Skúli Sigurðsson
Skúli Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókaútgáfan Drápa stendur fyrir fjölbreyttri útgáfu fyrir jólin. Skúli Sigurðsson, sem hlaut Blóðdropann í fyrra fyrir Stóra bróður, sendir nú frá sér nýja bók sem heitir Maðurinn frá São Paulo

Bókaútgáfan Drápa stendur fyrir fjölbreyttri útgáfu fyrir jólin.

Skúli Sigurðsson, sem hlaut Blóðdropann í fyrra fyrir Stóra bróður, sendir nú frá sér nýja bók sem heitir Maðurinn frá São Paulo. Bókin gerist að mestu árið 1977 og aðalsöguhetjan nú er Héðinn Vernharðsson, rannsóknarlögreglumaðurinn sem lesendur kynntust í Stóra bróður.

Veislumatur Landnámsaldar nefnist forvitnileg bók úr smiðju Kristbjörns Helga Björnssonar sagnfræðings. Hann fékk til liðs við sig Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistara, sem setur fram spennandi, freistandi og trúverðugar uppskriftir að veislumat landnámsfólksins. Karl Petersson myndaði.

Sigurður Héðinn, einn af þekktustu veiðimönnum landsins, sendir frá sér bókina Komdu að veiða. Hér fer hann með veiðimenn og -konur um sumar af bestu ám landsins og segir frá helstu veiðistöðum í hverri á. Auk þess birtir hann nýjar veiðiflugur og veitir góð ráð við laxveiðarnar. Í sumar barst bókin Þá breyttist allt! þar sem Margrét Blöndal og Guðríður Haraldsdóttir ræða við ellefu nýja Íslendinga.

Drápa stendur einnig fyrir veglegri barnabókaútgáfu. Þriðja bókin um Ísadóru Nótt, sem er hálf vampíra og hálfur álfur, er væntanleg. Bókaflokkurinn Handbók fyrir ofurhetjur heldur áfram, bæði áttundi hluti í seríunni og sérstakar reiknings- og þrautabækur. Þá koma sem dæmi út myndasaga frá Spáni, Fótboltistarnir, Hin stórkostlega bók um risaeðlur, Stærstu stjörnur fótboltasögunnar og Húsið hans afa. Fjórar þýðingar reka lestina; Minningaskrínið eftir Kathryn Hughes, Bannvænn sannleikur eftir Angelu Marsons, Það sem þernan sér eftir Freidu McFadden og Skotið sem geigaði eftir Richard Osman.
ragnheidurb@mbl.is