Hangikjöt er veislumatur. Þetta er þó ekki kjöt úr Garðahrauni.
Hangikjöt er veislumatur. Þetta er þó ekki kjöt úr Garðahrauni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Kjöt hefir fundist urðað í Garðahrauni,“ sagði í frétt á forsíðu Morgunblaðsins í byrjun nóvember 1943. Þetta sætti augljóslega miklum tíðindum en aðrar fréttir á forsíðunni hverfðust um heimsstyrjöldina sem þá geisaði

„Kjöt hefir fundist urðað í Garðahrauni,“ sagði í frétt á forsíðu Morgunblaðsins í byrjun nóvember 1943. Þetta sætti augljóslega miklum tíðindum en aðrar fréttir á forsíðunni hverfðust um heimsstyrjöldina sem þá geisaði.

Fréttaritari Morgunblaðsins í Hafnarfirði hafði talað við menn sem fundu kjötið og einn þessara manna hafði hirt og soðið hangikjötslæri, sem þar fannst. „Segir hann að kjötið sje greinilega gamalt, en vel ætt og hafi verið vel hreinsað.“

Fréttaritarinn hafði ekki komist að því hvort um mikið kjötmagn væri að ræða en bæjarfógetinn í Hafnarfirði hafði látið setja lögregluvörð um kjötið og samþykti heilbrigðisnefnd bæjarins að fólki yrði bannað að hirða kjötið og nota það til matar. „Bæjarfógetinn skýrði Morgunblaðinu svo frá í gærkvöldi, að rannsókn yrði hafin í þessu kjötmáli í dag, samkv. fyrirmælum frá dómsmálaráðuneytinu.“

Víkverji krafðist í sama tölublaði lögreglurannsóknar. „Hver ber ábyrgð á því, að svona svívirðilega er farið með matinn?“