Sprunga Víða hrundu veggir húsa og í landi Bitru austur af Selfossi klofnaði jörðin. Sprungan var mest um tveir metrar á breidd og hyldjúp.
Sprunga Víða hrundu veggir húsa og í landi Bitru austur af Selfossi klofnaði jörðin. Sprungan var mest um tveir metrar á breidd og hyldjúp. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2000 „Svona lífsreynsla er ekkert lík því að verða vitni að eldgosi eða einhverju þvílíku. Þetta er ólýsanleg martröð“ Anders Hansen, hrossabóndi á Árbakka í Landsveit

Baksvið

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Aldamótaárið 2000 urðu miklar jarðhræringar á Suðurlandi þegar tveir jafnstórir skjálftar riðu yfir Suðurland; fyrst á sjálfan þjóðhátíðardaginn og síðan aðfaranótt 21. júní. Báðir voru þeir taldir um 6,5 að stærð og ollu miklu tjóni á vegum og mannvirkjum á Suðurlandi en fyrir guðs mildi varð ekki manntjón.

Styrkur Morgunblaðsins

Við byrjum á fyrri skjálftanum sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Karl Blöndal blaðamaður var að leysa af fréttastjóra þessa helgi. Hann var staddur í miðbænum að fagna þjóðhátíðardeginum sem bar upp á laugardag þetta árið.

„Ég var staddur niðri í bæ með fjölskyldunni, í Lækjargötunni, þegar ég fann allt í einu malbikið skjálfa. Stuttu síðar hringdi Pétur Gunnarsson blaðamaður í mig og sagði að þessi hefði verið svakalegur og við þyrftum að ræsa út fólk. Ég beið ekki boðanna og dreif mig niður á blað og við hófum aðgerðir. Það merkilega er að þegar svona mikið liggur við þá eru allir boðnir og búnir. Ég þurfti varla að hringja í nokkurn mann því blaðamenn hringdu í mig og spurðu hvað þeir ættu að gera. Það lýsir hvernig þessi fjölmiðill er þegar mikið liggur við. Þá sýnir Morgunblaðið styrk sinn,“ segir Karl og bendir á að vissulega hafi verið svekkjandi að ekki var von á blaði fyrr en á þriðjudegi því á þessum tíma var ekki útgáfa á mánudögum.

„Við vorum með öfluga fréttaþjónustu á netinu og sinntum þessu mjög vel. Við vorum með fólk úti um allt Suðurland og á þriðjudegi gáfum við út veglegan kálf þar sem öllu var lýst í máli og myndum,“ segir Karl.

„Þetta var mikil eldskírn fyrir mig því þótt ég væri reyndur blaðamaður hafði ég ekki stjórnað áður sem fréttastjóri,“ segir hann.

„Það hjálpaði verulega að vera með landslið ljósmyndara, en við notuðum myndirnar til að slá okkur upp og fyrir vikið var þetta flott blað,“ segir Karl en auk þess birtust fjöldi frásagna sem margar hverjar voru mjög dramatískar, enda mátti oft litlu muna að fólk slasaðist eða hreinlega léti lífið.

Þetta er ólýsanleg martröð

Í Morgunblaðinu 20. júní var greint frá því að sextán fjölskyldur hið minnsta væru heimilislausar eftir jarðhræringarnar á Suðurlandi 17. júní. Þótti mikil mildi að enginn skyldi týna lífi en þrír leituðu læknis vegna meiðsla. Bóndi í Landsveit var tekinn tali.

„Þetta er óþverraleg lífsreynsla. Það er ekkert skemmtilegt við þetta og þetta er ekki upplifun sem maður vildi hafa lent í eftir á, þó að við höfum öll sloppið ómeidd. Svona lífsreynsla er ekkert lík því að verða vitni að eldgosi eða einhverju þvílíku. Þetta er ólýsanleg martröð,“ sagði Anders Hansen, hrossabóndi á Árbakka í Landsveit, en íbúðarhús hans eyðilagðist í jarðskálftanum. Hann og fjölskylda hans voru inni í húsinu þegar ósköpin dundu yfir.

Anders lýsir jarðskjálftanum og afleiðingum hans svona:

„Við vorum heima, ég og Valgerður Brynjólfsdóttir kona mín, ásamt tveimur dætrum okkar, sem eru fimm og fjórtán ára, og sænskum tamningamanni. Við vorum að ljúka við að drekka síðdegiskaffi. Konan mín hafði staðið upp og gengið að eldhúsvaski og ég var að standa upp úr sæti mínu þegar það kemur feiknarlega mikið högg. Við sögðum eitthvað á þá leið að þetta væri nú meiri skjálftinn, en þá fyrst byrjuðu ósköpin. Húsið gekk til svo við áttum erfitt með að standa í fæturna. Ég datt á gólfið og var að reyna að styðja konuna mína því að hún var nýkomin úr uppskurði á hné. En maður gat enga björg sér veitt meðan á þessu gekk. Loftið fylltist af steypuryki. Hlutir hrundu úr hillum. Klæðningar úr veggjum hrundu inn á gólfið og skápar féllu fram á gólf. Síðan varð örlítið hlé, að því er okkur fannst, þannig að við náðum að hlaupa út. Við óttuðumst að sænski strákurinn væri ennþá inni, en hann hafði þá komist út um aðrar dyr. Um leið og við vorum komin út jukust lætin aftur og okkur fannst að okkur væri varla óhætt þar sem við stóðum 10 metra frá húsinu. Það var eins og jörðin kraumaði eða lemdist til undir manni.“

Adrenalínkikk að skúbba

Seinni stóri skjálftinn reið yfir laust fyrir klukkan eitt aðfaranótt 21. júní. Hann var sagður á bilinu 6,5 til 6,6 á mælum Veðurstofunnar.

