Fjórum mánuðum áður en Lisa Marie Presley lést hafði hún í tölvupósti til Sofiu Coppola harðlega gagnrýnt handrit hennar að myndinni Priscilla sem frumsýnd var í september. Frá þessu greinir Variety. „Faðir minn virkar eins og stjórnsamt rándýr. Sem dóttir hans á ég erfitt að með að þekkja föður minn í þessum karakter. Ég sé heldur ekki sýn móður minnar á föður mínum. Það eina sem ég sé er sláandi, hefnigjörn og forsmáandi sýn þín og ég skil ekki hvað veldur,“ skrifaði Presley og tók fram að ef Coppola breytti ekki túlkun sinni á Elvis Presley myndi hún neyðast til að tjá sig um málið opinberlega og tala þar gegn myndinni. Í svarbréfi segist Coppola vonast til þess að Presley skynji hlutina með öðrum hætti þegar hún hafi séð myndina. „Og að þú skiljir þá að ég vanda mig við að heiðra móður þína á sama tíma og dreg upp nærgætna mynd af margbrotnum föður þínum.“ Presley entist hins vegar ekki aldur til að sjá útkomuna.