Seldar voru ríflega milljón gistinætur í september sem er metfjöldi og seldust þar af tæplega 521 þúsund gistinætur á hótelum. Seldum gistinóttum í september fjölgaði um 6% milli ára. Hins vegar fjölgaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu aðeins um 1% …

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Seldar voru ríflega milljón gistinætur í september sem er metfjöldi og seldust þar af tæplega 521 þúsund gistinætur á hótelum. Seldum gistinóttum í september fjölgaði um 6% milli ára. Hins vegar fjölgaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu aðeins um 1% í september, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar.

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hótela og formaður FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir þessar tölur vitna um vöxt heimagistingar en ekkert lát sé á vexti hennar.

Nýting hótelherbergja jókst í öllum landshlutum í september eins og sjá má á grafi hér fyrir ofan.

Heilbrigðari markaður

Spurður hvort hóteleigendur geti vel við unað, eða hvort nýtingin þurfi að vera betri til að fjárfestingin borgi sig, segir Kristófer að hótelin séu að rétta úr kútnum eftir farsóttina. „Það er komin eðlileg nýting sem leiðir til heilbrigðari verðmyndunar. Þá skapast vonandi grundvöllur fyrir heilbrigðri uppbyggingu hótela sem skapa störf og borga fulla skatta andstætt heimagistingu og skemmtiferðaskipum.“

Herbergjanýtingin á Suðurnesjum jókst um rúm 13% í september, úr 71,4% í 84,5%, sem er mesta hlutfallslega aukningin á landinu. Spurður hvort það þýði svigrúm fyrir fleiri hótel á Suðurnesjum segir Kristófer „að það myndi ábyggilega takast að fylla fleiri hótel“.

Kostar nú 30-40 milljónir

„Það er svo alltaf reikningsdæmi. Hvað kostar herbergið? Skúli [Gunnar Sigfússon] hyggst reisa 120 herbergja hótel við Jökulsárlón fyrir fjóra milljarða. Það gera 33 milljónir á herbergi sem ég hefði talið frekar hátt verð á nýju hótelherbergi úti á landi,“ segir Kristófer. Fyrir nokkrum árum var rætt um 25 milljónir í því efni, en síðan hefur byggingarkostnaður farið hækkandi.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er nýtingin komin í rúmlega 70%.

Spurður hvort minni þörf sé fyrir hótel í þessum landshlutum segir Kristófer bankana gera meiri kröfur um eigið fé úti á landi.

„Ég vona að okkur Íslendingum takist að byggja hótel með heilbrigðri starfsemi hringinn um landið og skapa þannig það rekstrarumhverfi með heilsársstörfum sem skilar hinu opinbera og íslensku hagkerfi miklum tekjum.“

Gætti fram í júní í fyrra

Spurður hvort rekja megi aukna eftirspurn til aukins ferðavilja eftir farsóttina, eða hvort sá tími sé að baki, segir Kristófer að áhrifa farsóttarinnar hafi gætt fram í júní í fyrra en að svo hafi þau áhrif farið dvínandi.

Spurður um bætta nýtingu hótelherbergja á Austurlandi bendir Kristófer á takmarkað framboð í landshlutanum. Suðurlandsumferðin teygi sig stöðugt austar og sé komin á Höfn í Hornafirði. Þar fyrir austan sé meiri sumarvertíð.

Besta herbergjanýtingin í september var á Suðurlandi eða rúmlega 89% en þar er næstmesta framboð hótela á landinu.

„Aukningin á Suðurlandi er kannski einn besti mælikvarðinn á að eftirspurn er að aukast. Þess vegna getur maður verið bjartsýnn á framtíð ferðaþjónustunnar. Við höfum séð hvernig Suðurlandið hefur hitnað út frá höfuðborgarsvæðinu. Nú er það verkefnið að hita Vesturland og Norðurland með sama hætti og ljúka því síðan á Austurlandi,“ segir Kristófer.

Höf.: Baldur Arnarson