Egill Þórir Einarsson
Undirritaður átti þess kost að sjá eina af áhrifamestu kvikmyndum þögla tímans í kvikmyndaklúbbi MR á sínum tíma. Myndin „Intolerance“ frá árinu 1916 fjallar um atburði í fortíð sem eru lýsandi fyrir heiti myndarinnar sem útleggst umburðarleysi á íslensku. Atburði þar sem mennskan lýtur í lægra haldi fyrir grimmd og hatri á kynflokki eða „óæðri“ þegnum þjóðfélagsins og leiðir til ofbeldis og fjöldamorða. Sögurnar fjalla m.a. um fall Babýlonsborgar (539 f.Kr.) vegna deilna milli prinsins af Babýlon og Cyrusar Persakonungs, atburði sem leiddu til krossfestingar Jesú Krists (27 e.Kr.) og trúarbragðadeilur í Frakklandi sem leiddu til fjöldamorða á húgenottum (1527).
Við þetta mætti bæta seinni tíma atburðum eins og:
· Helför Hitlers til útrýmingar Gyðingum í seinni heimsstyrjöld sem olli dauða sex milljóna manna.
· Útrýmingarherferð Stalíns á íbúum Rússlands á fyrri hluta síðustu aldar sem ekki aðhylltust miskunnarlausa stefnu hans um þjóðnýtingu eða voru stimplaðir „óvinir ríkisins“. Talið er að um ein milljón manns hafi látist í þessum ofsóknum á árunum 1930-53.
· Fjöldamorðum bandarískra hermanna á almennum borgurum í Víetnam í byrjun 8. áratugar síðustu aldar undir því yfirskini að verja spillta valdhafa fyrir kommúnískum uppreisnarhreyfingum.
· Aðskilnaðarstefnu í S-Afríku (1948-1990) þar sem lítill minnihluti hvítrar yfirstéttar hélt meirihluta svartra íbúa réttindalausum og fátækum og framdi grimmdarverk gagnvart almennum borgurum.
· Útrýmingarherferð Ísraela á Palestínumönnum í kjölfar áralangra deilna milli þessara tveggja hópa. Þessi sviðsmynd er raunveruleg fyrir augum okkar í dag og þegar þetta er skrifað hafa Ísraelsmenn tekið af lífi 8.500 íbúa Gasa á móti 1.400 manns sem Hamas-samtökin tóku af lífi. Almennt hefur viðmiðið verið tíu Palestínumenn á móti einum Ísraela.
Þau dæmi sem upp eru talin hér á undan eru öll dæmi um fordóma gagnvart kynþáttum og minnihlutahópum sem eru skilgreind sem óæðri eða andstæð ríkjandi viðhorfum. Í ljósi þeirra atburða sem eiga sér stað í dag hlýtur að vakna sú spurning hvers vegna við höfum ekkert lært!
Rétt er að rekja sögu Ísraelsríkis lauslega. Árið 1917 í seinna stríði gáfu Bretar út Balfour-yfirlýsinguna sem hljóðar svo: „Ríkisstjórn hans hátignar lítur jákvætt til stofnunar þjóðarheimilis fyrir Gyðinga og mun styðja það af fremsta megni með því skilyrði að ekkert verði gert sem spillir borgaralegum eða trúarlegum réttindum annarra samfélaga í Palestínu.“ Gyðingar, sem höfðu verið ofsóttir víða um heim, t.d. í Evrópu og Rússlandi, flykktust til Palestínu þar sem þeim var tryggð búseta undir vernd Breta. Fyrir voru Arabar sem höfðu búið þar frá örófi alda og litu á landið sem sitt. Eftir áratuga baráttu „landtökumanna“ Gyðinga við að eignast land var svo formlegt Ísraelsríki stofnað með stuðningi Sameinuðu þjóðanna 1948. Fullyrða má að eftir hörmungar seinna stríðs hafi heimurinn stutt heilshugar þessa aðgerð til hjálpar ofsóttri þjóð.
Síðan þá hefur Ísraelsríki vaxið stöðugt fiskur um hrygg og þegnar þess ráða nú yfir meginhluta Palestínu. Með svokölluðum landtökubyggðum hafa Ísraelsmenn með stuðningi stjórnvalda náð undir sig sífellt stærri landsvæðum með ólögmætum hætti, svokölluðum landnemabyggðum. Þrátt fyrir endalaus afskipti Sameinuðu þjóðanna og ályktanir um mannréttindabrot hefur ekkert þokast í átt til friðar og síðustu atburðir staðfesta það enn frekar.
Þegar þetta er skrifað er stríð milli Ísraels og Palestínu í hámarki. Ekkert er til sparað til að ná fram markmiðum ráðandi afla í Ísrael eins og nýjustu fréttir sýna. Á Gasa hafa þegar a.m.k. tvö þúsund börn verið líflátin í þessari hrinu. Engin lög ná yfir ofbeldisríki en hins vegar á maður sem fremur morð yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Í ljósi forsögunnar og hins mikla aflsmunar í þessari deilu er ekki sanngjarnt að nota orð Biblíunnar um „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“. Fyrir hvert auga sem er eyðilagt og hverja tönn sem er brotin mun vaxa upp einstaklingur sem þráir ekkert heitar en að tortíma Ísraelsríki. Fórnarlambið úr helförinni er orðið ofsækjandi og sér bara flísina í auga bróður síns en ekki bjálkann í eigin auga.
Hver er sekur? Sá sem ræðst á lítilmagnann eða sá sem svarar ofureflinu? Rifjum upp söguna af Davíð og Golíat í Gamla testamentinu sem er grundvallarrit í gyðingdómi. Golíat er risinn sem beitir gegndarlausu ofbeldi en Davíð ungur drengur sem hefur slöngvivað einan að vopni. Honum tekst að skjóta steini í enni risans og hann liggur eftir óvígur. Er ekki þarna viss samlíking við hina löngu baráttu heimamanna við óvígan her aðkomumanna? Stjórnmálamenn deila um orðalag yfirlýsinga og geta ekki komist að niðurstöðu um kjarna málsins; að stöðva ofbeldið og blóðbaðið, og þar á sá sterkari fyrsta leik. Eina færa leiðin er leið umburðarlyndis og sáttar eins og farin var í S-Afríku, Víetnam og víðar.
Taumlaus hefndarhyggja með nýtískulegustu hernaðartækni mun engu skila nema djúpum sárum á báða bóga sem seint gróa.
Höfundur er efnaverkfræðingur og eftirlaunaþegi.