[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lestur bóka hefur alla tíð átt fastan sess í mínu lífi. Fyrsta bókin sem ég man eftir að hafa lesið sjálf mér til ánægju var Millý Mollý Mandý

Lestur bóka hefur alla tíð átt fastan sess í mínu lífi. Fyrsta bókin sem ég man eftir að hafa lesið sjálf mér til ánægju var Millý Mollý Mandý. Við þann lestur opnaðist heimur bókmenntanna fyrir mér og ég man svo vel eftir því hvað mér fannst gaman að lesa þessar bækur. Frá þeim tíma hefur einfaldlega alltaf verið einhver bók á náttborðinu. Á unglingsárunum var það svo Ísfólkið sem átti hug minn allan eins og svo margra á þeim tíma. Í dag nýti ég mér heilmikið að geta hlustað á hljóðbækur, ég hreinlega verð að vera að hlusta á einhverja bók á meðan ég sinni heimilisverkunum eða vinn í garðinum.

Ég les langmest spennusögur, helst norrænar, og höfundarnir Jo Nesbø og Jussi Adler-Olsen hafa verið í sérstöku uppáhaldi en nýlega datt ég niður á sænskan höfund, Stefan Ahnhem, og bækurnar hans um Fabian Risk. Arnaldur og Yrsa hafa auðvitað alltaf átt sinn fasta sess og ég er að bíða eftir nýrri sögu um Huldar og Freyju.

Þó svo að ég lesi langmest af spennusögum þá hef ég samt gaman af alls konar bókum. Ég hef nýlega lokið við bækurnar Híbýli vindanna og Lífsins tré sem ég hafði virkilega gaman af. Að fá innsýn inn í líf Íslendinga á þessum tíma og baráttuna við lífið á nýjum stað, mikilvægi þess að rækta fólkið sitt og menningu. Alveg magnað.

Ævisögur eru annar bókaflokkur sem ég vel mér gjarnan og þá sérstaklega ævisögur stjórnmálamanna eða bækur um stjórnmál nútímans.