnast hans með söknuði.

Ég minnist Garðars sem virkilega góðs og heilsteypts félaga og finnst vera skarð fyrir skildi þegar hann er horfinn af sviðinu. Ég votta öllum aðstandendum sem sakna og syrgja góðan dreng innilega samúð. Gamlir skátar á Ísafirði kveðja góðan félaga og sömuleiðis félagar í Lionsklúbbi Ísafjarðar. Megi góður Guð varðveita minningu Garðars í hjörtum þeirra.

Ólafur Bjarni Halldórsson.

Að minnast Garðars móðurbróður míns er að horfa aftur eins langt og ég man. Þar hefur hann verið alla tíð, hluti af gleði og sorg. Minningar frá Hlíðarenda þar sem amma réð ríkjum, hádegismatur uppi í eldhúsi, handþvottur í skrítna vaskinum og svo allir í sín sæti. Seinna var eldhúsið komið niður og Garðar var alltaf of seinn í kvöldmat, oftast af því að hann skrapp eitthvað, kannski til Þingeyrar og kom við á sjö bæjum á leiðinni, vitanlega stoppaði hann og kastaði kveðju á menn og ræddi málin. Nú eða það var fugl eða kind eða eitthvert annað dýr að skoða og smella mynd af. Bílprófið sem ég hélt alltaf að amma hefði gefið en líklega lagði hann eitthvað til. Svo treysti hann mér sautján ára fyrir græna Volvóinum til að fara með ömmu í föstudagsinnkaupin og auðvitað fórum við aukarúnt.

Við unnum saman nokkur sumur í Landsbankanum og ég fékk tækifæri til að kynnast störfum gjaldkera áður en tölvutæknin var innleidd. Þar var allt unnið samkvæmt ströngu skipulagi, röð og regla, sem hentaði frænda mínum vel. Þegar þetta var hvarf hann stundum yfir til Jónasar Magg og fékk eina litla kók í gleri og hún hvarf í tveimur sopum hið mesta, enda var hann bara að skjótast. Garðar var ekki mikið fyrir tölvur, honum samdi ekki vel við þessa tækni og fékk sig fluttan í önnur verkefni þegar færi gafst. Þegar farsímarnir komu var hann ekki heldur hrifinn en fékk sér einn að lokum og passaði sig á því að gefa ekki hverjum sem er númerið. Það varð að vera hægt að týnast áfram.

Garðar hafði áhuga á mönnum og málefnum, var ættrækinn og gaf sig á tal við fólk, kynnti sig og átti auðvelt með að ræða málin á léttu nótunum. Hann hafði alla tíð yndi af að ferðast um landið og skoða sig um, hann gekk á fjöll og ferðaðist með Ferðafélagi Íslands. Hann var þátttakandi á gleðistundum í lífi okkar fjölskyldunnar og lét sig ekki muna um að koma suður til að mæta í fermingar og útskriftir, nú eða afmæli. Hann hafði sérstakan áhuga á fuglalífi og það passaði fínt að taka rúnt út á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi á leiðinni í Granaskjólið.

Ég minnist Garðars frænda míns með gleði, þakka fyrir mig og mína og bið honum guðs blessunar.

Björg Aðalheiður Jónsdóttir.