Bílar Vöxturinn var minni á höfuðborgarsvæði en á hringveginum.
Bílar Vöxturinn var minni á höfuðborgarsvæði en á hringveginum. — Morgunblaðið/Óttar
Ný met voru sett í umferðinni bæði á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu í seinasta mánuði samkvæmt mælum Vegagerðarinnar. Umferðin á hringveginum jókst um rúm sex prósent í október frá sama mánuði í fyrra, sem var einnig metmánuður á þeim tíma

Ný met voru sett í umferðinni bæði á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu í seinasta mánuði samkvæmt mælum Vegagerðarinnar. Umferðin á hringveginum jókst um rúm sex prósent í október frá sama mánuði í fyrra, sem var einnig metmánuður á þeim tíma. Bent er á að þessi mikla aukning skýrist líklega að einhverju leyti af því hvað færð var almennt góð.

Frá áramótum hefur umferðin á hringveginum aukist um rúm átta prósent. „Umferðin jókst mjög svipað í öllum landsvæðum en mest um Vesturland eða um 8,6% en minnst í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 4,6%. Fyrir einstaka talningastaði mældist mesta aukningin yfir teljara á Mývatnsöræfum,“ segir í umfjöllun á vef Vegagerðarinnar. Bent er á að nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu stefni í að umferð geti aukist yfir árið um 7,5% miðað við síðasta ár. „En veðurfarið mun hafa mikil áhrif á hver endanleg niðurstaða verður.“

Á höfuðborgarsvæðinu jókst umferðin í október um 2,8% og þótt aukningin sé minni en á hringveginum í seinasta mánuði var engu að síður slegið umferðarmet á höfuðborgarsvæðinu. „Í nýliðnum október var mest ekið yfir mælisnið á Reykjanesbraut eða tæplega 70 þúsund ökutæki á sólarhring en minnst yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða rétt rúmlega 48 þúsund ökutæki á sólarhring.“
omfr@mbl.is