„Blaðið er þá rétt farið í prentun á þriðjudagskvöldi, aðfaranótt miðvikudags. Ég mætti þá á vaktina þar sem Sigtryggur Sigtryggsson var fréttastjóri og við skrifuðum alveg nýja forsíðu. Við vorum þar með fullt af fréttum og vorum þá fyrst fjölmiðla,“ segir Karl.

Við gefum Sigtryggi orðið.

„Blaðið var búið og farið í prentun og enginn í húsinu nema ég og prentararnir. Ég var með hornskrifstofu og sat þar inni við tölvuna. Þá byrjar þessi svakalegi gauragangur og húsið nötrar. Það var súla í herberginu og ég sé að hún gengur í bylgjum. Ég man að þegar þetta var yfirstaðið stóð ég upp og sagði: „Yes, við verðum einir með þessa frétt!“

Sigtryggur lét stöðva prentvélarnar og hringdi í nokkra blaðamenn en aðrir mættu óumbeðnir.

„Við settum allt af stað og náðum ótrúlega mörgum viðtölum um nóttina, bæði við fólk á Suðurlandi sem hafði upplifað þetta og eins jarðvísindamenn. Karl náði í einhvern vísindamann í Colorado sem gat staðfest að skjálftinn kom fram á mælum þar. Tvö eða hálfþrjú var vinnunni lokið og við komin með nýja forsíðu,“ segir Sigtryggur og segir alla hafa unnið baki brotnu um nóttina, enda þurfti að koma blaðinu í prentun sem fyrst.

„Ég sofnaði undir morgun alveg „upptjúnaður“ eftir þessa ótrúlegu vakt. Þetta var rosalegt adrenalínkikk, að geta skúbbað.“

Það er að koma heimsendir

Á forsíðunni daginn eftir mátti sjá fyrirsögnina: Annar jafnstór Suðurlandsskjálfti í nótt. Eins og fyrr segir náðu blaðamenn í fólk á Suðurlandi sem fann að vonum mest fyrir skjálftanum. Ein þeirra sem ræddu við blaðamann nóttina þegar pressan var stöðvuð var Valgerður Gestsdóttir, íbúi á bænum Mjósyndi í Villingaholtshreppi.

„Það er allt í rúst hjá okkur, það er bara eins og eftir sprengjuárás,“ sagði Valgerður sem býr á Mjósyndi ásamt eiginmanni og þremur börnum sem stödd voru heima þegar hamfarirnar gengu yfir. Engin slys urðu á fólki í skjálftanum. Valgerður sagði það mikla mildi, en tvö börn þeirra hefðu verið sofandi úti í tjaldi en hljómflutningstæki, skápar og munir hrundu yfir rúm barnanna í skjálftanum.

„Þetta var miklu stærri skjálfti en á laugardaginn. Þá hreyfðist ekkert í hillum, en núna er bara allt í rúst. Það er hver einasti diskur úr eldhúsinnréttingunni brotinn, það hefur hrunið úr öllum skápum, sjónvarpið hrundi niður á gólf,“ sagði hún.

Miðvikudagurinn 21. júní var annasamur á Morgunblaðinu en fjöldi blaðamanna og ljósmyndara keyrði á Suðurlandið og heimsótti fólk sem upplifað hafði harða skjálfta og það í tvígang. Á fimmtudag birtist tólf síðna aukablað með fjölda viðtala og ljósmynda. Á þeim tíma var undirrituð ljósmyndari og var meðal þeirra starfsmanna sem lögðu leið sína austur fyrir fjall. Eftirminnilegast var að heimsækja fólk þar sem heimilin voru bókstaflega í rúst. Fólk var í óðaönn að sópa upp glerbrot og færa bókahillur og húsgögn aftur á sinn stað en ljóst var að mikið hreinsunarstarf var fyrir höndum og víða voru skemmdir miklar. Sprungur mátti víða sjá í veggjum og á einum bóndabænum var framhlið hesthúss alveg hrunin. Rætt var við nokkur stálpuð börn en einn af þeim var Ölvir Karlsson, ellefu ára drengur frá Þjórsártúni sem sagði þegar skjálftinn reið yfir: „Mamma, ég held að það sé að koma heimsendir.“

Fólk hafði skiljanlega orðið hrætt eftir fyrri skjálftann og óttaðist að annar kæmi, sem svo varð raunin. Sögðust sumir íbúar í Ölfusi hræddir við að sofa heima hjá sér. Börnin voru að vonum sérstaklega óttaslegin og kannski ögn feimin við fréttamenn sem mættir voru inn í löskuð húsin með myndavélar og upptökutæki á lofti. Lítil þriggja ára stúlka hnipraði sig saman á rykugu eldhúsgólfinu sorgmædd á svip. Ljósmyndarinn smellti af mynd sem síðar birtist á forsíðu aukablaðsins. Þar sannaðist að ein mynd getur sagt meira en þúsund orð.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir